Hallúúú!
Og gleðilegt sumar! Heyrði að það hefði bara verið bongó blíða á klakanum í dag og að fólk væri bara vappandi um á stuttermabolum í miðbænum. Já, sumarið er nú líka heldur betur komið hérna...já, hvorki meira né minna en 27 stiga hiti í dag! Það eru nú ekki meira en 10 dagar síðan að maður var dúðar frá toppi til táar, til að verjast kuldanum hérna. Svo kom sumarið... á einni nóttu! En við erum nú ennþá í vörn, bíðum eftir að eitthvað ægilegt “cold front” læðist upp að okkur og bíti okkur í rassinn ;o) Þannig að við högum okkur eins og sannir íslendingar, þegar vel til viðrar ...njótum þess í botn og stríplumst hérna um, eins og sólin sé að skína í síðasta sinn.
Á morgun förum við svo af stað til Virginia. Mikill spenningur er á heimilinu, því tilhlökkunin er svo mikil. Við höfum ekki hitt Högna, Fanney og Hildi síðan... jah, ég man ekki alveg, en fyrir alltof löngu síðan. Emmi er búinn að planta golf settinu FYRIR útidyrahurðina, svo að hann gleymi því nú alveg örugglega ekki...já einmitt, eins og það myndi gerast!!! Ég er búin að pakka niður misháum skóm fyrir molla-marathonið okkar Fanneyjar. Eina háhælaða fyrir fyrstu 3 tímana, eina miðlungs háa fyrir næstu 3 tíma eftir það og svo strigaskó fyrir síðustu 3 tímana, og ef við verðum eitthvað lengur en það verð ég bara berfætt...hahahaha! Nehhh, nú er ég bara að bulla í ykkur, er að vera uppiskroppa með umræðuefni hérna.
Annars er það að frétta af Kristófer að hann fór í sinn fysta Self defence-Karate tíma í dag. Mjög sniðugir tímar þar sem brýnt er fyrir börnunum að forðast ókunnugt fólk, hvernig þau eiga að bregðast við ef þau lenda í hættu og einnig hvernig best er að verja sig. Hann var voða lukkulegur eftir tímann og hélt áfram að æfa sig þegar hann kom heim og var farin að hlaupa hérna um á höndum og fótum með tilheyrandi Karate hljóðum þegar við foreldrarnir stoppuðum hann, áður en skaði hlytist af. Á þriðjudaginn sl. var foreldrafundur í skólanum og við hittum kennarann hans, Mrs. Clancy. Hún hafði ekkert nema gott að segja um Kristófer, t.d. kom það henni mjög á óvart hvað hann er farinn að lesa mikið hjálparlaust. Svo talaði hún um það að hún vissi ekki að hann talaði annað tungumál fyrr en mánuði eftir að hann byrjaði hjá henni! Svo minntumst við á það við hana að okkur langaði svo að finna góða barnapíu og að við ættum erfitt með að finna íþróttir í boði fyrir Kristófer. Daginn eftir kíktum við í möppuna hans að venju og haldiði að hún hafi ekki bara verið stútfull að allskyns bæklingum og bleðlum um námskeið og sumarbúðir í boði fyrir börn... og 2 símanúmer hjá barnapíum sem hún mælir með! Já, og önnur barnapían er aðstoðar kennarinn í bekknum hjá Kristófer, svo að þau þekkjast vel hún og hann, sem er náttúrulega alveg brilljant.
Já og eitt enn, ég er komin í samband við tvær íslenskar fjölskyldur hérna, ein býr í Queens og hin hérna í New Jersey. Þarnæstu helgi er planið að hitta fjölskylduna sem er hérna í New Jersey og grilla saman. Og svo er ég að reyna að koma saman enn stærri íslendinga hitting s.p. maí. Segi ykkur betur frá því þegar þar að kemur.
En vona að þessi rulla dugi ykkur aðdáendur góðir, amk. fram yfir helgi :)
Rauðglóandi sumarkveðja,
Fjölskyldan í Nýju Jórvík.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli