Ég steingleymdi alveg að segja ykkur frá því að við erum komin með ný teppi á allt húsið! Allt annað líf, engin skítalykt þegar maður kemur inn úr ferska loftinu. Svo er það svo þykkt m.v. það gamla að maður sekkur alveg niður í það. Og sérstakar þakkir fá Egger og Óli fyrir það að hafa keyrt alla leiði til okkar, tvö kvöld í röð og hjálpað okkur með flutningana...Takk strákar!
Þessi vika í grófum dráttum:
Emmi fór á svona "guys night out" á þriðjudaginn, það var víst rosa gaman hjá þeim svo að þetta er orðinn mánaðarlegur viðburður. Næst verður það á Hooters, voða djarfir þykir mér :)
Kristófer byrjaði í Cub-Scouts eða skátunum í gær, hann fílaði það alveg í ræmur.
Svo skráðum við hann í eitthvað sem heitir "Sockey"...skylst að það líkist eitthvað hokkí nema ekki á svelli og sokkur settur á prikin(?!).
Kristófer er loksins laus við strepptakokkana, en hann er búin að vera í reglulegu eftirliti hjá lækni í 4 vikur því að það gekk illa að ná þessu úr honum. Finnst það nú fullmikið að hafa hann á sýklalyfjum í tæpan mánuð. Vonum bara að hann sleppi við að fá þetta aftur það sem eftir er af skólanum.
Nú svo fór ég líka á svona "girls night out" á fimmtudagskv. með 5 Amerískum stelpum, það var bara alveg rosalega fínt og stelpurnar alveg rosalega hressar. Fórum á alveg frábæran ítalskan veitingastað hérna í nágenninu sem ég keyri oft framhjá en hafði ekki hugmynd um að væri þarna, vel falinn.
Veðrið hérna hefur verið alveg hreint yndislegt...að undanskyldum smá snjóstormi hérna í byrjun mánaðarins get ég varla kallað þetta vetur. Við vorum búin að búa okkur undir 2-3ja mánaða frosthörkur, en þær hafa nú bara ekki enn látið á sér kræla af nokkru ráði. Janúar og febrúar hafa verið verstu mánuðirnir, oft farið yfir -20 C hjá okkur síðastliðna vetur. Það er varla að það hafi farið niður fyrir frostmark hérna núna. Svo fer bara að vora í lok mars-byrjun apríl...júbbí!
Dagurinn í dag fer sennilega í að baka bollur fyrir bolludaginn á mánudaginn (er það ekki rétt hjá mér að hann sé á mánudag annars?) Klikka alltaf á þessu, frétti yfirleitt nokkrum dögum eftir að hann er búin, að ég gleymdi honum. Svo að ég ætla að gera þetta tímanlega þetta skiptið.
Frétti að þessar klikkuðu ekki...
Vatnsdeigsbollur
2,5 dl vatn
50 g smjörlíki
salt á hnífsoddi
175 g hveiti
4-6 egg
2 tsk. lyftiduft.
Þeyttur rjómi
Sulta
Brætt súkkulaði.
------------------------
Aðferð:
Vatn, smjörlíki og salt hitað í potti. Tekið af hellunni þegar sýður og hveitið hrært út í. Sett á helluna aftur og hrært vel í mínútu. Þá er deigið látið kólna og sett í hrærivélaskál. Eggin, eitt og eitt í senn, eru svo hrærð saman við þar til deigið er hæfilega þykkt. Þá er lyftiduftið sett út í. Sett á hveitistráða plötu með skeið eða sprautupoka. Bakað við 180°C í ca. 30 mín. Fyrstu 20 mínúturnar má alls ekki opna ofninn, því þá geta bollurnar fallið. Því næst er bræddu suðusúkkulaði smurt á bollurnar. Að loknum er svo toppurinn skorinn af og rjómi og sulta sett á milli.
Góða helgi!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Jahá. Kristófer bara byrjaður í skátunum. Ég er nú gamall skáti en eftir að hafa horft á nágranna dreng minn taka þátt í þessum félagsskap hérna þá mun ég ekki nefna þetta á nafn við mína stelpu því foreldrastarfið í þessum skátabransa hér er ekkert smá mikið (allavegna í IN;)
Annars aftur til hamingju með teppin. Gott að einhver nennir að baka bollur því ekki ætla ég að gera það. Á samt saltkjöt í frysti fyrir sprengidaginn. Ertu búin að safna liði fyrir öskudaginn og æfa?????
Jæja bullið búið. Gaman að þið eruð orðin öflugri í blogginu eftir þessa miklu bloggstipation.
Kveðja, Fanney
Skrifa ummæli