miðvikudagur, nóvember 29, 2006

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Loksins

Þar kom að því. Ég er búinn að vera að spá í þessu í mörg ár, og hef aldrei fundist tæki vera "Þráðlaus". En það lítur út fyrir að það stefni loksins í það. Veit ekki hversu oft, þegar ég er að ferðast til Manhattan og er að ganga frá tölvunni í töskuna mína, ég hef hugsað með mér, "allar þessar helvítis snúrur, þetta getur varla talist þráðlaust. Það hlýtur að koma að því að þetta verður í alvörunni þráðlaust fljótlega" Og viti menn...

MBL Frétt

laugardagur, nóvember 11, 2006

Vikan sem er að líða...

Sl. sunnudag skrapp ég með tveimur vinkonum til Delaware í jólagjafaleiðangur. Þær tvær mættu með meters langan innkaupalista og það átti sko heldur betur að VERSLA. Þær hlógu frá sér allt vit þegar þær sáu listann minn...bara nöfn.

"Ertu EKKI búin að ákveða hvað þú ætlar að gefa hverjum fyrir sig????!!!" Sögðu þær í hláturs kasti.

Það var kannski eitthvað til í þessu hjá þeim því ég kom tómhent heim eftir dagslanga verslunarferð. Sem var svo sem ágætt, því að plássið í Hybrid-inum hennar Ninnie var varla hannað fyrir tvær kellur í brjáluðum innkaupaleiðangri...hvað þá þrjár :) Þær náðu að klára hverja einustu gjöf á listunum sínum. Og á meðan hélt minn bara áfram að lengjast eftir því sem leið á daginn.

Á mánudeginum var ég farin að naga neglurnar af stressi...ekki búin að finna eina einustu gjöf! Ég segi það hver einustu jól að ég ætli að klára innkaupin fyrr næstu jól á eftir. Svo enda ég alltaf með því að vera meira og meira, eftir því sem árin líða, á síðustu stundu. Síðustu jól voru sendingarnar svo tæpar að fjölskydurnar fengu þá á hádegi á aðfangadag.
Svo að seinnipartinn plataði ég strákana með mér í nokkrar búðir. Og mér til mikillar ánægju datt ég niður á nokkrar jólagjafir...vííí!!!

Við hittum bekkjarfélaga Kristófers og mömmu hans, Jacquline, í hádegismat á miðvikudaginn. Hún stakk uppá austurlenskum stað sem er nánast hérna við hliðiná okkur, en ég hafði bara aldrei tekið eftir honum. Hann var ofboðslega illa merktur og leit út fyrir að vera voða lítill og púkó utanfrá. En vá hvað hann kom á óvart þegar maður var kominn inn. Ég hef aldrei verið mikið fyrir austurlenskan mat en þetta var sá besti sem ég hef smakkað. Kristófer og Carlson fengu sér m.a. kókos drykk sem þeir fengu borna fram í ferskum risa stórum kókoshnetum og það vakti mikla lukku.

Daginn eftir buðum við svo Carlson til okkar á "playdate". Veðrið var alveg yndislegt, met hiti m.v. árstíma. Strákarnir voru úti að leika sér mestmegnið af deginum. Ninnie kíkti líka við með strákana sína uppúr hádegi.
Ég náði að draga strákana inn, gegnvota eftir vatnsbyssu ævintýri, seinni partinn og fékk þá til að jólaföndra aðeins með mér.

Á föstudeginum ákváðum hittum við Ernu, Úlf og Grím. Þau búa alveg 1 og 1/2 tíma héðan frá okkur, svo að við fundum stað sem er svona mitt á milli okkar. Við vorum svo heppin að finna þar Rainforest Cafe sem er voðalega skemmtilegur staður sem er innréttaður sem skógur. Þarna var t.d. foss, risa górillur, fiðrildi, fílar og fiskar...reyndar allt gerfi nema fiskarnir. Svo með reglulegu millibili kom gerfi þrumuveður þarna inni og látið sem fílahjörð væri að ryðjast þar í gegn með tilheyrandi látum.

Á laugardeginum var svo loksins komið að Íslenskuskólanum. Kristófer var alveg að farast úr spenningi. Hann var vaknaður fyrir allar aldir og tilbúinn að fara. Við ákváðum bara að taka daginn snemma og leggja af stað um 9 leitið. Þá höfðum við smá tíma til að slæpast aðeins í borginni til 14. Þarna hittum við svo aftur Ernu og strákana, og líka pabba þeirra, Orra. Svo við kíktum bara á kaffihús í spjall á meðan Kristófer og Úlfur voru í "skólanum". Strákarnir voru voðalega ánægðir þegar við sóttum þá. Kristófer var bara hissa þegar hann sá okkur og sagði:

"OOOhhh. Þetta var svo stutt. Þetta var eins og 5 mínútur að líða".

En brandari dagsins var þegar við vorum að bíða eftir lestinni á lestarstöðinni. Þar vatt sér upp að okkur heimilislaus maður og spurði okkur hvort við ættum eitthvað klink handa sér. Ég fer að róta í vösunum. Eina sem ég átti var einn 25c peningur. Ég rétti honum hann og segi honum svo að meira ætti ég því miður ekki. Ég sá að Kristófer sárvorkenndi manninum svo að hann grípur inní og segir alvarlegur við manninn:

"Do you accept debit cards???"

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Merkilegar fréttir

Það kom frétt á MBL sem mér finnst alveg hreint frábær, líka svona rétt eftir kosningar hérna þar sem, meðal annars, stofnfrumurannsóknir voru mikið hitamál.

Sjá fréttina

mánudagur, nóvember 06, 2006

Besta framboðsauglýsing allra tíma

Frambjóðendur keppast núna við að henda skít í hvorn annan. Þegar ég var að skoða netið fann ég þessa auglýsingu hjá Time tímaritinu. Sú besta sem ég hef séð í langan tíma. Endilega klikkið á hana til að sjá textan.


Þeir íslendingar sem hafa ekki séð þessar auglýsingar hérna, þarf alltaf að taka fram í endan á auglýsingunni hver samþykkti skilaboðin sem eru í auglýsingunni sem á undan fór, og er það venjulega gert með því að segja "I am (Nafn á spilltum stjórnmálamanni) and I approved this message".

föstudagur, nóvember 03, 2006

Vettvangsferð til Grounds for Sculpture....



Sumarveður og Field Trip

Veðrið er búið að leika við okkur þessa vikuna. Það er búið að vera heiðskýrt og mikið um sól síðasliðna daga. Hitinn fór upp í 22 gráður um daginn og var hægt að sjá fólk á stuttbuxum og stutterma bolum. Á Halloween daginn fórum við í leiðangur um hverfið við hliðan á okkar, þar sem húsin eru ekki leigð út heldur bara keypt. Þar vorum margir á ferðinni og heppnaðist ferðin mjög vel, a.m.k. verður ekki nammi skortur á heimilinu í bili.

Ég tók eftir því að næstum 3ja hvert hús var með til sölu skilti þar, maður er nú alltaf að spá. Það er bara næstum ómögulegt að ætla sér að kaupa hús hérna í New Jersey. Ekki aðeins eru þau metinn á of mikið, heldur þarf maður að borga svo fáránlega háa fasteignaskatta. Þannig að við erum líka að skoða hús í Pennsilvaniu, og ég held að við komum til með að enda þar. En það er gerist ekki strax, eftir svona 1 til 2 ár, býst ég við því að við getum farið að kaupa.

Andrea er að fara með bekknum hans Kristófers í Field Trip (lítið skólaferðalag) til Grounds for Sculpture, sem er höggmynda staður, stór og flottur víst. Kristófer er búið að hlakka svo mikið til þessara ferðar að það mætti halda að hann væri að fara í bíó með bekknum.

Núna eru kosningar á næsta þriðjudag og hlakkar mér mikið til, ekki aðeins er útlit fyrir að Demókratar nái meiruhluta á þinginu heldur, og það sem er mikilvægara, þessar bévítans framboðs auglýsingar hætta loksins. Þessar auglýsingar hafa verið mér til mikils ama. 90% þeirra ganga út það að auglýsa mótframbjóðandann í sem verstu ljósi. "Þessi mun hækka skattana þína", "Þessi gerir bara það sem Bush vill", "Þessi er í rannsókn hjá FBI". Það er naumast valið sem fólkið hérna hefur. Helstu baráttu málin virðast vera stríðið, skattar og menntun... og hver er MINNST spillt/spilltur. Mjög þreytandi allt saman.