föstudagur, desember 23, 2005

Þorláksmessa

Undirbúningurinn hérna er um það bil að vera búinn... enda ekki seinna vænna. Við erum búin að skreyta jólatréið okkar, reyndar gerðum við það síðastliðinn mánudag, og það eru komnir nokkuð margir pakkar undir tréið...sem er meira að segja ekta þessi jólin! Þetta er orðið mjög spennandi. Við verðum með hamborgarhrygg í mat á aðfangadag og svo er spurning hvenær hangikjötið verður snætt, en Rúna kom eins og jólasveinn til okkar með troðfullar töskur af allskyns góðgæti, m.a. Hangikjöt, hamborgarhrygg, Læri, fisk, lax, londonlamb og fl... ásamt íslenska meðlætinu og jólablandinu. Það vantar ekki matinn á þetta heimili á næstunni. Takk fyrir okkur Maggi og Jóhanna... og Ella, Rúna og Helgi... Maggi og Balti... og mamma og pabbi, vá, það eru margir sem þarf að þakka. Takk kærlega fyrir frábærar sendingar og án ykkar aðstoðar yrðu jólin án efa ekki eins hátíðleg og íslensk.

Til að bæta við frekari jólastemmingu, þá eru Andrea og Rúna búnar að baka einar 5 sortir af smákökum og brúnköku. Við strákanir erum mjög hrifnir af því framtaki hjá þeim og erum duglegir að "smakka" hjá þeim. Og svona til að toppa "Íslensku" jólinn var ákveðið að halda hérna jólakaffi boð á annan í jólum. Buðum við öllum íslendingum sem við þekkjum hérna á svæðinu, Eggert og fjölskylda, og Orri og fjölskylda. Það verða tilheyrandi brauðréttir í boði, nokkrar bombur, pönnsur og auðvitað heitt súkkulaði. Þetta eiga eftir að vera mjög eftirminnileg jól.

Rúna er kominn og verður hjá okkur til 14. Janúar. Hún og pabbi hennar eru svipuð, það þurfti að bíða eftir henni í hátt í 2 tíma meðan hún var að koma sér í gegnum tollinn og geri aðrir betur. En það verður frábært að hafa fulltrúa fjölskyldunnar frá Íslandi á meðal vor.

Kristófer montar sig af því að hafa 14 jólasveina þegar allir vinir hans hafa bara 1, mjög sniðugt. 13 aukasveinar frá Íslandi, og einn frá USA, sem kemur niður um ímyndaða strompinn okkar, og skilur eftir glaðning undir jólatréinu.

Kristófer er búinn að eignast nýjan vin, sem er strákurinn í næsta húsi við okkur, hann Joseph Jin sem er rúmu ári yngri en þeir skemmta sér vel saman. þeir skiptast á því að fara til hvors annars í heimsókn. það lyktar smá af íslandi að hafa þennan ganginn á. Ekki þetta process að hringja með 2 vikna fyrirvara til að plana "Play-Date". Mjög þægilegt.

Andrea og Rúna hittu íslending í Target um daginn. Það var stelpa á aldri við Andreu, hún Lilja og er mamma hennar íslensk en pabbi hennar bandarískur. Hún býr í Trenton, sem er næsti bær hérna við hliðina á okkur. Þetta bar þannig að, að hún kom upp að þeim systrunum og spurði á ensku "Excuse me girls, are you talking icelandic?". Andrea snéri sér að henni með uppglennt augun og gapandi kjaftinn og svarði "Ekki segja mér að þú sért íslensk????". Fyndið, íslendingar virðast leynast á ótrúlegustu stöðum. "We are taking over the World" !!! Mu ha ha ha. En Andrea endaði samtalið á að láta hana hafa númerið sitt... auðvitað var Andrea ekki með GSM símann sinn. (það eina skipti sem hann hefði getað komið að notum síðan hún fékk hann). Og nú er bara að bíða og vona að hún slái á þráðinn.

Að lokum viljum við óska öllu vinum og ættingum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Elmar, Andrea og Kristófer.

Engin ummæli: