Síðastliðinn föstudag fóru Sigga, Tóti og Sædís heim, og Magnús tengdapabbi kom með sömu vél. Sigga og Co., takk kærlega fyrir skemtilega heimsókn, við nutum þess að hafa ykkur hjá okkur þessa daga. Takk fyrir að nenna að spila kana við okkur á næstum hverju kvöldi (
Magnús er búinn að vera upptekinn frá því að hann kom hingað, hann er búinn að fara með okkur Krissa á fótbolta leik þar sem Kristófer sýndi honum hvað hann getur í boltanum. Síðan var skruppið til Washington á sunnudaginn. Lentum þar í miðjum mótmælenda aðgerðum og var mikið um að vera. Sumir staðirnir voru lokaðir út af þessu og mjög margt um manninn þennan dag. Við sáum meðal annars 12 löggubíla, með ljósin og sírenurnar á fullu keyra fram hjá okkur, ásamt 2 herþyrlum sveimandi um. En við náðum að sjá Hvíta húsið, World War II minnismerkið, “Forest Gump / Jenny” vatnið, og minnisvarðan um Abraham Linclon, ásamt minnisvarðanum um Víetnam stríðið. Á sama tíma var mikið um krakka þarna líka, á aldrinum 10-12, í einhverju programmi sem gékk út á það að sýna þeim Washington og allt sem er að sjá þar, eitthvað til að spá í seinna meir fyrir Kristófer.
Síðan hafa molla ferðirnar verið tíðar og góðar, Magnús er alltaf jafn hissa þegar hann þarf að borga svona lítið fyrir það sem hann er að kaupa. Við skelltum okkur svo í bíó um daginn, sáum nýju Jodi Foster myndina, Flight Plan. Hún var ágæt bara, við Maggi vorum a.m.k. spenntir yfir henni.
Við, Andrea og ég það er að segja, fórum síðan á “Back to School” kvöld í gær. En þá fengum við að hitta kennarann hans Krissa, og hina foreldrana í bekknum hans. Hápunkturinn var þegar kennarinn var að segja frá “United Nations” deginn sem verður haldinn hátíðlegur fljótlega, og minntist kennarinn á að Kristófer væri mjög stoltur af því að vera frá Grænlandi. Skrrrens.. Grænlandi??? Við Andrea hlóum og sögðum að reyndar værum við frá Íslandi, ekki Grænlandi. Kennarinn hans, Mrs. Smith, roðnaði heilu ósköpin og baðst innilega afsökunar. Síðan spjölluðum við aðeins við kennarann í einrúmi og Kristófer er víst að standa sig mjög vel, hann skilar öllum verkefnum með sóma og fær góðar umsagnir hingað til. Hann þarf að vanda sig betur við skriftina (þeir sem þekkja mig, vita hvaðan hann fær þessa hræðilegu skrift) og læra að hemja sig. Það er víst þannig að þegar hann veit svarið við einhverju, kallar hann það hátt yfir allan bekkinn, í stað þess að rétta upp hönd fyrst, en þau eru að vinna í þessu og hann tekur framförum á hverjum degi.
Kristófer tók síðan miklum framförum í gær í því að hjóla, en ég lét hann hjóla í hringi hérna á götunni fyrir utan húsið, keppnisskapið skein í gegn og hann stóð sig eins og hetja, hann náði að hjóla 6 hringi á þess að stoppa eða detta og fagnaði því vel. Hann reyndar hoppaði og kallaði yfir all hverfið “Ég náði SEX. SEX! SEX! SEX!”. Fólkið í kringum okkur var farið að líta okkur hornauga þannig aðég hvatti hann til að fara annaðhvort 5 eða 7 hringi næst. En í morgun bað hann mig um að fá að fara út að hjóla þegar hann kemur heim og er það í fyrsta skipti sem hann biður um það, frekar en að fara í tölvuna, það er stórt skref hjá mínum manni.
Meira síðar...
Elmar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli