fimmtudagur, apríl 22, 2004

Hallúúú!

Og gleðilegt sumar! Heyrði að það hefði bara verið bongó blíða á klakanum í dag og að fólk væri bara vappandi um á stuttermabolum í miðbænum. Já, sumarið er nú líka heldur betur komið hérna...já, hvorki meira né minna en 27 stiga hiti í dag! Það eru nú ekki meira en 10 dagar síðan að maður var dúðar frá toppi til táar, til að verjast kuldanum hérna. Svo kom sumarið... á einni nóttu! En við erum nú ennþá í vörn, bíðum eftir að eitthvað ægilegt “cold front” læðist upp að okkur og bíti okkur í rassinn ;o) Þannig að við högum okkur eins og sannir íslendingar, þegar vel til viðrar ...njótum þess í botn og stríplumst hérna um, eins og sólin sé að skína í síðasta sinn.

Á morgun förum við svo af stað til Virginia. Mikill spenningur er á heimilinu, því tilhlökkunin er svo mikil. Við höfum ekki hitt Högna, Fanney og Hildi síðan... jah, ég man ekki alveg, en fyrir alltof löngu síðan. Emmi er búinn að planta golf settinu FYRIR útidyrahurðina, svo að hann gleymi því nú alveg örugglega ekki...já einmitt, eins og það myndi gerast!!! Ég er búin að pakka niður misháum skóm fyrir molla-marathonið okkar Fanneyjar. Eina háhælaða fyrir fyrstu 3 tímana, eina miðlungs háa fyrir næstu 3 tíma eftir það og svo strigaskó fyrir síðustu 3 tímana, og ef við verðum eitthvað lengur en það verð ég bara berfætt...hahahaha! Nehhh, nú er ég bara að bulla í ykkur, er að vera uppiskroppa með umræðuefni hérna.

Annars er það að frétta af Kristófer að hann fór í sinn fysta Self defence-Karate tíma í dag. Mjög sniðugir tímar þar sem brýnt er fyrir börnunum að forðast ókunnugt fólk, hvernig þau eiga að bregðast við ef þau lenda í hættu og einnig hvernig best er að verja sig. Hann var voða lukkulegur eftir tímann og hélt áfram að æfa sig þegar hann kom heim og var farin að hlaupa hérna um á höndum og fótum með tilheyrandi Karate hljóðum þegar við foreldrarnir stoppuðum hann, áður en skaði hlytist af. Á þriðjudaginn sl. var foreldrafundur í skólanum og við hittum kennarann hans, Mrs. Clancy. Hún hafði ekkert nema gott að segja um Kristófer, t.d. kom það henni mjög á óvart hvað hann er farinn að lesa mikið hjálparlaust. Svo talaði hún um það að hún vissi ekki að hann talaði annað tungumál fyrr en mánuði eftir að hann byrjaði hjá henni! Svo minntumst við á það við hana að okkur langaði svo að finna góða barnapíu og að við ættum erfitt með að finna íþróttir í boði fyrir Kristófer. Daginn eftir kíktum við í möppuna hans að venju og haldiði að hún hafi ekki bara verið stútfull að allskyns bæklingum og bleðlum um námskeið og sumarbúðir í boði fyrir börn... og 2 símanúmer hjá barnapíum sem hún mælir með! Já, og önnur barnapían er aðstoðar kennarinn í bekknum hjá Kristófer, svo að þau þekkjast vel hún og hann, sem er náttúrulega alveg brilljant.

Já og eitt enn, ég er komin í samband við tvær íslenskar fjölskyldur hérna, ein býr í Queens og hin hérna í New Jersey. Þarnæstu helgi er planið að hitta fjölskylduna sem er hérna í New Jersey og grilla saman. Og svo er ég að reyna að koma saman enn stærri íslendinga hitting s.p. maí. Segi ykkur betur frá því þegar þar að kemur.

En vona að þessi rulla dugi ykkur aðdáendur góðir, amk. fram yfir helgi :)

Rauðglóandi sumarkveðja,

Fjölskyldan í Nýju Jórvík.

sunnudagur, apríl 18, 2004

"Vorið er komið og grundirnar gróa..." Já gott fólk, eftir 4 daga af stanslausu, og ég meina stanslausu, lóðréttu skýfalli, er vorið komið. Skærblár himinn, heit gola, sólskin og hitinn hækkar á hverjum degi, um 5 gráður á hverjum degi, (Farenheit) og kemst uppí 75 á sunnudaginn. Kristófer er byrjaður aftur í skólanum eftir gott hlé og var hann bara feginn að fá að komast aftur í gang. Hann er orðin rosalega skrautlegur þessa dagan, búinn að missa 2 tennur, fremtennur í neðri góm. Mjög fyndið að sjá hann tala núna og heyra að hann er ess-mæltari þessa dagana.

Annað í fréttum er að við horðum á "Hafið" í kvöld. En hún var sýnd að stöð hérna í USA með íslensku tali og enskum texta. Mjög gaman að horfa á hana og maður fylltist alveg af föðurlandsást við þetta. Myndin sjálf var alveg ágæt :)

Planið er að heimsækja Högna og Fanney um næstu helgi, Fanney og Andrea eiga báðar afmæli í mánuðinum og ætla að halda uppá það með maraþoni í uppáhaldsíþrótt sinni, Mall-ráp. Við karlarnir sjáum til þess að börnunum drepleiðist ekki á meðan með því að fara í Busch Gardens á meðan, og síðan er stefnan tekinn á golfvöllinn. Okkur hlakkar rosalega til að hitta þau aftur.

Í dag fórum við svo í "Parkinn" og vorum þar í smá lautarferð. Dagurinn var alveg hreint frábær, við sátum í garðinum á teppi og borðuðum nestið okkar, blésum sápukúlur, lékum okkur með fjarstýrðan bíl og í fótbolta. Þetta var á efa einhver besti sunnudagur sem við höfum upplifað síðan við komum hingað til NJ. Síðan við byrjuðum að fara í þennan garð hefur aldrei verið jafn mikið af fólki í honum, hann var alveg drekkhlaðinn af allskonar fólki, ungu sem öldnu. Mjög skemmtilegt að upplifa svona nokkuð og verður gaman að fara með gestina sína þangar þegar þau koma öll.

sunnudagur, apríl 11, 2004

Andrea á afmæli í dag og er 21.6 ára gömul. En við hættum að telja árin á hefbundin hátt þegar við eignuðumst Kristófer, við teljum frá þeim aldri sem við áttum hann + þau ár sem hann hefur verið hjá okkur. Andrea er s.s. 21.6 ára í dag og ég er þá 23.6 en verð 24.6 fljótlega :)

Kristófer er búinn að missa sínu fyrstu tönn !!! Hann missti hana í miðri máltíð á Panera sem er bakarí/kaffihús og er með besta brauðið sem við höfum smakkað hérna í USA. Hann var nú ekki hrifinn af þessu, og fannst hann vera alveg rosalega ljótur með svona lítið af tönnum, en hann hresstist við þegar hann fattaði nýja bandaríska hefð, The Tooth Fairy. Tannálfurinn kemur á nóttunni og lætur pening undir kodda hjá börnum sem skilja tennurnar eftir þar. Þannig að hann er orðinn sáttur aftur. Og ekki vantaði að hann væri duglegur að sökkva hinum tennunum sem eftir eru í gómsætu páskaeggin sem hann fékk send frá Íslandi.

Við fengum heimsókn á fimmtudaginn, Yngvi og konan hans, Linda, komu í heimsókn og urðu fyrst íslendinga til að heimsækja okkur í New Jersey, eða eins og Andrea kallar þetta skemmtilega fylki, "Ný íþróttapeysa". Það var mjög gaman að fá þau í heimsókn og við söknum þess að hafa vini og vandamenn nálægt okkur, sérstaklega þegar stórhátíðir eru í gangi. Þau eru víst eitthvað að hugsa sér til hreyfings hingað út til USA en við vitum ekki nákvæmlega hvenær eða hvert innan USA.

Bandaríkinn er paradís atvinnurekanda eftir því sem ég fæ séð. En það er nákvæmlega ekkert páskafrí sem maður fær hérna yfir þessa hátið, Og maður fær bara 2 vikur í sumarfrí á ári. Ég hélt að yfirmaðurinn minn myndi fá hjartaáfall þegar ég sagði honum að sem íslendingur væri ég vanur að fá 4, já 4 !! vikur í frí. Hann var mjög hissa og spurðu hvernig nokkuð kæmist í verk í þessu "Leti-landi" :) Síðan skipti hann um skoðun og sagðist alveg vilja þiggja 4 vikna sumarfrí sjálfur. Já, það er margt gott á íslandi sem maður metur meira þegar maður er kominn hingað.

Við erum í miðjum klíðum við að kenna Kristófer að hjóla án hjálpardekkja, en það gengur svona upp og ofan, hann er mjög duglegur þegar maður heldur í hjólið og hleypur með honum, en um leið og maður sleppur honum er eins og hjólið breytist í hlaup (Jello) og hann hrynur til jarðar með stæl, en þetta hrun hjá honum er mjög flott. Alltaf jafn stoltir foreldrar :) En við gefumst ekki upp og ætlum að fara með hann í "parkinn" á hverjum degi til að "pína" hann til að æfa sig.

Veðrið hérna er farið að minna okkur skelfilega mikið á Ísland, það er mjög gott, reyndar alveg æðislegt, 2 daga í röð og maður er farinn að taka fram Florida dressin sín, Stuttbuxur og Hawaiskyrtu og er í startholunum til að fara að njóta sumarsins hérna í botn. Þegar, næsta dag, er slengt framan í mann hryllilegum kulda og ískaldri og óvenjulega blautri rigningu, þá eru vetrarfötin dregin upp aftur (en maður er fljótur að pakka þeim niður), með sorg í hjarta og gæsahúð.

Kveðja frá "Nýju íþróttapeysunni" í bili. Elmar, Andrea (Afmælisbarn) og Kristófer Leó.

laugardagur, apríl 10, 2004

Nytsamlegir frasar sem gott er að kunna í JúEssEi
The raisin at the end of the hot-dog = Rúsínan í pylsuendanum.

I measure one-pulled with it = Ég mæli eindregið með því.

Now there won't do any mitten-takes = Nú duga engin vettlingatök.

I come completely from mountains = Ég kem alveg af fjöllum.

Thank you for the warm words into my garden = Þakka þér fyrir hlý orð í minn garð.

Everything goes on the back-legs = Það gengur allt á afturfótunum.

He's comepletely out driving = Hann er alveg úti að aka.

It lies in the eyes upstairs = Það liggur í augum uppi.

She gave me under the leg = Hún gaf mér undir fótinn.

He stood on the duck = Hann stóð á öndinni.

I teach in breast of him = Ég kenni í brjósti um hann.

On with the butter!!! = Áfram með smjörið!

I will find him on the beach. = Ég skal finna hann í fjöru.

Let´s show them were David bought the beer. = Sýnum þeim hvar Davíð keypti ölið.

Sorry, I stone slept over my self.- afsakið, ég steinsvaf yfir mig

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Laugardagurinn fór í það að skoða svefnsófa, það þýðir víst ekki að bjóða gestum og gangandi gólfið hérna hjá okkur. Við keyrðum bara útí bláinn og stoppuðum við í húsgagnaverslunum sem urðu á vegi okkar. Og auðvitað endaði með því að við vorum komin eitthvað lengst í burtu frá Lawrenceville og það tók okkur rúma tvo tíma að keyra heim. Þetta er ekki það skemmtilegasta sem Kristófer getur hugsað sér, að elta foreldrana í búðir og sitja í bíl í heilann dag. Svo að á sunnudaginn ákváðum við að bæta honum upp hundleiðinlegan laugardaginn með því að hafa “Kristófers Dag”. Hann fékk að velja hvert/hvað hann vildi gera. Auðvitað var Chuck´e Cheese fyrir valinu, svo þangað var haldið strax fyrir hádegi. Það fékk drengurinn sína útrás með sína gullpeninga, í 2 klukkutíma. Næst á listanum var svo bókasafnið, þar sem vikulega skammtinum var skilað og nýr skammtur fenginn. Nú var hungrið farið að segja til sín, svo við komum við á Panera og fengum okkur síðbúinn hádegismat. Eitthvað sýndist okkur nú veðrið vera að lagast svo við gerðum heiðarlega tilraun til að fara í “parkinn” og leika okkur en entumst nú ekki lengi þar þar sem rokið var svo mikið að okkur var orðið #$%&kalt. Við vorum ekki alveg á þeim buxunum að fara heim svo við ákváðum að athuga hvort eitthvað skemmtilegt væri í bíó. Home On The Range varð fyrir valinu, splunkuný teiknimynd sem var verið frumsýna, og ekki var séð eftir því þar sem þetta var stórskemmtileg mynd, jafnt fyrir unga sem aldna.

Það er gaman að geta þess að í veðurfréttatímanum í gærvöldi var okkur tilkynnt að nýtt kuldamet hafi verið slegið núna í apríl, sem væri nú ekki í frásögum færandi nema fyrir það að gamla metið var síðan 1881 !!!

laugardagur, apríl 03, 2004

Heil og sæl...!

Héðan er allt ágætt að frétta, allir heilsuhraustir og kátir á þessum bæ eins og endranær. Kristófer vaknaði elshress á föstudagsmorgun, tilbúin að takast á við síðasta skóladaginn í bili, þvi að 10 daga “spring-break” er framundan. Við var hafist að klæða drenginn í sómasamleg föt því síðar þennan dag var bekkjar myndataka. Kristófer byrjar að maula á seríósinu (öðrum nöfnum, Cheerios eða gleðihringir) en verður eitthvað skrítinn í framan og hættir að tyggja, við Elmar lítum hvort á annað og svo aftur á hann og spyrjum hann hvað sé að. Eftir örlitla umhugsun svarar hann með skelfingu...og seríósfrussi...”I HAVE NO TOOTH!!!” Ha,hvað ertu að segja? Og á milli þess sem hann reyndi að kyngja restinni af seríósinu, potaði hann puttunum í munninn. Eftir þreifingar og umhugsun sagði hann “ó men...æ hav vonn vigglí tooth end vonn verrí vigglí tooth!!”(ó maður...ég er með eina lausa tönn og eina mjög lausa tönn). Já haldiði að drengurinn sé ekki bara við það að missa tvær tennur. Frekar skondið, því deginum áður var “tann-dagur” í skólanum hjá honum, þar sem tænnlæknar voru að kenna börnunum að tannbusta sig og búa þau undir tannmissinn sem framundan er hjá þeim.

Karlgreyjið, það á ekki af honum að ganga þessa dagana... í gær skutluðumst við með hann á Supercuts til þess að láta snyrta missíða lokka, en haldið þið ekki að sú sem tiltlaði sig sem hágreiðslukona, hafi ekki bara gert illt verra! Jú, hún vippaði bara upp bartskeranum, rakaði ójafna línu að framan (bartarnir fengu að fjúka og alles) og aðra eins bjagaða línu að aftan og rukkaði okkur svo um $10 án þess að lyfta brún.“Klippingin” tók næstum 2 mínútur, held ég kalli bara heimsmetabók Guinness til.

Svo að fyrst var það hárið, því næst tennurnar og svo bekkjarmyndartaka í dag ............and how was your week? ;o)

Guði sé lof, að Sigga Lóa vinkona og hárgreiðslukona með meiru, er að koma til okkar í maí með græjurnar sínar. Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að stíga inn fyrir dyr á þessum svokölluðu hárgreiðslustofum hérna.

En annars vorum við að fá heldur betur sendinguna frá Íslandi í vikunni,páskaegg, íslenskt nammi, slúðurblöð, húfur...þvílík himnasending! Kristófer fékk líka alveg hrikalega girnilegt teppi sem langamma í Boló hafði prjónað handa honum. Kossar og knús fyrir þetta allt saman!

Annars var nú heldur betur hamingja á heimilinu í vikunni þegar húsfaðirinn birtist í gættinni með 2 lítra af íslensku vatni. Þá hafði hann skroppið útí búð, ACME, til að kaupa vatn með matnum og rekið augun í I-c-e-l-a-n-d-i-c Spring í neðstu hillunni. Þegar vatnið hafði náð ákjósanlegu hitastigi í kælinum hjá okkur, var flaskan opnuð og með mikilli eftirvæntingu hellt í 3 glös. Við hjónin gutluðum vatninu fram og til baka í munninum og lyktuðum af því, eins og hér væri um hið fínasta rauðvín að ræða. Og niðurstaða okkar var sú að hér var svo sannarlega hið al-íslenska gæðavatn á ferðinni. Meira að segja Kristófer segist ekkert annað vatn vilja drekka hér eftir.

Svo ef að heimþrá fer eitthvað að gera vart um sig hjá okkur,sláum við á hana með því að elda íslenska lúðu, drekkum íslenskt vatn með og hlustum á fréttirnar í ríkisútvarpinu, í gegn um internetið!

Nú er ný helgi gengin í garð og ný ævintýri bíða okkar.

Jæja kæru aðdáendur og aðrir velunnarar, við ætlum að láta þetta duga í dag og óskum ykkur góðrar helgar.

P.s. á morgun þurfum við svo að færa klukkunar okkar fram um eina klukkustund út af "Daylight savings". Svo að við verðum fjórum klukkutímum á eftir ykkur, í stað fimm.