Gleðileg jól og farsælt komandi ár til allra sem þetta sjá. Þorláksmessa og aðfangadagur voru með eins hefðbundnum hætti og hægt er hérna í 28 stiga hita. Við vorum í stressi við að klára innkaupin og hafa okkur til alveg fram á síðustu stundu. Við mættum svo til Högna, Fanneyjar og Hildar kl. 17:30 og klukkan hálf sjö var borinn fram forréttur að hætti móður Högna, humar, hörpuskel og rækjur í rjómasósu með bræddum osti yfir...mmmm mjög gott. Svo á eftir forrréttinum kom að alveg dýrindis hamborgarhrygg (í boði Magnúsar og fj. á Víðimel, kærar þakkir fyrir sendinguna) brúnaðar kartöflur, rjómaseveppasósa og annað gott meðlæti, meðal annars gúrkuhlaupið fræga. Síðan var gengið frá í snarhasti og tekið til við að opna gjafir. Kristófer var alveg í skýjunum yfir því sem hann fékk (við viljum við þakka kærlega fyrir allar þær gjafir sem við fengum sendar) og við Andrea líka. Eftir að búið var að opna gjafirnar borðuðum við eftirréttinn sem samanstóð af heimalöguðum súkkulaði ís, koníaki og Nóa konfekti. Að þessu loknu vorum við öll orðin mjög þreytt og ákváðum því að drífa okkur heim á leið. Að morgni jóladags vaknaði Kristófer eldsnemma, þó svo að hann hefði farið seint í háttinn, og allar gjafirnar voru prófaðar. Hann fékk margar íslenskar bækur sem við eigum eftir að lesa fyrir hann á næstu vikum. Á hádegi lagaði Andrea ekta Íslenskt súkkulaði og pönnukökur með rjóma,svo voru dregnar fram smákökur sem hú hafði bakað fyrir jólin. Gylfi og fjölskylda kíktu líka til okkar í kakó og pönnsur. Í kvöld ætlum við Íslendingarnir að hittast heima hjá Essý og Gylfa og borða saman hangikjöt með öllu tilheyrandi og svo verður líklega spilað fram eftir kvöldi.
Á því hálfa ári sem við höfum búið hérna höfum við eignast alveg yndislega vini sem okkur þykir afskaplega vænt um og eigum eftir að sakna mjög þegar við flytjum í burtu. Essý, Gylfi, Fanney, Högni og börn, þið hafi gert okkar dvöl hérna í Flórída ánægjulega (Amazing :) og það er ómetanlegt að geta leitað til ykkar og hafa ykkur innan handar ef eitthvað bjátar á. Jólin hefðu einkennst af heimþrá og einmannaleika ef að við hefðum ykkur ekki hérna, en með ykkur hefur okkur tekist að mynda sanna Íslenska jólastemmningu sem seint gleymist.
Annað helst í fréttum er að ég er búinn að fá tilboð frá fyrirtæki í New York, og ætla ég að taka því, það má segja að "They made me an offer I can´t refuse". Það á síðan eftir að koma betur í ljós hvenær við flytjum þangað, en ég þarf líklega að fara þangað strax eftir áramót, og Andrea og Kristófer fylgja væntanlega fljótlega á eftir, eða eftir að Kristófer er búinn í skólanum. Þetta kemur allt betur í ljós á morgun og á næstu dögum. Ég var í New York síðastliðinn mánudag og fékk þar bara konunglega meðferð, boðið upp á 5 stjörnu hádegisverð. Síðan gerðu þeir mér tilboðið og buðu mér út að borða í kvöldmat og eins mikið koníak og ég gat í mig látið...hikk. Ég sá Empire State Building, Maceys (Stóru búðina sem að fjölskyldur í New York og nágrenni gera sér ferð í bara til að sjá frægustu jóla gluggaútstillingu í US.), Höfuðstöðvar MTV, staðinn þar sem þeir taka upp David Letterman og á veitingastaðnum sem við fórum á um kvöldið sat ég tveimur borðum frá Guiliani fyrrverandi borgarstjóra New York. Skrifstofa þessa fyrirtækis sem ég er að fara að ráða mig hjá er í Manhattan, s.s. í miðbæ New York. Við komum samt til með að búa í einu af úthverfinu þarna, við erum ekkert búin að skoða það en New Jersey er líklegt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli