laugardagur, apríl 03, 2004

Heil og sæl...!

Héðan er allt ágætt að frétta, allir heilsuhraustir og kátir á þessum bæ eins og endranær. Kristófer vaknaði elshress á föstudagsmorgun, tilbúin að takast á við síðasta skóladaginn í bili, þvi að 10 daga “spring-break” er framundan. Við var hafist að klæða drenginn í sómasamleg föt því síðar þennan dag var bekkjar myndataka. Kristófer byrjar að maula á seríósinu (öðrum nöfnum, Cheerios eða gleðihringir) en verður eitthvað skrítinn í framan og hættir að tyggja, við Elmar lítum hvort á annað og svo aftur á hann og spyrjum hann hvað sé að. Eftir örlitla umhugsun svarar hann með skelfingu...og seríósfrussi...”I HAVE NO TOOTH!!!” Ha,hvað ertu að segja? Og á milli þess sem hann reyndi að kyngja restinni af seríósinu, potaði hann puttunum í munninn. Eftir þreifingar og umhugsun sagði hann “ó men...æ hav vonn vigglí tooth end vonn verrí vigglí tooth!!”(ó maður...ég er með eina lausa tönn og eina mjög lausa tönn). Já haldiði að drengurinn sé ekki bara við það að missa tvær tennur. Frekar skondið, því deginum áður var “tann-dagur” í skólanum hjá honum, þar sem tænnlæknar voru að kenna börnunum að tannbusta sig og búa þau undir tannmissinn sem framundan er hjá þeim.

Karlgreyjið, það á ekki af honum að ganga þessa dagana... í gær skutluðumst við með hann á Supercuts til þess að láta snyrta missíða lokka, en haldið þið ekki að sú sem tiltlaði sig sem hágreiðslukona, hafi ekki bara gert illt verra! Jú, hún vippaði bara upp bartskeranum, rakaði ójafna línu að framan (bartarnir fengu að fjúka og alles) og aðra eins bjagaða línu að aftan og rukkaði okkur svo um $10 án þess að lyfta brún.“Klippingin” tók næstum 2 mínútur, held ég kalli bara heimsmetabók Guinness til.

Svo að fyrst var það hárið, því næst tennurnar og svo bekkjarmyndartaka í dag ............and how was your week? ;o)

Guði sé lof, að Sigga Lóa vinkona og hárgreiðslukona með meiru, er að koma til okkar í maí með græjurnar sínar. Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að stíga inn fyrir dyr á þessum svokölluðu hárgreiðslustofum hérna.

En annars vorum við að fá heldur betur sendinguna frá Íslandi í vikunni,páskaegg, íslenskt nammi, slúðurblöð, húfur...þvílík himnasending! Kristófer fékk líka alveg hrikalega girnilegt teppi sem langamma í Boló hafði prjónað handa honum. Kossar og knús fyrir þetta allt saman!

Annars var nú heldur betur hamingja á heimilinu í vikunni þegar húsfaðirinn birtist í gættinni með 2 lítra af íslensku vatni. Þá hafði hann skroppið útí búð, ACME, til að kaupa vatn með matnum og rekið augun í I-c-e-l-a-n-d-i-c Spring í neðstu hillunni. Þegar vatnið hafði náð ákjósanlegu hitastigi í kælinum hjá okkur, var flaskan opnuð og með mikilli eftirvæntingu hellt í 3 glös. Við hjónin gutluðum vatninu fram og til baka í munninum og lyktuðum af því, eins og hér væri um hið fínasta rauðvín að ræða. Og niðurstaða okkar var sú að hér var svo sannarlega hið al-íslenska gæðavatn á ferðinni. Meira að segja Kristófer segist ekkert annað vatn vilja drekka hér eftir.

Svo ef að heimþrá fer eitthvað að gera vart um sig hjá okkur,sláum við á hana með því að elda íslenska lúðu, drekkum íslenskt vatn með og hlustum á fréttirnar í ríkisútvarpinu, í gegn um internetið!

Nú er ný helgi gengin í garð og ný ævintýri bíða okkar.

Jæja kæru aðdáendur og aðrir velunnarar, við ætlum að láta þetta duga í dag og óskum ykkur góðrar helgar.

P.s. á morgun þurfum við svo að færa klukkunar okkar fram um eina klukkustund út af "Daylight savings". Svo að við verðum fjórum klukkutímum á eftir ykkur, í stað fimm.

Engin ummæli: