þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Flashback...
nú er komið rúmt ár síðan Janet Jackson beraði pepperóníið á svo minnisverðan hátt í hálfleik Superbowl. Þetta atvik hefur haft ýmsar afleiðingar í för með sér...eins og t.d. í síðasta Superbowl var Paul McCartney látinn sjá um að hrista uppí lýðnum í hléi...hann stóð sig nú alveg ágætlega þó hann sé vel veðraður kallinn. S.s. engir ungir og fallegir ofurhugar fengnir til að skemmta, og gætu hugsanlega tekið uppá því að bera sig fyrir alþjóð.

Við familían misstum af Superbowlinu í fyrra, minnir að við höfum bara verið í miðjum flutningum á þessum tíma. En ég man vel að þetta var í ÖLLUM blöðum og fréttum í margar vikur á eftir og alltaf var þetta sýnt alveg þræl "edit-að" svo að við vissum aldrei nákvæmlega útaf hverju allur þessi æsingur var. Sjáið hvað Janet gerði!!...Svo sá maður ekki neitt! Fór á endanum inná MBL-ið góða og sá myndina ó-skyggða...that´s it?? Hugsaði ég.

Það er ekki langt síðan ákveðið var að sekta FOX sjónvarpsstöðina um einhverja fáránlega summu með möööörgum núllum fyrir að hafa sent þetta út. Svo að núna er flest sem er í beinni....í raun ekki í beinni, því þeir vilja tryggja það að svona lagað gerist ekki aftur og því er nokkurra sekúntna "delay" á flestu sem þeir senda út....hvað kallast það þá? Almost live? Óskarsverðlaunaafhendingin um næstu helgi verður t.d. með 5 sekúntna "delay" svo eru klippikallar reddí með skærin til að klippa út ef eitthvað ósæmandi er sagt eða gert...hvað ef einhver segir eða gerir eitthvað í meira en 5 sek? Kannski þeir bjóði fyrirtækjum svona áhættu auglýsingarpakka...kostar skítt...og birtist bara ef einhver ákveður að skandalisera? Hei, jú never nó :)

Kveðja,
Andrea sem ætlar að glápa á Óskarinn um helgina... í næstum beinni ;)

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Ég hefði nú átt að sleppa því að tjá mig eitthvað um veðrið hérna í vikunni, haldiði að það sé ekki búið að spá komu "Blizzards" hins síðari í kvöld. Ekki á ég nú von á miklum hasar, amk. ekki í veðrinu, sé hinsvegar fyrir mér örtröðina í búðinni, allir að byrgja sig upp af vistum....því það er náttúrulega að koma heimsendir!

laugardagur, febrúar 19, 2005

Nýjar myndir í febrúar albúminu

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Það er búin að vera svona líka bongó blíða hérna í dag...14 stig! Sól og meira að segja það heitt að yfirhöfnum var gefið frí...jasso! Vona bara að þetta sé smjörþefur af því sem koma skal á næstu vikum, nenni ekki að fá meiri snjó.

Jæja, þá erum við hjónin loks búin að koma okkur af stað í ræktina aftur...mikið var! Ég var nú ekkert á leiðinni að fara í morgun, hélt að ef ég hunsaði það myndi ég komast upp með enn eitt skrópið... en sá draumur entist nú ekki lengi...Fannsa hringdi í mig og messaði yfir mér með fögur fyrirheit um glæstan bíkíní kropp og mini-pilsa glatt sumar...hahaha! Ég lofaði henni því að ég myndi drífa mig um leið og ég leggði á... Auðvitað gat Emmi ekkert gefið mér eftir, svo að hann skelli sér með. Gúddness hvað fyrstu 10 mínúturnar voru lengi að líða á brettinu...en svo fór þetta að lagast og á endanum langaði mig bara ekkert að hætta. Auðvitað velti maður sér uppúr því eftir á afhverju maður var ekki fyrir löngu búin að koma sér af stað aftur. Svo að nú, eins og svo oft áður, heitir maður sjálfum sér því að taka sér ekki svona hlé aftur...það verður fróðlegt að sjá hvað það loforð endist lengi í þetta skiptið? Svo að nú er ískápurinn alveg strípaður af öllu sem inniheldur sykur, fitu eða einhverju fitubolluvænu....nú er hann troðinn af hlutum sem innihalda eitthvað af eftirfarandi orðum í heiti þess, light...diet...0 carbs... fit...-free...!
S.s. engar freistingar að finna á þessu heimili.

"Deitið" okkur um helgina gekk bara vel og þeim vinunum kom mjög vel saman. Lisa og John (foreldrar Andrew) eru mjög fín og við vorum hjá þeim að spjalla um heima og geima í tæpa 3 tíma. Þau vilja endilega hittast aftur, fara út að borða saman eða eitthvað skemmtilegt. Ætli við bjóðum þeim ekki öllum í kaffi fljótlega svona til að sýna þeim "aðstæður", þá gætu þeir jafnvel farið að hittast meira eftir skóla.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Gleðilegan Valentínusardag!

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Nýjar Myndir komnar inn í Febrúar Albúmið...

laugardagur, febrúar 12, 2005

Ef þið viljið læra nokkur ný spor fyrir ballið í kvöld...kíkið þá á þetta !!!

föstudagur, febrúar 11, 2005

Vúhúú...Kristófer er komin með appelsínugula beltið í karate! Hann stóð sig mjög vel í kata prófinu og náði því að fá nýtt belti, sem hann svo fékk á miðvikudag. Talandi um það...við bættum inn linknum á karate skólann hans Kristófers en þar er hægt að sjá honum bregða fyrir á einhverjum myndum.

Síðasta laugardag kom Brynjar við hérna og var hjá okkur fram á miðvikudag, en hann kom við hérna á leiðinni heim frá Seattle. En Brynjar er, eins og Gummi, æskufélagi Elmars frá því í Bolungarvík. Það er alltaf gaman að fá gesti svo að við vonum að fleiri vinir og ættingjar fari nú að reka inn nefið hérna hjá okkur.

Á mánudag er svo Valentínusardagurinn. Kristófer verður sennilega á kafi í korta-skrifum alla helgina en það þarf að skrifa kort til allra bekkjarfélaganna og kennaranna, svo verðum við að finna eitthvað sætt handa kennurunum líka...konfekt eða bangsa eða eitthvað á þá leið.

Um helgina er svo búið að panta "play-date" með Andrew bekkjarfélaga Kristófers en þeir eru eins og samlokur alltaf hreint, bestu vinir. Við ætlum að hitta hann og foreldrana á einhverjum leikvelli hérna og leyfa þeim að leika sér saman. Maður er nú algjör gúrka í þessu, veit ekkert hvernig þetta virkar hérna og hvenær þeir fá svo að koma í heimsókn til hvors annars. En þetta er náttúrulega alls ekki eins og gengur og gerist á Íslandi þar sem krakkar hlaupa bara á milli húsa og spyrja eftir vinum sínum. Hérna hringjast foreldrarnir á og panta "play-date".

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Nýjar myndir komnar inn í Febrúar albúmið.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Bolla, bolla, bolla....!

laugardagur, febrúar 05, 2005

Helgarsportið...

Kristófer fór á sínu fyrstu og jafnframt síðustu æfingu með sundfélaginu 'Stingrays' í gær...hmm. Já, fyrir utan að þetta voru allt mikið eldri krakkar, stóð okkur ekki alveg á sama að sjá hann svamla þarna innan um 50 krakka og einn þjálfari að reyna að hafa hemil á hersingunni.
En við erum búin að komast að því að það sé mun betri sundnámskeið hjá YMCA (du-ruddu-du...fer ósjálfrátt að humma lagið í hvert skipti sem þetta félag er nefnt) en þar eru mun minni hópar og þeir eru aldursskiptir.

Annars er allt að verða vitlaust hérna, Philadelphia Eagles (lið í Ameríska fótboltanum,NFL) mætir New England Patriots í Superbowl á morgun, en það er, að ég best veit, stærsti íþróttaviðburður ársins hérna og það lið sem vinnur verður "heimsmeistari" Bandaríkjanna. Þó svo að liðið sé frá Philadelphia, halda allir hérna í Jersey með því, því að það er ekkert lið í NFL héðan...
mjög hentugt því þá eru líkurnar meiri, því við getur líka haldið með NY Giants...ég tek það fram að núna er ég bara að tala fyrir mig :)
Patriots unnu superbowl í fyrra, en mér skilst að Eagles hafi aldrei unnið þessa keppni en einu sinni áður komist í Superbowl og þá tapað.

Ella systir var svo indæl að minna mig á að á mánudaginn er bolludagur og að ég gæti nálgast bollu-uppskriftir í Fréttablaðinu á netinu (föstud. 4 feb, bls. 18, fyrir þá sem vantar uppskrift). Eins gott að hún gerði það því að ég var ekkert að spá í því frekar en fyrri daginn. Ég mundi eftir honum tveim dögum of seint á síðasta ári og var ansi skúffuð yfir því, það er ekkert gaman að borða bollur á venjulegum miðvikudegi !


Góða helgi og GO EAGLES!!!



fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Hillú...
Um síðustu helgi fórum við á "kvöld-vökuna" í skólanum hans Kristófers og skemmtum okkur vel. Þar var dansað, sungið, föndrað og étið. Kristófer bjó til Íslenska fánann og gekk stoltur með á hann milli borðanna og tilkynnti manni og öðrum að þetta væri Íslenski fáninn og að hann væri frá Íslandi. Þá kom það í ljós að nokkrir áttu vin eða ættingja í hernum, og þeir hefðu einhverntíman verið staðsettir á vellinum í Keflavík. Og auðvitað fengum við að heyra allt um það, hvað Ísland væri frábært, lopapeysurnar hlýjar og þar fram eftir götunum.

Á laugardeginum skruppum við í þotu/sleðaleit, eftir mikla leit fundum við þessa fínu þotu og ákváðum að reynslukeyra hana í næstu brekku....hmmm...hljómar einfalt...en ekki hér, ó nei. Við keyrðum Lawrenceville þvert og endilangt og komumst að því að hér eru engar brekkur...ekki svo mikið sem aflíðandi halli :o(

Svekkt ákváðum við að gefast bara upp og koma okkur heim. En viti menn, á leiðinni inní hverfið tökum við eftir þessari fínu brekku hérna rétt hjá okkur. Ok...ok...þetta er enginn Arnahóll eða laut, en nokkuð góð buna svona til að prófa nýju fínu þotuna. Þetta var alveg til að toppa daginn fyrir Kristófer, hann skemmti sér konunglega:

"...eina ferð enn...bara eina í viðbót...kommon síðasta ferðin núna..."

Í gær var svo karate próf hjá Kristófer, í Kata æfingum. Sensei sagði að hann hefði staðið sig mjög vel og að í næstu viku ætti hann að fá appelsínugult belti.
Næsta föstudag byrjar hann svo á sundæfingum með sundfélagi sem heitir 'Stingrays' og eru æfingarnar tvisvar í viku, og í apríl byrjar hann líka á sundnámskeiði sem við skráðum hann í fyrir nokkru. Það er eins gott að halda sundkunnáttunni við því hér er ekkert skólasund.

Í gær fengum við svo miða heim um að það væri verið að endurskipuleggja skiptingu hverfa á hvern skóla hérna í Lawrenceville og kom það í ljós að Kristófer lendir því miður í því að þurfa skipta um skóla næsta vetur. Hann á því að færast yfir í skóla sem heitir Benjamin Franklin Elementary School sem er í næstu götu við Eldridge Park. Ég veit nú ekki mikið um þann skóla en við fáum að skoða hann í næstu viku á kynningarkvöldi sem haldið verður þar.

Að endingu langar mig að minna á gestabókina góðu og comment eru líka vel þegin...Essý takk fyrir að vera dugleg að commenta hjá okkur ;o)

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Jæja þá er röðin komin að "my little dumpling"!
Hún Rúna Björk, yngsta systir mín, á afmæli í dag...
innilegar hamingjuóskir með 15 ára afmælið skvís!
Við söknum þín og vonum að þú komir fljótlega til okkar í heimsókn.

Milljón kossar og kæfi-knús,
Adda, Emmi og Kristófer.