Jæja þá er kominn tími á að segja ykkur frá á hvað daga okkar hefur drifið undanfarið.
Rúna systir kom til okkar fyrir jólin og var hjá okkur þar til í gær, en þá var víst komin tími fyrir hana að koma sér heim. Mikil lifandi ósköp leið tíminn hratt!
Það var náttúrulega byrjað um leið í köku og smáköku bakstri, einar 5 sortir bakaðar á 2 dögum...geri aðrir betur. Ekki nóg með það, svo var nátturulega ekki hægt að halda al-íslensk jól nema að tengda-mömmu-brúnkan væri bökuð og það dugði varla fram að jólum svo að það varð að henda í eina uppskrift til viðbótar. Það var sko NÓG að éta hér á þessu heimili um jólin, enda vorum við heldur betur farin að finna öll föt þrengja vel að þegar síga fór á síðari hluta jólanna.
Jólaboðið okkar lukkaðist svona líka glimrandi vel, gaman að upplifa þessa sönnu íslensku jólastemmingu. Ég og Rúna settum allt í 5ta gír á jóladag og hristum ýmsilegt góðgæti fram úr ermunum, við buðum uppá heitt súkkulaði, marengstertur, heita brauðrétti, síld, lax, íslenskar pönnsur, smákökur ásamt ýmsu öðru sem maður þekkir best frá íslensku jólaboðunum. Það er alveg klárt að ég er alveg meira en til í að hafa þetta árlegt á meðan það finnast íslendingar á þessum slóðum og líka á meðan við förum ekki heim yfir jólin :)
En það verður nú bara að viðurkennast að þetta voru ein þau bestu jól sem við höfum upplifað síðan við byrjuðum á þessu flakki okkar. Við vorum alveg ótrúlega sátt og náðum að skapa alveg gríðarlega jólastemmingu á heimilinu. Og þá er ég að tala þessa sönnu og óþvinguðu jólastemmingu sem kemur bara ósjálfrátt og andinn kemur yfir mann. Það náttúrulega skemmdi ekki að hafa nánast eingöngu íslenskan mat, drykk og sælgæti á borðum og auðvitað líka að hafa Rúnu hjá okkur.
Svo voru áramótin ekki síðri en þá bauð vinafólk okkar (Orri og Erna) okkur heim til systur Orra, en þau voru að passa húsið hennar. Þar elduðum við íslenskt lambalæri með öllu tilheyrandi...naaamminamm...það klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Svo þegar litla fólkið var komið í háttin spiluðum við nýja Trivialið og drukkum fram eftir. Þar sem þarna var nóg pláss buðu þau okkur að gista svo okkur lá ekkert á að komast heim.
Alveg frábært kvöld og kærar þakkir fyrir okkur!
Svo fengum við "óvænta" heimsókn þann 12 jan en þá komu Óðinn og Árný til okkar í heimsókn. Ég hef bara ekkert viljað minnast á það því þá hefði ég skemmt þetta fyrir honum Óðni því hann var að koma Árný á óvart með þessari ferð og þ.a.l. mátti ekkert fréttast...aldrei þurft að hafa svona mikið fyrir því að þegja, hahaha!Það var ekki fyrr en þau voru sest niður við barinn í flugstöðinni að hún fékk að vita hvert hún var í raun og veru að fara! Hann er nú alveg ótrúlegur hann Óðinn... að hann skyldi hafa komist þetta langt áður en hann varð að segja henni allt af létta, hann meira að segja batt fyrir augun á henni á leiðinni og tékkaði hana inn sjálfur! Til hamingju með 10 ára hjúskaparafmælið elskurnar og vona að þið komið aftur í heimsókn til okkar áður en langt um líður.
Hendum svo inn fleiri nýjum myndum á næstunni, svo fylgist með!
Jæja...þá er ég búin að drita niður enn einni langlokunni. Kannski ráð að blogga oftar?!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli