fimmtudagur, desember 25, 2003

Gleðileg jól og farsælt komandi ár til allra sem þetta sjá. Þorláksmessa og aðfangadagur voru með eins hefðbundnum hætti og hægt er hérna í 28 stiga hita. Við vorum í stressi við að klára innkaupin og hafa okkur til alveg fram á síðustu stundu. Við mættum svo til Högna, Fanneyjar og Hildar kl. 17:30 og klukkan hálf sjö var borinn fram forréttur að hætti móður Högna, humar, hörpuskel og rækjur í rjómasósu með bræddum osti yfir...mmmm mjög gott. Svo á eftir forrréttinum kom að alveg dýrindis hamborgarhrygg (í boði Magnúsar og fj. á Víðimel, kærar þakkir fyrir sendinguna) brúnaðar kartöflur, rjómaseveppasósa og annað gott meðlæti, meðal annars gúrkuhlaupið fræga. Síðan var gengið frá í snarhasti og tekið til við að opna gjafir. Kristófer var alveg í skýjunum yfir því sem hann fékk (við viljum við þakka kærlega fyrir allar þær gjafir sem við fengum sendar) og við Andrea líka. Eftir að búið var að opna gjafirnar borðuðum við eftirréttinn sem samanstóð af heimalöguðum súkkulaði ís, koníaki og Nóa konfekti. Að þessu loknu vorum við öll orðin mjög þreytt og ákváðum því að drífa okkur heim á leið. Að morgni jóladags vaknaði Kristófer eldsnemma, þó svo að hann hefði farið seint í háttinn, og allar gjafirnar voru prófaðar. Hann fékk margar íslenskar bækur sem við eigum eftir að lesa fyrir hann á næstu vikum. Á hádegi lagaði Andrea ekta Íslenskt súkkulaði og pönnukökur með rjóma,svo voru dregnar fram smákökur sem hú hafði bakað fyrir jólin. Gylfi og fjölskylda kíktu líka til okkar í kakó og pönnsur. Í kvöld ætlum við Íslendingarnir að hittast heima hjá Essý og Gylfa og borða saman hangikjöt með öllu tilheyrandi og svo verður líklega spilað fram eftir kvöldi.

Á því hálfa ári sem við höfum búið hérna höfum við eignast alveg yndislega vini sem okkur þykir afskaplega vænt um og eigum eftir að sakna mjög þegar við flytjum í burtu. Essý, Gylfi, Fanney, Högni og börn, þið hafi gert okkar dvöl hérna í Flórída ánægjulega (Amazing :) og það er ómetanlegt að geta leitað til ykkar og hafa ykkur innan handar ef eitthvað bjátar á. Jólin hefðu einkennst af heimþrá og einmannaleika ef að við hefðum ykkur ekki hérna, en með ykkur hefur okkur tekist að mynda sanna Íslenska jólastemmningu sem seint gleymist.

Annað helst í fréttum er að ég er búinn að fá tilboð frá fyrirtæki í New York, og ætla ég að taka því, það má segja að "They made me an offer I can´t refuse". Það á síðan eftir að koma betur í ljós hvenær við flytjum þangað, en ég þarf líklega að fara þangað strax eftir áramót, og Andrea og Kristófer fylgja væntanlega fljótlega á eftir, eða eftir að Kristófer er búinn í skólanum. Þetta kemur allt betur í ljós á morgun og á næstu dögum. Ég var í New York síðastliðinn mánudag og fékk þar bara konunglega meðferð, boðið upp á 5 stjörnu hádegisverð. Síðan gerðu þeir mér tilboðið og buðu mér út að borða í kvöldmat og eins mikið koníak og ég gat í mig látið...hikk. Ég sá Empire State Building, Maceys (Stóru búðina sem að fjölskyldur í New York og nágrenni gera sér ferð í bara til að sjá frægustu jóla gluggaútstillingu í US.), Höfuðstöðvar MTV, staðinn þar sem þeir taka upp David Letterman og á veitingastaðnum sem við fórum á um kvöldið sat ég tveimur borðum frá Guiliani fyrrverandi borgarstjóra New York. Skrifstofa þessa fyrirtækis sem ég er að fara að ráða mig hjá er í Manhattan, s.s. í miðbæ New York. Við komum samt til með að búa í einu af úthverfinu þarna, við erum ekkert búin að skoða það en New Jersey er líklegt.

mánudagur, desember 22, 2003

Helgina 19-21 Desember ákváðum við að rúnta til Georgiu að heimsækja vini og ættingja þar. Við ætluðum að leggja af stað við sólarupprás en þar sem að þennan sama dag var jólaball og jólaveinninn kíkti í heimsókn í skólann hjá Kristófer ákváðum við að bíða með að leggja af stað til klukkan 10:30. Samkvæmt nákvæmum útreikningum átti keyrslan að taka 10 tíma. En inní þessa útreikninga gleymdist aðvitað að reikna með matar og pissustoppum sem enduðu með að verða ansi mörg á þessari löngu leið. Við ákváðum að byrja á að heimsækja vinafólk okkar í Columbus sem er í um klukkustundarfjarlægð frá Atlanta. Þegar við vorum búin að keyra eftir hraðbrautum klukkustundum saman tóku við fjórir tímar á myrkum sveitavegum Georgiu , engar bensínstövar og enn minna af fólki á ferli. Þvílíkur léttir að sjá fyrir heitnu borgina í allri sinni ljósadýrð, þar sem að bíllinn gekk áfram á bensíngufunum einum. Um klukkan 23 lentum við hjá Írenu, Charles og Agöthu, og tóku við miklir fagnaðar fundir. Agatha dóttir þeirra var enn vakandi og beið spennt eftir að hitta Kristófer og tókst á meðal þeirra mikill vinskapur, bara eins og þau hefðu alltaf þekkst. Eftir að börnin sofnuðu sátum við fullorðna fólkið og spjölluðum fram eftir nóttu. Charles reytti af sér brandara og sögur sem voru bæði áhugaverðar og svo fyndnar að við áttum bágt með okkur. Snemma næsta dag fórum við í bíltúr um bæinn og þau sýndu okkur ný einbýlsishús sem hægt var að fá fyrir slikk þarna í bænum. 200 fm hús staðsett við vatn með öllu, ss. innréttingum, gólfefnum, nuddbaðkari og öllum helstu heimilistækjum á rétt um 12 milljónir íslenskar. Svo buðu þau okkur út að borða í hádeginu á uppáhaldsveitingastaðinn þeirra sem var Mexikanskur og sá besti sem við höfum farið á hingað til. Eftir það þurfti Charles að fara vinnuna og bauð okkur með sér þangað og fór með okkur í einkatúr um USPS(Unites States Postal Service) og sýndi okkur hvað gerist þar á "bak við tjöldin" og var það mjög áhugavert. Kæru Írena og Charles takk kærlega fyrir okkur! Uppúr klukkan þrjú héldum við áfram í þessu "litla" ferðalagi okkar og stefnan tekin á Athens þar sem að Pétur frændi og fjölskylda eru búsett. Til að komast þangað fórum við í gegn um Atlanta. Athens er mikill háskóla bær og bar þess augljóslega merki. Við vorum svo dáleidd af öllum fraternety (bræðra og systralög held ég að það sé á góðri íslensku) byggingum, sem voru mörg á við hvítahúsið í útliti og skreytt í bak og fyrir með jólaljósum, að við villtumst af leið. En með hjálp GSM símans og Hörpu á línunni fundum við loks húsið þeirra. Mikið var gott að sjá kunnugleg andlit á ný. Anna systir Magnúsar (pabbi Andreu) var í heimsókn hjá þeim og ætlaði að vera hjá þeim yfir jólin.Þegar við komum voru Harpa og Anna voru í óðaönn að undirbúa kvöldmat. Eftir mat var setist niður og spjallað. Pétur er í háskóla þarna í Athens og Harpa er heimavinnandi með litlu fjölskyldu meðlimina, Sigurð(4 ára) og Elísu(10 mánaða). Mikið var nú gott að leggjast til hvílu þetta kvöld, það tekur greinilega á að keyra svona mikið. Kæru Pétur, Harpa og Anna, takk kærlega fyrir okkur! Eftir næringaríkan morgunverð var lagt í´ann á ný, okkar beið 13 tíma keyrsla heim á leið. Leiðin heima var frekar erfið og löng en gekk samt vel fyrir utan eina óverðskuldaða hraðasekt. Við erum samt sammála um það við hjónin að þessi ferð hafi verið vel þess virði og yndislegt að vita til þess að maður eigi góða fjölskyldu og vini að hérna í US.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Ég sit núna í fundarherbergi hjá Aston Group, í Annandale Virginia og bíð eftir að leigubíllinn minn komi að ná í mig til að fara með mig á flugvöllinn. Viðtalið gékk rosalega vel og var ég látinn fara í próf hérna, bæði skriflegt og verklegt, gefið var 30 mín fyrir skriflega og 30 mín fyrir verklega og ég kláraði bæði á 15 mín hvort. Náunginn, Lindsay, sagði að enginn hafði áður klárað þetta próf, hvað þá á 15 mín. Hann bauð mér síðan í mat, sagði mér frá Aston, og sagði að ég ætti von á opinberu tilboði fljótlega í póstinum. Ég er mjög spenntur fyrir þessu dæmi hérna og býst við að skrifa undir samning seinna í vikunni eða byrjun næstu viku. Ég á ennþá eftir að skoða að vísu New York og Los Angeles, en þetta er mjög gott tækifæri hérna. Ekki aðeins stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum, heldur eru þeir að bjóða mjög góðann "Benefits" pakka í kaupæti, og bónuskerfi sem á eftir að koma sér vel. Annandale er svona eins og Reykjavík, a.m.k. það sem ég hef séð, mjög fallegur bær og hérna er snjór núna, þannig að... Mamma, farðu að finna sængurnar okkar og skíðagalla :)

En ég verð líklega að skoða hina möguleikana fyrst áður en ég skrifa uppá nokkuð. Bara til að vera viss um að ég sé að taka réttu ákvörðunina. En ég held að ég komi til með að vinna fyrir þetta fólk hérna. Þeir eru líka búinir að segja að ég get unnið frá Florida fyrstu mánuðina, eða þangað til að leigusamningurinn minn við Citation Club er útrunninn. Sem er alveg stór plús, þá getur Kristófer fengið að klára skóla árið þar.

Snjókveðjur frá Annandale, eða Washington sem er í 5 mín fjarlægð. Elmar.

Ps. þegar ég kom heim sá ég póst frá öðru fyriræki sem er búið að bóka flufar til New York á næsta mánudag og til baka á þriðjudaginn, þannig að ég kemst ekki hjá því að fara, vill ekki að það komi vont orð á mig hérna í USA fyrir að snubba svoleiðis. Navision heimurinn hérna er það lítill. En ég er samt spenntastur fyrir Aston... Ennþá.

mánudagur, desember 15, 2003

Jæja, eins og flestir kannski vita þá er ég að skipta um vinnu. Ég er í miðju ferli að leita mér að annar vinnu og er búinn að fara í 2 viðtöl sem gengu mjög vel, og er að fara í annað á morgun í Annandale, Virginia, sem er rétt hjá Washington,DC. Það er hjá stærsta fyrirtækinu í þessum bransa... í heiminum. Síðan er fólk að sýna áhuga frá New York, Los Angeles og Kanada. Þannig að það verður mikið að gera hjá mér á næstunni í viðtölum og þess háttar. Ég mun láta ykkur vita um framvindu mála.

Annað í fréttum er að Delray Beach ákvað að við söknuðum snjós og bjó til skafl handa okkur, úr gervisnjó, á laugardaginn síðastliðinn. Við fórum með Kristófer þangað og leyfðum honum að leika sér, hann var nú samt ekki mjög spenntur yfir því. Hann, eins og foreldrarnir, er greinilega hrifnari af sólinni. Strax eftir snjóævintýrið mikla fór Kristófer í fótbolta og er hann allur að koma til, hann sólaði þarna dreng og annan, og var áberandi bestur í sínu liði. Hann var umtalaður fyrir þetta í okkar litla fótbolta hóp. Seinna um daginn fórum við Högni í golf, eins og venjulega, hjá Delray Beach Golf Club sem er með mjög stórann völl og var það mjög gaman. Á meðan var Andrea og Essý á fullu að baka smákökur fyrir jólin, en þær voru með íslenskar uppskriftir og bandarísk hráefni. Það heppnaðist samt mjög vel, ekki eins og á Íslandi en mjög góðar kökur samt. Sérstaklega Sörurnar, þær verða væntanlega búnar fyrir jól ;) Á sunnudaginn fóru Andrea og Fanney síðan í Dolphin Mall niðri í Miami til að versla föt á börnin. Eftir erfiðan dag, þar sem mikið var gengið, gékk samt ekki vel, Andrea kom bara heim með eina peysu á drenginn. Á meðan fórum við Högni með Kristófer og Hildi í park og leyfðum þeim að leika sér þar til það byrjaði að rigna. Þá drifum við okkur á Science museum, Vísinda safn. Þar var margt að sjá og skemmtu krakkanir sér konunglega.

þriðjudagur, desember 02, 2003

Jæja, þakkagjörðahátíðin kom og fór, hún var einstaklega þægileg og skemmtileg. Á fimmtudaginn var mikið að gera, fórum í golf um morguninn og síðan var stefnan tekinn á dýragarð með börnin, við karlanir fórum með þau í Safarí dýragarð með ljónum og fullt af öðrum dýrum, þetta var svona garður sem maður keyrir í gegnum, mjög skemmtilegt. Á meðan við vorum að spóka okkur þar, uppteknir við að halda börnunum frá ljónskjöftum og nashyrningum, voru konurnar heima að undibúa máltíðina. Eftir að hafa forðað börnunum frá því að vera étin fórum við heim til Högna og Fanneyjar með allan skaran og þar fengum við rosalega góðan,stóran og flottan kalkún, og svo mikið girnilegt meðlæti að ég treysti mér ekki í að telja það allt upp.

Þangað kom síðan nýr íslendingur sem verður í skóla hérna eitthvað næstu árin. Hann heitir Siggi og er líka með aukavinnu í Delaire, sem er Country Club með golfvelli sem "almenningur" hefur ekki aðgang að. Þessi klúbbur er við hliðina á okkar community, Citation Club. Auðvitað er HINN íslendingurinn hérna í Delray að vinna við hliðina á okkur. Hann sagðist ætla að bjóða okkur strákunum að spila á golfvellinum þar sem á víst að vera rosalega góður og flottur, það líst okkur ekki illa á. Enda ekki á hverjum degi sem maður fær að fara í golf með þotuliðinu í staðinn fyrir elliheimilinu.

Föstudagurinn fór í að slappa af, það voru allir búnir á því eftir þessa máltíð og bara daginn í heild sinni.

Á laugardaginn fórum við til Miami, bara til að rúnta, og enduðum í Doral hverfinu okkar gamla. Það var ekki um að villast að við vorum komin aftur þangað, mjög fáir töluðu ensku. Það er sagt um Miami, "where english is a second language" og við erum alveg sammála um það. Við fórum í smá innkaupaleiðangur og keyptum jólaskraut. Síðan um kvöldið var haldið spilakvöld hérna hjá okkur, við buðum uppá pasta og kaffi og með því eftir það. Það var spilað langt fram á kvöld.

Á sunnudaginn lá leið okkar í bíó, enn og aftur, og þar sáum við mynd sem að heitir Elf. Planið var að sjá "Cat In The Hat" en við komum aðeins of seint og það voru bara 9 sæti laus og ekkert þeirra saman, þannig að við fórum á þessa mynd. Mjög fyndin mynd en því miður fyrir Kristófer þá fannst honum ekkert gaman af henni. Þannig að þetta er meiri fullorðins mynd heldur en barnamynd. Um kvöldið byrjuðum við síðan að skreyta fyrir jólin og er íbúðin fljótt að verða mjög jólaleg, enda hægt að fá margt skemmtilegt til að skreyta hérna í henni Ameríku.

Aðrar fréttir eru þær að við eigum von á Þóri frænda í heimsókn í Júní á næsta ári, hann gékk frá ferðinni núna á mánudaginn og hlakka okkur mikið til að fá hann.