föstudagur, október 10, 2003

Á þriðjudaginn í síðustu viku fór ég með Fanney inn á Miami að hitta nokkrar íslenskar skvísur sem eru búsettar þar. Og það voru ekki tvær eða þrjár stelpur...heldur sex og hópurinn fer víst stækkandi! Það var ákveðið að þetta yrði mánaðarlegur viðburður, fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði. Já það er greinilega nóg af Íslendinum hérna. Við hittumst á stað sem heitir Houstons og hann er víst voða hip og trendí núna. Það hlýtur eigilega að vera því að við þurftum að bíða eftir borði í 2 tíma. Ég verð nú að segja fyrir mitt leyti að ég varð nú fyrir vonbrigðum þegar ég loksins fékk matseðilinn í hendurnar. Úrvalið var nú ekki upp á marga fiska. Eftir alla þessa bið og garnagaul pantaði ég mér salat...veiiii! En félagsskapurinn bætti þetta nú upp og við sátum þarna fram yfir miðnætti og spjölluðum. Ég kunni vel við allar stelpurnar og hlakka til að hitta þær aftur í næsta mánuði.

Sl. föstudagur byrjaði heldur snemma hjá okkur því að þann dag var farmers day (bænda dagur) í Orchard View (skólanum hans Kristófers) og af því tilefni var foreldrum boðið á söngskemmtun Kl. 07:30 um morguninn. Börnin sungu fyrir okkur nokkur lög og Kristófer gaf hinum börnunum ekkert eftir í söng og sprelli. Að því loknu var boðið upp á djús og bakkelsi. Mrs. Rodney og aðstoðarkona hennar höfðu báðar orð á því hversu eftirtektarsamur og duglegur hann væri og að þær hefðu aldrei kynnst barni sem tæki svona miklum framförum í ensku á svona stuttum tíma. Við foreldrarnir vorum við það að rifna úr stolti yfir litla unganum :).
Þennan sama dag voru Essý, Gylfi og synir að leggja af stað frá Íslandi.

Af því tilefni ákvaðum við að hafa smá móttöku hérna hjá okkur, á laugardaginn, þegar ferðalangarnir kæmu heim. Högni, Fanney og Hildur komu hingað um klukkan 11 um morguninn til að hlusta með okkur á beina útsendingu frá viðureign Íslands og Þýskalands (förum ekkert nánar út í þann leik :)). Gylfi og fjölskylda lentu kl 14 og við tókum á móti þeim með köldu pasta hlaðborði sem ég hafði matreitt kvöldið áður. Um kvöldið buðu Fanney og Högni okkur í heimsókn og Kristófer að gista. Essý lánaði okkur mjög skemmtilegt spil sem hún hafði keypt á Íslandi sem heitir Partý og co.

Engin ummæli: