Mánudag og þriðjudag var Kristófer orðin lasinn kallinn svo að við héldum okkur innandyra og reyndum að taka sem minnst eftir veðrinu sem er búið að vera alveg stórkostlegt. Sól og blíða og hitinn um og yfir 25 C. Emmi heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi fengið súrefnis-eitrun á þessu ferska fjallalofti og hreina kranavatni sem var þarna í bústaðnum.
Á miðvikudaginn var það ekkert annað en harkan sex og skólinn tekinn með trompi, Kristófer tók ekki í mál að vera lengur heima lasinn og missa af aðalviðburði ársins, vortónleikum 1sta bekkjar. Tónleikarnir voru alveg frábærir og krakkarnir búnir að læra mikið af skemmtilegum lögum, meira að segja rokklög og eitt lag úr Sound of Music.
Fimmtudagurinn var nú ekki mikið síðri því þá var komið að vorferð fyrsta bekkjar í Philadelphia Zoo. Það var alveg frábær ferð og mikið af skemmtilegum dýrum sem við sáum, reyndar var Kristófer eitthvað utan við sig og fannst þetta ekkert svo merkilegt. Kannski að það hafi bara verið samblanda af því að hann hefur séð þetta allt saman áður, nýbúinn að fara í dýragarð í Vestur-Virginíu og ennþá pínu slappur.
Svo er húsfrúin (moi) loksins búin að hætta sér í klippingu, strípur og litun! Merkisviðburður að mínu mati enda veitti nú ekki af, komin með mjög úrvaxnar strípur...mjög hallærisleg gella. Ég skellti mér bara á nýju stofuna sem var að opna hérna við hliðiná okkur og þóttist bara nokkuð sátt með útkomuna og reikninginn sem ég fékk í hausinn. Þætti kannski í dýrara lagi heima en mjög vel sloppið hérna fyrir allan þennan pakka. Svo var mín bara komin í einhvern "make-over" fíling og skellti mér því líka í hand-og fótsnyrtingu...algjört möst svona eftir veturinn svo maður geti nú látið sjá sig í opnum skóm.
Já og fyrst ég er nú að reita af mér hvern stórviðburðinn af fætur öðrum finnst mér nú við hæfi að segja ykkur frá því að við erum búin að finna okkur barnapíu! Finally! Voða fín rússnesk stelpa sem hefur búið hérna í Bandaríkjunum í 4 ár og ekki er það nú verra að hún býr bara hérna í næsta húsi við okkur. Kristófer var nú fljótur að kynna sig sem Kristófer með "K" en ekki "Ch", stelpan svaraði honum því að hún héti Kristina með "K" líka, þetta fannst honum algjör snilld að einhver kannaðist við að allir stafa nafnið hans vitlaust.
En jæja er þetta ekki komin ágætis sárabót fyrir bloggleysi undafarna vikna?
Ekki gleyma að lesa sumarbústaðar færsluna hérna fyrir neðan, ég ákvað nefnilega að setja bloggið inn í tveimur færslum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli