mánudagur, desember 11, 2006

Að búa erlendis

Ég hef verið að spá í kostum og göllum við það að búa erlendis, er grasið virkilega grænna hinum megin? Ef svo er, hvað er það þá sem gerir það grænna? Ef ekki, þá af hverju ekki?

Ég hef nú búið hérna í 3 og hálft ár, 3 ár hérna í New Jersey og hálft ár í Florida. Að vísu eyddi ég meiri tíma í Florida en það telst ekki með í þessum hugleiðingum. Á þessum tíma hef ég upplifað og séð margt og verð alltaf þakklátur fyrir að hafa haft tækifæri til þess að upplifa þetta allt saman. Ég hef keyrt austurströnd bandaríkjana endana á milli, alveg frá Key West og alla leið upp til Kanada. Ég hef einnig séð nokkur miðríki eins og Indiana, Ohio og West Virginia. Ég hef eytt jólum í Florida og þakkargjörð í West Virginia, í algjöru eyðibýli þar sem meðaltekjur vorum um $20,000 (1,4 mill Kr) á ári, sem telst ekki mikið hérna, eiginlega alveg lágmarkið.

Það kemur ennþá fyrir mig að ég segi við sjálfan mig eða Andreu, "Við búum virkilega hérna". En það er farið að minnka verulega, og eru staðir eins og Manhattan og JFK ekki lengur eins og að koma til Mars eða Venusar. Þetta er allt farið að vera kunnulegt núna. Fyrst þegar maður var fluttur var maður alltaf að hlusta eftir því hvort maður heyrði einhverja íslensku einhverstaðar, en núna er ég farinn að ruglast stundum, þegar ég heyri ensku og held að það sé móðurmálið, en það er bara í eina sekúndu, þá fatta ég hvað ég var vitlaus þarna.

Allavegana, ég hef komist að þeirri niðurstöðu að, þó svo að grasið sé ekki endilega grænna hinum megin, þá er það a.m.k. ekki verra grasið hérna. Hérna í New Jersey fáum við mjög stutta vetri, eiginlega bara um 2-3 mánuði af árinu er eytt í kulda og snjó, afgangurinn er mjög góður. Haustin og vorin eru full af flottum litum þegar tréin eru ýmist að missa laufblöðin eða að vaxa ný. Hitinn er á bilinu 15-30 stig hérna á þessum tímum og mjög sjaldan einhver vindur. Sumrin hérna eru mjög heit, hitinn getur farið uppí 40-45 gráður þegar heitast er og verður þá jafnan ólíft hérna vegna hitans, bara hægt að liggja í sundlauginni ef maður er úti. Verðlagið hérna er miklu hagstæðara á matarvörum, bensíni og fötum, ásamt ýmsum rafmagnsvörum, eins og sjónvörpum, myndavélum og fl. En það kostar meira að fara í klippingu, og ekki eins góðir hárgreiðslufólk og heima. Það er líka dýrara að tryggja bíla, þar sem maður þarf líka að borga fyrir tryggingu gagnvart meiðslum farþega og allra sem gætu mögulega slasast í slysum. Maður þarf líka að borga fyrir heilsutryggingar og það er ekki eitthvað sem allir hérna hafa efni á. Sumir kjósa að borga ekki heilsutryggingar og treysta á góða heilsu sína og sinnar fjölskyldu.

Síðan er auðvitað stór hlutur, en það er fjölskyldan. Hún er alltaf langt í burtu, nema auðvitað þegar hún kemur í heimsókn til manns :). Það hefur vantað svolítið hérna að geta hent stráknum til fjölskyldunar þegar manni langar að komst í bíó eða út að borða með eiginkonunni, en við höfum fundið lausn á því. A.m.k. einu sinni á mánuði er svokallað "Parent Survival Night" á skemmtilegum stað sem heitir "Little Gym" og þar er Kristófer í 3 tíma á meðan við getum farið út að borða og/eða í bíó. Síðan eru auðvitað vinir sem bjóða honum í Sleep-over, þar sem hann gistir nætur hjá þeim. En auðvitað saknar maður fjölskyldu sinnar alltaf hreint og það mun aldrei breytast, en á meðan þau eru í heimsókn, þá eyðir maður 24 tímum á dag með þeim í 2-3 vikur og það er líklega meðaltalið sem maður hitti þau hvort sem er, þegar maður bjó á Íslandi.