miðvikudagur, desember 29, 2004

Íslensk jól í Bandaríkjunum...
Jólin eru búin að vera alveg yndisleg hjá okkur, eintóm róleg- og huggulegheit. Jólin voru svona líka Íslensk hjá okkur, hamborgarhryggur, maltið og appelsínið, meðlæti og að sjálfsögðu íslenskt sælgæti og konfekt. Get svo svarið það að maður er komin með snert af konfekt-eitrun því það var sko ekkert farið rólega í það. Svo tengdum við tölvuna við græjurnar svo að hér hljómaði íslensk jólatónlist yfir öll jólin.

Það var alveg ótrúlegt magn af pökkum og kortum sem streymdu hingað inn síðustu vikuna fyrir jól og okkur langar að koma á framfæri þökkum fyrir það allt, hvert kort og kveðja var okkur mikils virði...kossar og knús!

Á annan í jólum skelltum við okkur svo á alveg æðislega sýningu sem heitir "Disney on Ice: Finding Nemo". Þvílík flott sýning og greinilega ekkert til sparað við sviðsmyndir og búninga. Það eru nokkrar myndir frá sýningunni í desember albúminu svo þið getið gert ykkur hugmynd um hvað ég er að tala. Kristófer lét þau orð falla að þetta væri það skemmtilegasta sem hann hefði gert síðan hann kom til Bandaríkjanna! Við vorum ekkert að minnast á alla skemmtigarðana, söfnin og ferðalögin sem við höfum farið í síðan við komum hingað :)
Í gær fórum við Kristófer í mollið til að nýta gjafabréf sem hann fékk í jólagjöf. Það var í búð sem heitir "Build-A-Bear Workshop" Þar fékk hann að velja sér bangsa sem hann síðan fór með í sérstaka vél sem fyllti bangsann af fylli (?) og síðan var sett í hann hjarta með viðhöfn, hann baðaður (í lofti) og feldurinn kembdur og svo var tekinn langur tími í að velja á hann dress en það var ekkert minna en Timberland skór, gallabuxur með keðju og flauelisúlpa. Hélt nú að hann væri vaxin uppúr svona bangsa stússi en það var heldur betur vitleysa í mér, hann fílaði þetta í botn. Svo þegar búið var að dressa bansann upp var sest við tölvu, bangsinn skírður og prentað út "fæðingarskíteini" og Kristófer var alveg með það á hreinu að hann ætti að heita Nicholas.

mánudagur, desember 27, 2004

Nýjar myndir komnar inn í Desember almbúmið okkar í "Myndirnar Okkar". Endilega skoðið og skemmtið ykkur vel.

föstudagur, desember 24, 2004

Kæru vinir og ættingjar, nær og fjær.

Okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Innilegar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á síðuna og fallegar kveðjur sem þið hafið skilið eftir í gestabókinni.

Með kærri jólakveðju,
Elmar, Andrea og Kristófer Leó.


þriðjudagur, desember 21, 2004

3 dagar til jóla...getur það verið?!?!?

Hnotubrjóturinn var alveg frábær sýning. Kristófer sat alveg stjarfur allan tímann, greinilegt að við þurfum að fara oftar í leikhús því honum fannst svo gaman.
Annars var nú heldur betur sveifla niður á við í hitastigi í gær...fór leeeengst niður fyrir frostmark eða í -22 gráður þegar kaldast var. Get svo svarið það að ég hélt að nefbroddurinn myndi detta af, ég fann ekki fyrir honum! En það er nú að hlýna á næstu dögum, sól og 10-15 stiga hiti...hver segir svo að veðrið sé sveiflukennt á Íslandi?
Svo að ósk fjölskyldunnar um jólasnjó mun að öllum líkindur ekki rætast þetta árið :o(
Jólatréð er komið upp í stofunni í öllu sínu veldi, jiii hvað það gerir allt jóló! Ákváðum á Laugardag að skella því bara upp. Vorum nú reyndar alveg ákveðin í að fá okkur ekta-tré þetta árið en aftur ákváðum við að gefa gerfitrénu sjéns..."ef það er glatað förum við bara og kaupum ekta..ókei?"Svo er það bara alveg stórfínt og allir ánægðir með það.
Þetta er nú ekki beint það sem Kristófer finnst skemmtilegast að gera...eitthvað svona dúllerí...raða og hengja milljón kúlum svona í rólegheitunum, en hann gerði þetta "í einum grænum" með okkur og rak okkur áfram þvi við vorum svo alltof róleg og afkastalítil. "Hérna pabbi...taktu þennan enda...og svo heyp ég með hinn endann í hringi í kringum tréð!" Já og svo henti hann bara kúlunum inná milli, alltof mikið vesen að hengja hverja fyrir sig.
jólapælingar...
Nú er mikið í umræðunni hérna í Ameríkunni að jólin, sem slík, séu að hverfa. Já, hér er fólk af svo mörgum trúum og það má engann móðga. Afgreiðslufólki er ráðið frá því að segja "Merry Christmas" því það gæti sært fólk sem er ekki Kristið, þess í stað segja þau "Happy Holidays" og heyri sjaldan minnst á "Christmas Tree" en aftur á móti er talað um "Holiday Tree"...
Ég hef líka lesið um það í blöðunum að í mörgum almennings skólum sé búið að banna mikið af jólalögum eða þeim hefur verið breytt svo það komi ekki illa við neinn, eins og t.d. lagið "We Wish you a Merry Christmas" hefur verið sungið "We Wish you a Swinging Holiday" og lagið um hreindýrið Rúdolf hefur algjörlega verið bannað í mörgum almennings skólum, því í því er minnst á jóladag. Í einum skóla var meira að segja gengið það langt að banna "candy canes" (rauðu og hvítu sleikjó stafina) og rauðar og grænar servíettur! Og í grunnskóla í Washington var á síðustu stundu hætt við sýningu á "Christmas Carol" (þið vitið... um Scrooge) því að ein sögupersónan segir "God bless us, everyone".

Ég gæti haldið endalaust áfram að telja upp svipuð dæmi og þá sérstaklega sem eiga sér stað í almenninsskólum hér í landi.
Kristófer hefur til dæmis lært heilmikið um hina og þessa siði og hátíðir gyðinga í skólanum, t.d. Hanukkah og Kwanzaa og allt í góðu með það...en svo kemur að jólunum og þá eru allt vaðandi í boðum og bönnum, engin jólalög spiluð í skólastofum, má ekki senda bekkjarfélögum jólakort, ekkert jólaföndur, ekkert jólaball og jólafrí heitir ekki einusinni jólafrí heldur "Winter Break".

Finnst frekar leiðinlegt, hans vegna, að fá ekki að upplifa jólatímann eins og ég og Emmi ólumst upp við á Íslandi. Þar eru litlu-jólin, dans í kringum jólatré, sungið, föndrað og sprellað síðustu vikuna í skólanum fyrir jól, krakkar fá ný jólaföt og mæta í sínu fínasta pússi á jólaball.
Það eru þá aðalega við foreldrarnir sem veltum okkur uppúr þessu, því hann hefur aldrei upplifað þessar hefðir á Íslandi, amk. er orðið það langt síðan hann var á leikskóla þar að hann man ekkert eftir því. Svo að hann er auðvitað, jú,bara sáttur við sitt.
En það þýðir ekkert að vera að svekkja sig yfir þessu, við höfum nú náð að gera gott úr þessu hérna á heimilinu. Spilað jólamúsik, bakað, föndrað og skreytt allt hátt og lágt.
En læt þessa pælingu mína duga í bili og óska öllum "Merry what ever" :o)

sunnudagur, desember 19, 2004

Takk fyrir gott boð Ella mín, en við fundum Magnetix á E-Bay og það ætti vonandi að koma til okkar í tæka tíð. Reyndar er hægt að finna flest á E-Bay sem er uppselt í búðunum, kannski ekki skrítið að það sé uppselt í búðunum og svo selja þeir þetta á tvöföldu búðarverði þar. Veit einmitt að Fannsa lenti í þessu líka, fann síðan gjöfina á E-Bay á margföldu verði.
En við familían erum búin að ákveða hvað gert verður á annan í jólum, langaði að gera eitthvað "merkilegt" í tilefni hátíðanna. Við erum að fara á "Finding Nemo: Disney on Ice" en þetta er einhverskonar skautasýning/leikrit á svelli...nema hvað. En þessi sýning fær góða dóma og á að vera mjög glæsileg í alla staði.
Við erum orðin eitthvað voða menningarleg þessa dagana, það er bara leikhús og viðburðir á hverri helgi. Um að gera að gera þennan tíma ársins eftirminnilegan, svona eins og hægt er án allra ættingja.
Jæja, við erum að fara á Hnotubrjótinn kl. 14, það verður örugglega gaman og ekki vantar spennuna hjá honum Kristófer, enda man ég ekki til þess að hann hafi nokkru sinni farið í leikhús :o/ En það er aldrei of seint að byrja. Við látum ykkur vita hvernig var.

Kveðja jólasveinarnir í NJ.

föstudagur, desember 17, 2004

Vika til jóla!
Það vantar sko ekki jólafílinginn á þessu heimili!
Erum meira að segja að spá í að brjóta gömlu góðu Þorláksmssu hefðina og skella jólatrénu bara upp um helgina. Held að við séum eina familían hérna í hverfinu sem á eftir að setja það upp! En flestir settu jólatrén upp yfir þakkargjörðarhátíðina sem var í lok nóvember! En okkur þykir það nú einum of snemmt, ætli maður sé ekki komin með þokkalega leið á því þegar jólin loksins koma?
Það er alveg með ólíkindum hvað fólk hérna skreytir hjá sér...og maður hélt að þetta væri nú pínu ýkt í amerísku jólamyndunum en þetta er nákvæmlega svoleiðis. Það er engu líkara en að nágrannarnir hérna séu í einhverri samkeppni um að vera sem mest áberandi. Fyrir utan það að mörg hús séu nánast þakin í seríum (og oftar en ekki blikkandi) en fólk með lóðirnar sínar þaktar í upplýstum jólafígúrum af öllum stærðum og gerðum. Hreindýr, jólasveinar, sleðar, snjókarlar...ýmist uppblásið,blikkandi og/eða á hreyfingu.
Við tókum smá rúnt hérna um nágrennið í gærkvöldi, við vorum alveg dáleidd, held að ég hafi aldrei á ævinni séð svona mikið af jólaljósum og skreytingum.
Á sunnudaginn erum við svo að fara í leikhús að sjá Hnetubrjótinn, það verður áreiðanlega mjög gaman en þetta er í fyrsta skipti sem við förum í leikhús hérna. Þetta verður svona spes barnasýning, s.s. búið að ritskoða og útfæra fyrir börnin :)

miðvikudagur, desember 15, 2004

9 dagar til jóla!
Þá er allt loks komið á fullt í jólaundirbúningnum á þessu heimili, kannski ekki seinna vænna. Ég náði að klára að gera hvorki meira né minna en 3 sortir fyrir hádegi í dag, kókostoppa, lakkrístoppa og snickers smákökur. Eitthvað gengur mér nú illa að halda strákunum frá kökuboxunum, ætli þeir klári þetta ekki fyrir helgi! Í kvöld ætla ég svo að skella í brúnkökuna góðu (þessi m. hvíta kreminu), vonum bara að hún lukkist betur en síðustu jól en þá var eitthvað "funky" aukabragð en nú er ég komin með íslensku kryddin í þetta og það ætti að gera herslu muninn.
Jólapartíið í NYC á laugardaginn var alveg ágætt. Eftir að hafa villst og týnst og fundist aftur í New York, fundum við loks hótelið sem við áttum að vera á...það er ekkert grín að keyra þarna um, það er bara "survival of the fittest". En hótelið var í Queens og við þurftum að fara í gegnum göng þangað, en það var ekki fyrr en í þriðju ferðinni þar í gegn sem við náðum að taka réttu beygjuna að hótelinu...og hótelið er svo önnur saga sem ég læt ekkert fylgja hér.
Við vorum nú reyndar búin að búast við því að þetta yrði miklu "formlegra" en í raun var. Sem betur fer fór ég ekki í kjól eins og ég var mikið búin að velta fyrir mér, en þá hefði ég verið ein um það. Staðurinn sem við hittumst á var frekar "hip", salurinn var hvítur í hólf og gólf, og hvítir leðursófar í stíl.
Reyndar voru margir svekktir með "matinn" sem boðið var uppá. Við vorum víst ekki þau einu sem bjuggumst við dekkuðum borðum, hlöðnum kræsingum en það var ekkert slíkt. Það var reyndar ein skvísa sem valsaði þarna um á brjóstahaldaranum með bakka af pinnamat og bauð manni og öðrum, en ekkert til að seðja hungrið hjá okkur hjónunum sem gleymdu að borða í öllu stressinu yfir daginn.
Eftir þetta var svo farið í eftir partý hjá Larry eiganda BMI. Þar entist fólk mislengi því hungrið var farið að segja til sín hjá allmörgum. Við mælum amk. ekki með því að drekka á fastandi maga því við vorum algjörir haugar daginn eftir. En þetta var samt sem áður mjög skemmtilegt, frábært fólk sem við kynntumst og gaman að komast aðeins út á lífið hérna.
Á meðan var Kristófer í góðu yfirlæti hjá Gulla og Önnu, þau voru með hann í NYC á laugardeginum og brunuðu svo hingað um kvöldið og gistu um nóttina...enn og aftur takk fyrir pössunina!!!
Svo fengum við bréf í dag frá hjónum sem við kynntumst á laugardaginn og þau vilja endilega bjóða okkur í heimsókn til sín yfir áramótin. Þau búa í Conneticut fylki en ég býst nú ekki við þvi að við förum því bíllinn er enn krambúleraður og því ekki beinlínis ákjósanlegur í lengri ferðir.
Við erum búin að vera í þvílíkum vandræðum í sambandi við jólagjöf handa Kristófer, hann er búið að langa í eitthvað sem heitir Magnetix síðan einhverntíman í sumar og alltaf höfum við verið jafn snjöll að svara honum með því að segja "já, kannski færðu svona í jólagjöf" en þetta hefur verið til í bunkum í öllum leikfangaverslunum og stærri búðum. Svo förum við foreldrarnir í búð í dag alveg með á hreinu hvað á að kaupa en fáum svo bara frá afgreiðslufólkinu "Sorry, I think it´s sold out EVERYWHERE!!" Dísús, aldrei hefði ég trúað að eitthvað myndi seljast svona upp, sérstaklega þar sem að þetta var til í stöflum fyrir ekki meira en viku síðan! En þetta verður nú svosem í lagi því við vorum nú búin að versla ýmislegt annað handa honum, kannski að þetta sé fáanlegt á E-Bay?!

Að endingu langar okkur að senda honum Helga bróður ofur knús og kossa, því á morgun verður hann hvorki meira né minna en 14 ára drengurinn! Elsku brósi hafðu það sem allra best og njóttu dagsins í botn...we love ya dude!

miðvikudagur, desember 08, 2004


Kristófer tannlaus og sæll með jólakúluna sína. Posted by Hello
Haldiði að það sé ekki bara hitabylgja hérna núna...já 15 stiga hiti í desember....habbara næstum Flórída fílingur í okkur hérna...ekki slæmt miðað við stað og stund. Við höldum nú samt enn í vonina um að fá einhvern jólasnjó...en veðurfréttamennirnir segjast nú ekki sjá neinn snjó í kortunum á næstunni en það getur nú allt breyst.
Annars vorum við að koma af jólatónleikum í skólanum hans Kristófer, það var mjög gaman og mikil jólastemming...enda voru börnin beðin um að syngja "Frosty the snowman" tvisvar til að svala jóla-hungruðum foreldrunum. Þetta verður svo sýnt í "Ríkissjónvarpinu" hérna í NJ og þá tökum við það að sjálfsögðu upp.
Það var voða drama hérna í gær...jájá...greyið Kristófer var á leiðinni inn þegar hann missir uppáhalds jóla snjókúluna sína í götuna og hún smallaðist í 1000 mola. Hann og þessi umrædda kúla eru búin að vera óaðskiljanleg síðan ég tók hana upp með jólaskrautinu, hún fór með í bað, að sofa, í skólann, í búðina og alltaf passaði hann voðalega vel uppá hana. En hann fékk þessa "snjókúlu" (veit ekki hvað þetta kallast, kúla sem maður hristir og þá fer snjórinn á hreifingu) frá ömmu-lang í Boló s.l. jól og þótti svona afskaplega vænt um hana. En hann var alveg eyðilagður yfir þessu og HÁ-grét vel og lengi á eftir. Það var alveg sama hvað við reyndum að tjónka við honum, loforð um nýja betri og stærri kúlu og allt hvað eina, en þessi elska gaf sig ekki. Með ekkasogum sagðist hann bara vilja fá nákvæmlega eins kúlu, bara ákkúrat þessa og vildi barasta fá að hringja í ömmu-lang og spyrja hana hvað hún hefði keypt hana. En við náðum nú að róa hann áður en útí það fór en ég lofaði því að finna mjög svipaða kúlu handa honum sem fyrst.
Við Kristófer bökuðum eina smáköku sort í gærdag og hlustuðum á íslenska jólatónlist á meðan. Ef það kemur ekki jólastemmaranum í gang, þá veit ég ekki hvað gerir það?! Kristófer fannst þetta voða stuð, enda góluðum við hástöfum með og gáfum Diddú ekkert eftir. Svo eru undanfarin kvöld búin að fara í það að skrifa blessuðu jólakortin, það er ótrúlegt hvað það fer mikill tími í að skrifa nokkur kort....ætlaði nú bara að rumpa þessu af ...en...neeeei ég er ennþá að :)



þriðjudagur, desember 07, 2004

Hæ hó...
Helgin var ósköp viðburðarlítil í þetta sinn, fórum af stað í jólafata-og jólagjafa innkaup. Það gekk bara alveg ágætlega. Það er alveg með ólíkindum hvað fólk hérna verslar mikið fyrir jólin. Fólk var með fangið fullt af fötum í biðröðum í búðum og flestir drekkhlaðnir innkaupapokum. Svo voru allir stólar og bekkir í mollinu þéttsetnir, allt karlmenn umkringdir innkaupapokum sem eiginkonurnar komu með með reglulegu millibili. Reyndar eru gaurarnir mínir alveg furðu þolimóðir í þessum mollaferðum og taka þátt í vali á jólagjöfum með miklum áhuga. Við vorum líka búin að kaupa nokkuð af jólagjöfum sem við Kristófer tókum með heim til Íslands, en eitthvað smotterí var eftir, svo að við erum frekar róleg yfir þessu.
Kristófer byrjaði aftur í karate fyrir helgina, það gekk bara ágætlega þó svo að hann væri nú farinn að ryðga aðeins eftir góða pásu í því. Reyndar var hann svolítið upptekin í fyrstu við það að spjalla við félaga sína, svo að Sensei þurfti að stoppa hann af með því að segja að hann þyrfti að hlusta meira og tala minna...hahaha.
Í fyrramálið verða svo jólatónleikar í skólanum hjá Kristófer, það verður gaman að sjá hann syngja sérstaklega þegar hann er búin að missa báðar framtennurnar :)
Get ekki annað en sönglað eftirfarandi texta, því hann á vel við:
..."All I want for Christmas is my two front teeth...so I can wish you merry Christmas...lalala"
Um helgina verður haldið "holiday party" í New York á vegum BMI. Það verður áreiðanlega mjög skemmtilegt, en við byrjum á að hittast á stað sem heitir 17Home, þar verður borðað, eftir matinn er förinni heitið í "eftir-partý" heim til Larry Schiff en hann er aðaleigandi BMI og síðan er boðið uppá hótelgistinu yfir nóttina.
Svo það er eins gott að fara að dusta rykið af glimmer gallanum og bóna lakkskóna ;)

Já og hérna er svo heimilisfangið fyrir þá sem vilja skutla á okkur jólakveðju...

Elmar Vidisson/Andrea Magnusdottir
11132 East Run Drive.
Lawrenceville, NJ. 08648
USA.

laugardagur, desember 04, 2004

Nýjar myndir...
Það eru komnar nýjar myndir inná vefsvæðið okkar. Endilega kíkið á þær. smellið á myndir og þar er nýtt albúm sem heitir Desember 2004. Ég ætla að fara að setja myndir inn í því formati.. allar myndir síðan Desember 2004 fara þangað og síðan kom ný albúm í hverjum mánuði... en það bætast líka við myndir í þau albúm sem eru til nú þegar, og mun ég láta vita þegar það koma nýjar myndir.

Kveðja í bili
Elmar