laugardagur, desember 31, 2005

GLEÐILEGT NÝTT ÁR!

Kæru vinir og ættingjar, nær og fjær, okkar bestu óskir um gleðilegt nýtt ár! Þökkum allt það liðna...og sjáumst svo vonandi fljótlega á nýja árinu.

Nýárskveðja,
Elmar, Andrea, Kristófer Leó og Rúna.

þriðjudagur, desember 27, 2005

jólakveðja

Okkur langar að koma á framfæri innilegu þakklæti fyrir alla pakkana, kortin, símtölin og kveðjurnar sem okkur bárust fyrir og yfir jólin. Það er alveg yndislegt að eiga svona góða að. Takk fyrir okkur!
Við erum búin að setja inn helling af jólamyndum sem ykkur er velkomið að kíkja á og eru þær í albúmi merkt Jólin 2005.
Bestu kveðjur frá NJ-Genginu.

föstudagur, desember 23, 2005

Þorláksmessa

Undirbúningurinn hérna er um það bil að vera búinn... enda ekki seinna vænna. Við erum búin að skreyta jólatréið okkar, reyndar gerðum við það síðastliðinn mánudag, og það eru komnir nokkuð margir pakkar undir tréið...sem er meira að segja ekta þessi jólin! Þetta er orðið mjög spennandi. Við verðum með hamborgarhrygg í mat á aðfangadag og svo er spurning hvenær hangikjötið verður snætt, en Rúna kom eins og jólasveinn til okkar með troðfullar töskur af allskyns góðgæti, m.a. Hangikjöt, hamborgarhrygg, Læri, fisk, lax, londonlamb og fl... ásamt íslenska meðlætinu og jólablandinu. Það vantar ekki matinn á þetta heimili á næstunni. Takk fyrir okkur Maggi og Jóhanna... og Ella, Rúna og Helgi... Maggi og Balti... og mamma og pabbi, vá, það eru margir sem þarf að þakka. Takk kærlega fyrir frábærar sendingar og án ykkar aðstoðar yrðu jólin án efa ekki eins hátíðleg og íslensk.

Til að bæta við frekari jólastemmingu, þá eru Andrea og Rúna búnar að baka einar 5 sortir af smákökum og brúnköku. Við strákanir erum mjög hrifnir af því framtaki hjá þeim og erum duglegir að "smakka" hjá þeim. Og svona til að toppa "Íslensku" jólinn var ákveðið að halda hérna jólakaffi boð á annan í jólum. Buðum við öllum íslendingum sem við þekkjum hérna á svæðinu, Eggert og fjölskylda, og Orri og fjölskylda. Það verða tilheyrandi brauðréttir í boði, nokkrar bombur, pönnsur og auðvitað heitt súkkulaði. Þetta eiga eftir að vera mjög eftirminnileg jól.

Rúna er kominn og verður hjá okkur til 14. Janúar. Hún og pabbi hennar eru svipuð, það þurfti að bíða eftir henni í hátt í 2 tíma meðan hún var að koma sér í gegnum tollinn og geri aðrir betur. En það verður frábært að hafa fulltrúa fjölskyldunnar frá Íslandi á meðal vor.

Kristófer montar sig af því að hafa 14 jólasveina þegar allir vinir hans hafa bara 1, mjög sniðugt. 13 aukasveinar frá Íslandi, og einn frá USA, sem kemur niður um ímyndaða strompinn okkar, og skilur eftir glaðning undir jólatréinu.

Kristófer er búinn að eignast nýjan vin, sem er strákurinn í næsta húsi við okkur, hann Joseph Jin sem er rúmu ári yngri en þeir skemmta sér vel saman. þeir skiptast á því að fara til hvors annars í heimsókn. það lyktar smá af íslandi að hafa þennan ganginn á. Ekki þetta process að hringja með 2 vikna fyrirvara til að plana "Play-Date". Mjög þægilegt.

Andrea og Rúna hittu íslending í Target um daginn. Það var stelpa á aldri við Andreu, hún Lilja og er mamma hennar íslensk en pabbi hennar bandarískur. Hún býr í Trenton, sem er næsti bær hérna við hliðina á okkur. Þetta bar þannig að, að hún kom upp að þeim systrunum og spurði á ensku "Excuse me girls, are you talking icelandic?". Andrea snéri sér að henni með uppglennt augun og gapandi kjaftinn og svarði "Ekki segja mér að þú sért íslensk????". Fyndið, íslendingar virðast leynast á ótrúlegustu stöðum. "We are taking over the World" !!! Mu ha ha ha. En Andrea endaði samtalið á að láta hana hafa númerið sitt... auðvitað var Andrea ekki með GSM símann sinn. (það eina skipti sem hann hefði getað komið að notum síðan hún fékk hann). Og nú er bara að bíða og vona að hún slái á þráðinn.

Að lokum viljum við óska öllu vinum og ættingum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Elmar, Andrea og Kristófer.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Nýjar Myndir, Ný Albúm

Var að setja inn nýjar myndir í 2 ný albúm. Þetta eru myndir frá þakkagjörðahátíðinni og síðan í Desember. Endilega skoðið þær.

miðvikudagur, nóvember 30, 2005



Hildur og Kristófer hjá snjókarlinum sem þau bjuggu til.

Thanksgiving...
við skruppum aftur í "kofann" góða í fjöllum Vestur Virginíu, nánar tiltekið í bæ sem heitir Moundsville og hittum Fanney, Högna og fj. og vorum þar með þeim í nokkra daga. Við vorum eitthvað tvístígandi með ferðina því veðurspáin fyrir staðinn leit nú ekkert voðalega vel út...átti að vera snjókoma og slydda til skiptist allan tíman. En við ákváðum eftir að hafa hætt við og svo hætt við að hætta við nokkrum sinnum að amk. reyna þetta. Ferðin gekk alveg ágætlega þar til við komum í vesturhluta Pennsylvaniu, en þar var blindhríð og umferð gekk mjög hægt. Eftir 10 tíma keyrslu komumst við loksins til Moundsville rétt undir miðnætti. Við vorum þar í 4 daga og mikil ósköp var étið. Það var auðvitað eldaður kalkúnn með öllu tilheyrandi, sem lukkaðist líka svona ljómandi vel. Þarna fundum við líka eina flottustu jólaljósa sýningu í Bandaríkjunum og kom það okkur öllum í voðalegt jólaskap.

Núna um helgina er okkur svo ekkert að vanbúnaði og jólaskrautinu verður hent upp í allri sinni dýrð og bakaðar nokkrar smákökur. Við Kristófer fengum okkur jóla svuntur í stíl svo við verðum glæsileg í smáköku bakstrinum. Svo eru nú reyndar enn nokkrir jólapakkar sem á eftir að kaupa líka en það eru alltaf nokkrir sem eru til vandræða...nefnum engin nöfn :)

Jiii, eins gott að ég gleymi ekki aðal fréttunum...það lítur út fyrir að Rúna systir komi og verði hjá okkur yfir jólin. JEEEIII!!! Það verður alveg æðislegt að hafa hana hjá okkur og góð tilbreyting að hafa ættingja hjá okkur yfir jólahátíðina.

Annars er jólaösin hérna alveg að gera útaf við mann...hvaðan kemur allt þetta fólk segi ég nú bara! Mollin eru kjaftfull út úr dyrum og engin stæði að fá, allar búðir fullar af fólki sama hvuslags búð það er...skil þetta barasta ekki. Skrapp út í Shop Rite í gærkvöldi kl 22 og það var alveg brjálað að gera...aldrei séð svona mikið af fólki versla þarna á þessum tíma.

Góða helgi!

P.S. Fyrir þá sem hafa óskað þess, er nýja heimilisfangið okkar eftirfarandi:

21 Dumont Court,
Lawrenceville.
New Jersey, 08648.
USA

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Hitt og þetta...



Jæja, Kristófer er allur að koma til og fór í skólann í dag í fysta sinn síðan síðasta miðvikudag. Þetta er alveg agalega leiðinlegt þegar hann fær þessa strepptakokka því hann verður svo hræðilega lasinn. Ekki bætti úr að í þetta skiptið fylgdi þessu eyrnabólga í þokkabót. Greyjið var með yfir 40 stiga hita í 4 daga og algjörlega lystarlaus, sem gerði það að verkum að hann var orðinn ansi veiklulegur og tekinn í gær, að við ákváðum að halda honum heima í gær svo hann myndi ná sér að mestu áður en hann færi aftur í skólann.


Við fengum ágætis staðfestingu á því hvað hann væri slappur s.l. laugardag, ég var orðin frekar áhyggjufull yfir því að hann væri ekkert búinn að borða af ráði í 3 daga. Ég bauð honum ís...banana...súkkulaði...brauð...en hann hristi bara hausinn. Svo ég að ég bað hann að nefna hvað sem er sem hann vildi og ég myndi útbúa það fyrir hann...og hvað haldiði? Tveim tímum síðar heyrðist í honum "mamma...mig langar í brokkolí súpu". Strákurinn sem kúgast við það eitt ef græmeti er nefnt á nafn í hans viðurvist...bað um brokkolí súpu! Þá litum við Emmi á hvort annað og hugsuðum bæði...OK?!? Hann er augljóslega mjög lasinn! En það var greinilega það sem hann vildi því hann kláraði heila skál með góðri lyst...góð tilbreyting það.

Annað í fréttum er að ég byrja í sjúkraþjálfun í dag...jeiii! Svo er það lögfræðingur á morgun, ákváðum að við þyrftum að fá eitt stk svoleiðis til að sjá um þetta árekstramál því þetta er allt svo flókið eitthvað.

Ég gleymdi alltaf að segja ykkur frá því að ég er orðin "homeroom parent" í skólanum hans Kristófers. Það felur í sér að sjá um partý og þessháttar með nokkrum öðrum mömmum sem buðu sig fram til þess sama. Fyrsta partýið var í þarsíðustu viku, United Nations Day og þá áttu foreldrar barnanna að mæta með "útlenskan" mat eða eftirrétt. Við Kristófer slóum í gegn með íslenskar upprúllaðar pönnukökur, þær runnu út eins og heitar...ömm...lummur. Þeim fannst það reyndar furðulegt að við stilltum pönnukökunum upp á desert borðinu, ekki alveg að meðtaka það að hafa pönnukökur í desert.

Halloween lukkaðist alveg rosalega vel hjá okkur. Okkur var boðið í mat til John og Lisu um sex leitið. Svo fórum við um hverfið þeirra með strákana að "trick or treat" og greinilegt að allir þekkja alla í hverfinu þeirra svo að strákarnir fengu að vaða í nammiskálarnar og taka sér sælgæti að vild...ekkert skammtað þar. Svo Kristófer á hérna áreiðanlega 2-3 kíló af sælgæti á eftir að duga honum amk. fram að næsta Halloween.

Kveðja NJ-gengið.

P.s. gestabókin er alltaf á sama gamla góða staðnum ;o)

föstudagur, nóvember 04, 2005

Kistófer slappur

Litli Lasarúsinn okkar er mjög slappur þessa dagana. Hann vaknaði í gær með rúmlega 41c stiga hita og bólgna eitla í hálsinum. Við þurftum síðan að eyða um 2 tímum í gær, keyrandi um í leit að lækni sem vildi skoða hann strax. Heimilislæknirinn okkar er ekkert voðalega liðlegur þegar kemur að svona málum. Þegar læknirinn, sem við náðum loksins í skottið á, skoðaði hann, kom í ljós að hann er með Streptakokka og eyrnabólgu. Þannig að Kristófer var heima í gær og í dag, og verður það þar til hann hefur jafnað sig. Við vonum bara að hann verði orðinn hress á sunnudaginn til að geta spilað í síðasta leik sínum í fótboltanum.
Við erum búin að "taka til" í október albúminu okkar og skrifa við myndirnar þar. Næst á dagskrá Safarí albúmið.

Kveðja
Elmar og Andrea

Ps. eruð þið búin að taka eftir því að dollarinn er á einstöku tilboði um þessar mundir eða 59.99! Algjört Bónus verð :)

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Nýjar Myndir, Ný Albúm

Hæ hæ góðir lesendur,

Mig langaði bara að láta ykkur vita að það eru komin 2 ný almbúm hjá okkur, ég var samt ekki að nenna að flokka þetta allt. eða skrifa eitthvað við hverja mynd.

þannig að þið verðið bara að skoða allt :)

Nýju ambúmin eru Safarí, sem er frá Safarí ferð sem við fórum í með Magnúsi. Seinna almbúmið er Óktóber 2005 sem er samansafn af myndum sem voru teknar í Óktóber, meðal annars Halloween myndir og annað slíkt.

sunnudagur, október 30, 2005

Halló??!!

Jæja þá er kominn tími á löngu tímabært blogg :)
Við höfum haft nóg fyrir stafni undanfarið svo bloggið hefur fengið að finna fyrir því.
Veðrið hérna hjá okkur er bara búið að vera prýðilegt, var nú farið að kólna allverulega í síðustu viku en svo í dag og í gær er búið að vera sól og blíða. Sat meira að segja úti á svölum í sólbaði fyrr í dag og gat nú ekki annað en hugsað til allra heima á Íslandi í snjónum og kuldanum. En þetta er allt í lagi, þið getið montað ykkur í janúar og febrúar þegar frosthörkurnar gera vart um sig hérna, því það er ekkert venjulegt hvað það verður kalt hérna hjá okkur.

Eins og við vorum búin að segja ykkur frá kom pabbi (Andreu) til okkar í fyrsta sinn, í 3 vikur, í síðasta mánuði. Við gerðum alveg heilann helling, svo að hann fór heim með bros á vör og hét því að koma aftur fyrr en síðar...við eigum eftir að vera dugleg að minna hann á það. Við skelltum okkur í margar New York ferðir, bæði til að ráfa þar um og skoða og einnig í ferðir með leiðsögumönnum. Það má segja að við séum komin með próf í New York núna, þó fyrr hefði nú mátt vera. Það eina sem við náðum ekki að skoða, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, var útsýnið yfir borgina frá Empire State. Við vorum búin að fara í "rússíbanann" og keyptum um leið miða upp í turninn...því þar var svo agalega sniðugt pakka tilboð þið skiljið ;) En í hver einasta skipti sem við komum var lokað vegna þess að það var svo skýjað. Þú passar bara vel uppá miðana pabbi og reynum bara aftur næst! En svo skellti pabbi sér einn í sólahringsferð til Niagara Falls, hann var mjög ánægður með hana og það var séð um hann alveg frá a-ö, svo við þurftum nú ekki að hafa miklar áhyggjur af honum. Við kíktum líka í Safarí hjá Six Flags sem var alveg æðislegt að skoða, Kristófer fannst þetta algjört æði og hló sig alveg máttlausann þegar gíraffar og allskyns dýr voru að gogga eða sleikja rúðurnar hjá okkur(skellum inn myndum frá því fljótlega). Takk fyrir okkur pabbi, þetta var alveg frábært!

Annars erum við á leiðinni að fara að skreyta allt hérna, það er búið að kaupa köngulóarvefi, skröltandi beinagrind, hvæsandi risaköngulær og ýmislegt fleira til að hræða börnin sem koma og banka uppá hjá okkur á morgun því þá er Halloween. Þetta verður nú alltaf stærra og stærra í umfangi hjá okkur með hverju árinu, byrjuðum fyrsta árið með eitt graskershöfuð með ljósi inní...svo núna eru þau orðin tvö og ýmislegt annað búið að bætast við í skreytingarnar. Kristófer var alveg harðákveðin í því að vera Svarthöfði enda einlægur Star Wars aðdáandi. Svo hann verður flottur á morgun með geislasverðið og raddbreyti svo hann sé nú alveg ekta. Okkur er boðið í mat til John og Lisu annað kvöld og förum svo með þeim og strákunum þeirra að "trick or treat" í nágrenninu.

Við fórum nú í heldur betur áhugaverða innkaupaferð í Whole Foods í gær, já hvað haldiði að hafi verið í innkaupakerrunni hjá okkur??? Jú, íslenskt lambalæri, Höfðingi, Stóri Dímon, Íslenskt smjör, skyr og íslenskt vatn!!! Svo nú angar hér allt af lambalærislykt sem ég er að elda fyrir kvöldið...ekki slæmt það!
Jæja...strákarnir eru orðnir svo spenntir að fara að skreyta að ég ætla að láta þetta duga í bili og slást í hópinn með þeim.

Gleðilega hrekkjavöku!

Ps. minni á gestabókina!

laugardagur, október 08, 2005

Nýjar myndir

Það eru komnar nýjar myndir hjá okkur, þær eru frá heimsókn Magnúsar til okkar. Hann hefur hitt mikið af frægu fólki og er hægt að sjá myndirnar af því núna... endilega kíkið

fimmtudagur, september 29, 2005

Boðlaupið heldur áfram...

Síðastliðinn föstudag fóru Sigga, Tóti og Sædís heim, og Magnús tengdapabbi kom með sömu vél. Sigga og Co., takk kærlega fyrir skemtilega heimsókn, við nutum þess að hafa ykkur hjá okkur þessa daga. Takk fyrir að nenna að spila kana við okkur á næstum hverju kvöldi (

Magnús er búinn að vera upptekinn frá því að hann kom hingað, hann er búinn að fara með okkur Krissa á fótbolta leik þar sem Kristófer sýndi honum hvað hann getur í boltanum. Síðan var skruppið til Washington á sunnudaginn. Lentum þar í miðjum mótmælenda aðgerðum og var mikið um að vera. Sumir staðirnir voru lokaðir út af þessu og mjög margt um manninn þennan dag. Við sáum meðal annars 12 löggubíla, með ljósin og sírenurnar á fullu keyra fram hjá okkur, ásamt 2 herþyrlum sveimandi um. En við náðum að sjá Hvíta húsið, World War II minnismerkið, “Forest Gump / Jenny” vatnið, og minnisvarðan um Abraham Linclon, ásamt minnisvarðanum um Víetnam stríðið. Á sama tíma var mikið um krakka þarna líka, á aldrinum 10-12, í einhverju programmi sem gékk út á það að sýna þeim Washington og allt sem er að sjá þar, eitthvað til að spá í seinna meir fyrir Kristófer.

Síðan hafa molla ferðirnar verið tíðar og góðar, Magnús er alltaf jafn hissa þegar hann þarf að borga svona lítið fyrir það sem hann er að kaupa. Við skelltum okkur svo í bíó um daginn, sáum nýju Jodi Foster myndina, Flight Plan. Hún var ágæt bara, við Maggi vorum a.m.k. spenntir yfir henni.

Við, Andrea og ég það er að segja, fórum síðan á “Back to School” kvöld í gær. En þá fengum við að hitta kennarann hans Krissa, og hina foreldrana í bekknum hans. Hápunkturinn var þegar kennarinn var að segja frá “United Nations” deginn sem verður haldinn hátíðlegur fljótlega, og minntist kennarinn á að Kristófer væri mjög stoltur af því að vera frá Grænlandi. Skrrrens.. Grænlandi??? Við Andrea hlóum og sögðum að reyndar værum við frá Íslandi, ekki Grænlandi. Kennarinn hans, Mrs. Smith, roðnaði heilu ósköpin og baðst innilega afsökunar. Síðan spjölluðum við aðeins við kennarann í einrúmi og Kristófer er víst að standa sig mjög vel, hann skilar öllum verkefnum með sóma og fær góðar umsagnir hingað til. Hann þarf að vanda sig betur við skriftina (þeir sem þekkja mig, vita hvaðan hann fær þessa hræðilegu skrift) og læra að hemja sig. Það er víst þannig að þegar hann veit svarið við einhverju, kallar hann það hátt yfir allan bekkinn, í stað þess að rétta upp hönd fyrst, en þau eru að vinna í þessu og hann tekur framförum á hverjum degi.

Kristófer tók síðan miklum framförum í gær í því að hjóla, en ég lét hann hjóla í hringi hérna á götunni fyrir utan húsið, keppnisskapið skein í gegn og hann stóð sig eins og hetja, hann náði að hjóla 6 hringi á þess að stoppa eða detta og fagnaði því vel. Hann reyndar hoppaði og kallaði yfir all hverfið “Ég náði SEX. SEX! SEX! SEX!”. Fólkið í kringum okkur var farið að líta okkur hornauga þannig aðég hvatti hann til að fara annaðhvort 5 eða 7 hringi næst. En í morgun bað hann mig um að fá að fara út að hjóla þegar hann kemur heim og er það í fyrsta skipti sem hann biður um það, frekar en að fara í tölvuna, það er stórt skref hjá mínum manni.

Meira síðar...
Elmar.

þriðjudagur, september 20, 2005

Önnur ferð til Point Plesant

Við vorum svo hrifin af Point Plesant síðast þegar við fórum þangað, að við ákváðum að skella okkur aftur þangað til að sýna Siggu, Tóta og Sædísi. Að vísu er núna svokallað Off-Season (Ekki lengur háanna tími), þannig að tívólíið var lokað, en ströndin var þess í staðin ókeypis.

Þetta var í einu orði sagt meiriháttar, við skemmtum okkur öll konunglega. Kristófer var sko ekki hræddur við að vaða út í sjóinn og öldurnar og fór oftar en ekki á kaf, en stóð bara upp og öskraði "Þetta er gaman". Sædís, fékk að fara í sjóinn með pabba sínum og hló rosa mikið og skemmti sér konunglega. Þó svo að það hafi verið kominn miður september, og meira til, þá var hlýtt og gott á ströndinni. Við vorum ekki að stikna úr hita, en engum var kalt heldur.

Tóti kendi mér "Body-surf", og þó svo ég segi sjálfur frá... stóð mig alveg frábærlega, ég stóð á höndum þegar mér skolaði á ströndina að lokum, að vísu á ekki að gera það, og ég meiddi mig smá í bakinu. Reyndar fékk ég líka skurði á bringunni... en þetta var samt mjög gaman.

endilega skoðið myndirnar frá ferðinni okkar og fleiru, þær er að finna aftast í September albúminu okkar.

föstudagur, september 16, 2005

Íslenskt Skyr í hádeginu


sæl og blessuð,

Ég fékk þær fréttir í dag að Whole Foods, keðja sem er fræg fyrir að hafa góðan og öðruvísi mat, er að halda kynningu á íslensku lambi og skyri. Ég hringdi strax í konuna, en hún var stödd í verslun við hliðina á Whole Foods, þannig að hún kom við þar og keypti smá skamt, rándýrt, eða um $12 fyrir smá slettu, en það var þess virði.

Þetta er grein sem kom í New York Times

mánudagur, september 12, 2005

Nýjar myndir

Sæl verið þið. Vildi láta ykkur vita af nýjum myndum í September albúminu okkar. Þar er að finna, meðal annars, myndir frá Point Plesant og upphafsdag fótboltans hjá Kristóferi.

Njótið vel

laugardagur, september 10, 2005

Point Plesant, NJ

Í gær kíktum við á ströndina í Point Plesant...loksins! John, Lisa, Andrew og Gregory voru að fara þangað og buðu okkur að koma með. Afhverju höfum við ekki farið þangað áður, ég bara spyr? Ekkert smá fallegar baðstrendur hérna sem við höfðum ekki hugmynd um! Það var meira að segja búið að gróðursetja lifandi pálmatré meðfram allri ströndinni svo að það var ekki laust við að maður fyndi fyrir smá Flórída fíling, þetta var alveg mergjað. Það er amk. alveg klárt mál að þessi staður verður stundaður óspart næsta sumar. Þarna var sædýrasafn, rússíbanar, allskyns leiktæki fyrir börn og fullorðna, skotbakkar og skemmtilegar búllur meðfram ströndinni sem gaman var að kíkja í. Við vorum þarna langt framá kvöld því það var svo mikið að skoða og gera. Kristófer er alveg í skýjunum eftir þessa ferð og fannst þetta næstum toppa Six Flags ferðina fyrr í sumar...og það þarf nú mikið til þess :)
Við setjum inn nokkrar myndir frá ströndinni fljótlega.

miðvikudagur, september 07, 2005

BREYTT SÍMANÚMER !

Við erum komin með nýtt heimasímanúmer og það er: (609)-249-3725
Heyrumst!

þriðjudagur, september 06, 2005

Nýjar myndir í september albúmi!

Minni ykkur líka á gestabókina :)

í fréttum er þetta helst...

Ég ætla að byrja á að senda vini okkar á Flórída, honum Eyþóri, innilegar hamingjuóskir með afmælisdaginn! Kossar og knús frá okkur litli vinur!

Það er annars allt gott í fréttum héðan...
Kristófer byrjar í skólanum á morgun svo að það ríkir mikil spenna hérna á heimilinu núna, allt tilbúið fyrir fyrsta daginn...ný skólataska, nestisbox og auðvitað ný föt og skór. Við vorum að ljúka við að koma Kristófers herbergi í stand...en Kristófer ákvað að þema þess skyldi verða SpongeBob eða Svampur Sveins eins og hann þekkist held ég á klakanum. Svo að það fer ekkert á milli mála núna þegar maður kemur inní herbergið hans að þar búi aðdáandi Svampsins góða...allt frá óhreinatauskörfu og náttljósi... uppí gardínur og rúmteppi!

Við eigum reyndar von á því á næstu dögum að hingað mæti her af vinnumönnum sem eiga að rifa öll teppi af hjá okkur og setja svo ný...mmm lovlí...við sem erum rétt nýbúin að koma okkur fyrir. En við erum reyndar alveg sátt við það að þurfa að rútta öllu til hérna svo þetta sé mögulegt því teppin hérna eru vægast sagt "díí-skösting".

Á föstudaginn fékk Kristófer heimsókn, Andrew félagi hans kom hingað í heimsókn á meðan mamma hans þurfti að standa í útréttingum. Hún kom síðan uppúr hádegi að sækja gaurinn og stoppaði þá við í hádegismat hjá okkur. Andrew var sko ekkert á þeim buxunum að fara svo að mamma hans þurfti að beita öllum ráðum til að fá drenginn af stað en ekkert dugði fyrr en hún var búin að lofa því að hann fengi að koma aftur til okkar í næstu viku :)

Á laugardaginn komu svo Ása, Eggert og strákarnir til okkar í mat. Þá var sungið og trallað fram eftir kvöldi...eða svona næstum því... fyrir utan sönginn :) Mikið afskaplega er nú gaman að fá íslendinga hingað til Nú-Djörsí.

Og að símamálum...þá erum við enn að bíða eftir einhverju apparati frá Vonage (símafyrirtæki) og það ætti nú í raun að vera komið, svo það ætti nú að fara að detta inn hvað og hverju. Það er búið að vera eitthvað vesen að fá að halda gamla númerinu okkar...við erum búin að standa í miklu stappi útaf því en allir vísa á hvern annan svo að það eru miklar líkur á því að við fáum nýtt númer...sem er kannski bara ágætt því að við höfum ekki fengið frið fyrir japönskumælandi fólki sem hringdu viðstöðulaust í gamla númerið okkar....

hér er tíbýskt dæmi um símtal frá þeim:
Síminn: Ring ring...
Við: Halló...?
Japani: hong díng da nang?!
Við: whuut?
Japani: díng dong da dang?!
Við (á íslensku) : Já já einmitt, við segjum bara allt ágætt en þú?
Japani (skömmustulegur) : OOOH sooorí...jú spík ínglísh?
Við: jess... dú jú?
Japani: Ohhh, æ ríng tú ðe rong number...jess?!
Við: Jess æ þínk jú hev...
Japani: Ohhh só sorrí...æ træ agen bye bye

5 mínútum síðar...
Síminn: Ring ring...
Við: Halló...
Japani: Oh-ó...mí rong agen... só verrí sorrí bye bye.

Svo það er kannski bara ágætt að fá nýtt númer :)

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Allt í lukkunnar vel standi hér!

Hæ hó...

Af okkur familíunni er bara allt gott að frétta. Sumarið er búið að vera alveg frábært og mikið af góðum gestum búnir að koma og fara...og nokkrir ennþá ókomnir.
Við erum s.s. búin að flytja... bara hérna innan Lawrenceville. Komin í ágætis raðhús á 3 hæðum með bílskúr og alles. Reyndar er þetta ekkert mikið stærra en íbúðin sem við vorum í, held að þetta sé um 20-30 fm stærra. En einhvernvegin kemur þetta skipulag miklu betur út en gamla íbúðin. Kristófer er komin í RISA herbergi (ekki það að hitt hafi eitthvað verið lítið), með sér baðherbergi og "fatakompu". Við skutlum inn myndum af slottinu við tækfæri...kannski þegar við erum búin að taka uppúr öllum kössum. Það eru s.s. ennþá kassar hérna sem hafa ekki ennþá verið opnaðir...en við söknum ekki neins úr þeim ennþá svo það liggur kannski ekkert á :)

Það er komið í ljós að umsjónarkennarinn hans Kristófers næsta vetur heitir Mrs. Smith og mun skólinn byrja 7. september. Kristófer segist ekkert hlakka til að byrja í nýjum skóla, saknar bara gamla skólans og félaganna þar. En það hefði nú ekkert verið sjálfsagður hlutur að hann hefði fengið að fara í bekk með gömlu bekkjarfélögunum ef hann hefði haldið áfram í sama skóla. Veit að t.d. vinur hans hann Andrew fer í bekk og enginn af hans gömlu félögum verður þar með honum. Bekkjunum er alltaf stokkað upp á hverju ári svo það er allt eins von á því að krakkarnir lendi ekki með neinum af fyrri bekkjarfélögum.

Á laugardaginn byrjar svo fótboltinn hjá Kristófer. Vorum einmitt að fá þær fréttir að pabbi Andrews, John, verður aðstoðarþjálfarinn hans og Andrew og Drew (annar fyrrv.bekkarfélagi) verða með honum í liði. Svo það verður svaka fjör í boltanum, líka gott að halda sambandi við gömlu vinina.

Á laugardagskv. ætla svo Ása og Eggert, ásamt sonum, að kíkja til okkar í mat. Þau eru nýflutt hingað til NJ frá Kanada. Eggert er einmitt búin að ráða sig í vinnu til BMI, sama stað og Elmar.

Við vorum að skutla inn nokkrum nýjum "gömlum" myndum í ágúst albúmið. Ennþá er slatti eftir sem við eigum eftir að sortera og skutla inn á næstu dögum...svo verið viðbúin :)

Verið nú góð við hvert annað!

Kv. Adda og Co.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Flutningar!

bara svona að láta alla vita að við erum að fara flytja í dag svo að við verðum netsambandslaus amk fram á næsta fimmtudag, erum ekki viss hve lengi við verðum án heimasíma.
Ef einhver þarf að ná í okkur eru gemsanúmerin okkar eftirfarandi:

Elmar: 732-447-6376
Andrea:732-447-6377

Góða helgi!

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Hitabylgja

Já, nú gengur yfir hitabylgja hérna hjá okkur með tilheyrandi raka. Fólk hérna talar um að það muni ekki eftir svona heitu sumri í mjög langan tíma. Við höfum bara tekið því rólega og slappað af við sundlaugina síðastliðna daga, reynt að næla okkur í smá tan svo að Rúna okkar fari ekki hvít heim á föstudaginn. Það er nú reyndar takmarkað hvað maður þolir að liggja úti í þessu því maður er orðinn ansi grillaður eftir klukkustundar BBQ.
Rúna fer heim á föstudag, fer heim með sömu vél og fjölskyldan hans Elmars kemur með. Svo að það er vel nýtt ferð á flugvöllinn :)
Svo er bara málið að ég fari að drífa mig í saumaskapinn á næstunni, margir gluggar í nýju íbúðinni sem þarf að hylja. Ef ég man rétt eru um 12-14 gluggar...x 2-4 vængir....úfff...gaman gaman!

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Nýja íbúðin okkar

Þetta er mynd af nýju íbúðinni okkar. Þetta er reyndar raðhús og er mjög skemmtilega hannað. Það er á 3 hæðum. Efsta hæðin er með 2 svefnherbergi, bæði mjög stór og með sér klósetum og STÓRUM skápum. Einnig eru þvottavél og þurrkari á milli herbergaja tveggja.
Á miðhæðinni er að finna stórt og gott Eldhús þar sem hægt er að koma fyrir litlu borði og stólum, til að borða morgunmat. Síðan er þar líka stór stofa, borðstofa og gesta-klóset. Tvennar svalir eru á miðhæðinni, báðar frekar stórar. Síðan er neðsta hæðin með tvöföldum bílskúr og stóru herbergi sem verður í senn skrifstofan mín, og gesta-herbergi. Og af neðstu hæðinni er innangengt frá garðinum. Með húsinu fylgir aðgangur að sundlaug.

Húsið er mjög nálægt matvörubúðinni Shop-Rite, og verður hægt að ganga í búðina án þess að fara yfir götur.

Við erum búin að skrifa undir leigusamninginn og ætlum að flytja þangað helgina 19-22 Ágúst.

laugardagur, júlí 23, 2005

Til Hamingju!


Elsku Selma og Andrew,
innilegar hamingjuóskir með litla engilinn og nafnið sem hann er að fá í dag!
Okkar bestu óskir um bjarta og gæfuríka framtíð kæra fjölskylda.
Kossar og knús,
Elmar, Andrea og Kristófer Leó.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Seint koma Bloggin, en koma Þó

Það er margt búið að gerast síðan við settumst niður síðast að blogga. Hérna verður stiklað á stóru...

Indiana Ferð
Fórum til Indiana að heimsækja Högna, Fanney, Hildi og Kristínu í viku. Ég og Högni vorum duglegir í golfinu og fórum líka í bíljard (Pool). Andrea og Fanney fórum á "Djammið" sem var víst eitthvað smá misheppnað þar sem að flestir gestirnir á staðnum þar sem þær fóru á var með mikið af tannlausu fólki :) æ æ æ
Við fórum í mat til vinafólks þeirra, íslensk kona að nafni Ragnhildur og eiginmaður hennar John (Jónsi), á fjórða Júlí, sem eins og ALLIR vita, er þjóðhátíðardagur bandaríkjamanna. Þar héldu við uppá daginn, með smá 17. júní stemmingu.
Hildur hélt uppá afmælið sitt daginn sem við fórum, og var þar þrusu partý.

Kristófer í Soccer Camp
Kristófer er byrjaður í fótbolta-æfingabúðum, og er hann þar frá 9 á morgnana til 3 á daginn. Mjög gaman hjá honum, fyrir utan það að núna er hitabylgja í gangi sem keyrir hitann um og yfir 33 gráðurnar.

Selma systir er orðin mamma.
Systir mín Selma Víðisdóttir er orðin mamma. Hún eignaðist strák þann 14. Júlí og óskum við henni og Andrew roslega mikið til hamingju. Okkur skilst að strákurinn líksti mér og Kristóferi rosalega mikið og er það tilefni til enn frekari hamingju-óska :)

10 ár saman
Við Andrea héldum uppá 10 ára "viltu byrja með mér" afmæli 14. júlí (Sama dag og strákurinn þeirra Selmu og Andrew´s kemur í heiminn) með því að fara út að borða á Cheese Cake Factory og síðan á Cirq Du Solei. Maturinn var æðislega góður en sýningin var alveg ógleymanleg og mælum við eindregið með henni við alla sem geta komið því við.

Meira og ýtarlegara seinna... við setjum síðan myndir inn seinna í dag frá þessu tímabili.

sunnudagur, júní 26, 2005

Viðbættar myndir

Var að bæta við nýjum myndum í Júní almbúmið okkar. Þar er Kristófer að opna gjafir frá Selma, Fjólu, Ömmu og Afa í Boló, Ellu, Baltasari, Magga og Rúnu... ásamt gjöfina sína frá Mömmu og Pabba.

miðvikudagur, júní 22, 2005

Nýjar myndir, nýtt albúm

Það er búið að hlaða inn nýjum myndum fyrir Júní 2005

sunnudagur, júní 19, 2005

Elsku Kristófer okkar,
innilegar hamingjuóskir með sjö ára afmælið á 17 júní! Vonum að afmælisdagurinn hafi verið eftirminnilegur og fjörugur. Okkur langar líka að láta þig vita hvað við erum rosalega stolt yfir því hvað þú stendur þig vel í skólanum og til hamingju með frábærar einkunnir og umsagnir. Við elskum þig svooo mikið!

Milljón kossar og kremju knús,
Pabbi og Mamma.

75% gestanna farin :(

Það er orðið tómlegt á heimilinu núna, en Ella og co. fóru heim í gærkvöldi. Það munaði nú reyndar minnstu að gengið hefði misst af vélinni, en það má segja að allt sem úrskeiðis gat farið fór úrskeiðis á leiðinni á völlinn! Strax á fystu mínútunum helltust tvö stór glös af gosi yfir Ellu...greyið... varð alveg gegn vot svo að það þurfti að rífa töskur út úr bílnum og finna þurr föt. Umferðin þurfti svo auðvitað að vera algjör martröð svo að ferðin á völlin tók helmingi lengri tíma en áætlað var. Vélin fór í loftið kl. 20:50 en við ruddumst inn á flugstöðina þrem korterum fyrir brottför...guði sé lof fyrir að það er aldrei biðröð í tékk-innið hjá Icelandair! En þá þurfti náttúrulega gellan í afgreiðslunni að vera súper nákvæm á vigtinni svo að það þurfti að enduskipuleggja allar töskurnar, á gólfinu fyrir framan hana, svo að enginn þeirra væri yfir 32 kg. Eftir útpældar tilfæringar og mikinn svita náðist að megra helming og þyngja hinn, svo að þær sluppu í gegn. Svo þegar gellan var orðin sátt við vigtina fór hún að tjá sig útaf hjóli sem Ella hafði keypt handa Baltasar...þá kemur það uppúr krafsinu að Icelandair rukkar sérstakt reiðhjólagjald fyrir öll hjól sem flutt eru með þeim...$65 -thank you very much! Svo að gellan sendir Ellu í biðröð til að borga þetta tiltekna reiðhjólagjald...! En til að gera langa sögu stutta sáum við reykinn á eftir þeim útí vél tæpum 10 mínútum fyrir teik-off. Það hefur nú oft verið tæpt þegar við höfum farið í flug en þetta sló öll met...korter í flug og ennþá í tékk-inn! En vona bara að þau hafi valsað í gengum tollana heima og ekkert lent í veseni þar...annars koma þau örugglega aldrei aftur til okkar í heimsókn :)

En Kristófer fékk nú heldur betur eftirminnilegan afmælisdag...og við öll skemmtilegasta 17. júní sem við munum eftir. Við ákváðum loksins að skella okkur í Six Flags skemmtigarðinn sem er hérna í nánasta nágrenni. Vááá...þetta var alveg geðveikur skemmtigarður!! Og ekki verra að hafa hann svona næstum því í bakgaðinum hjá okkur. Héðan í frá verður þetta skylda hjá öllum okkar gestum að fara í þennan garð. Aragrúi af rússíbönum í öllum stærðum og gerðum, þar fremst í flokki fer KingDa Ka sem er hæsti og hraðskreiðasti rússíbani í heimi, 139 metrar á hæð og nær 230 km hraða á 3.5 sek! . Við vorum þarna frá kl. 11 um morguninn til klukkan 20 um kvöldið og náðum örugglega ekki meira en helmingnum af tækjunum. Svo er þarna vatnsleikjagarður og stærsta villidýra safarí í heimi...utan Afríku.

Við erum komin með fleiri hundruði mynda sem við eigum eftir að vinna úr og ætlunin er að skutla þeim inn á næstu dögum. Í dag ætlum við bara að taka því rólega og reyna að komast yfir bömmerinn að Ella og co séu farin...sniff sniff!

miðvikudagur, júní 15, 2005

Afmæli!

Emmalingurinn okkar á afmæli í dag!!! Þrjátíu og eitt ár til að vera nákvæm á þessu. Til hamingju með daginn Emmi...við elskum þig!
Kossar og knús,
Andrea og Kristófer Leó.

Í dag hefjast 3ja daga hátíðarhöld því að ekki nóg með að Emmi eigi afmæli í dag, þá á Maggi afmæli á morgun og svo Kristófer á föstudaginn. Svo það verður fjör hérna í dag og næstu daga!

laugardagur, júní 11, 2005

Sumarfrí

Mig langar að byrja á að senda tvær síðbúnar afmæliskveðjur, en við höfum verið ansi bissý undanfarnar vikur svo að síðan okkar hefur heldur betur verið vanrækt. Elsku Essý og pabbi, innilegar hamingjuóskir með afmælin ykkar fyrr í mánuðinum, Kossar og knús til ykkar beggja!! vona að okkur fyrirgefist seinagangurinn....júú auðvitað hringdum við líka í þau fyrir þá sem eru að hneikslast á okkur :)
Annars er bara búin að vera tóm gleði hérna hjá okkur, búin að skemmta okkur vel með Ellu og co. undanfarnar 2 vikur...og núna eru víst bara vika í brottför hjá þeim....sniff sniff! "Time flyes when you´re having fun" á svo sannarlega við núna. En Rúna mín ætlar nú að gleðja okkur með nærveru sinni fram í lok júlí svo að það er alveg yndislegt.
En jæja...bloggið á eflaust eitthvað eftir að verða grisjótt hjá okkur næstu vikurnar því við ætlum að taka okkur smá hvíld á þessu. Við eigum nú eflaust eftir að skutla inn myndum af og til og látum þær þá tala sínu máli.

Gleðilegt sumar!

sunnudagur, júní 05, 2005

Nýjar myndir

Það eru komnar nýjar myndir í Maí almbúmið okkar.

þriðjudagur, maí 31, 2005

Allir á lífi!

Gestirnir komust hingað heilu og höldnu, þó ekki áfallalaust... Þau tóku vitlausa tösku með sér heim og áttuðu sig ekki á því fyrr en átti að fara að gæða sér á íslenskum snúðum og tebollum að þá blasti bara við þeim táfílu skór og óhrein nærföt! En það er búið að finna eigandann, sem var nú ekki allskosta sáttur með misgripin, því hann og spúsan voru í helgarstoppi í NYC. Svo auðvitað var allt lokað um helgina og ekkert hægt að tilkynna misgripin...svo draumurinn um mjúka snúða og tebollur hurfu fyrir lítið.
Annars er bara búin að vera tóm gleði hjá Kristófer, ekki leiðinlegt að hafa uppáhaldsfrænda hjá sér allan sólahringinn... maður veit ekki af þeim, þeim kemur svo vel saman félögunum.
Við kíktum til Lambertville um helgina, mjög skemmtilegur bær við bakka Delaware-ánnar. En þar spókuðum við okkur yfir daginn, gengum m.a. yfir brúnna til Pennsylvaniu og létum múlasna draga okkur á bát um skurð sem lá í gengum bæinn. Á leiðinni keyrðum við fram á risa antik flóa-markað og auðvitað þýddi ekkert annað en að kíkja aðeins á hann og sjá hvort þar leyndust einhverjir faldir fjársjóðir.
Svo auðvitað er eitthvað búið að mollast, það er ekkert að gera sig að koma hingað án þess að kíkja á mollin. Það er náttlega svo agalega ódýrt hérna að sögn íslendinganna sem hingað koma í heimsókn :)
Annars er stefnan tekin á ýmsa áhugaverða staði þessa vikuna og ég segi ykkur betur frá því síðar.

sunnudagur, maí 22, 2005

Helgarpakkinn

Við erum búin að breyta "geymslunni" okkar aftur í fataskáp í dag...þvílíkur léttir! Það er nefnilega alveg óþolandi við svona leiguhúsnæði að það er ekkert verið að splæsa fermetrum í geymslupláss. Svo að fataskápurinn(walk-in) á skrifstofunni hefur heldur betur fengið að finna fyrir því. En það er alveg með ólíkindum hvað mikið magn kemst inní einn svona lítinn skáp, skrifstofan fylltist við að tæma hann!
Svo erum við að brasa við að pilla hefti af stólunum okkar því að við erum að fara að setja nýtt áklæði á þá, þeir voru orðnir hroðbjóður dauðans! Ekki það skemmtilegasta þegar fólk hefur verið á hefti-fylleríi þegar stólarnir voru upphaflega bólstraðir. Veit ekki alveg hvaða áklæði fer á þá núna...énn...nokkuð ljóst er að það verður að vera auðvelt að þrífa. Hvítt pleður kannski? Ég veit ekki...vona bara að ég finni eitthvað strax svo að gestirnir og við þurfum ekki að éta af gólfinu :/
Annars er bara búið að vera rólegheit á okkur um þessa helgina, ágætis tilbreyting svosum. Lölluðum yfir í mollið í gær og versluðum ammilis dress á Kristófer og húsfrúin lét sig dreyma um $250 leðurveski...hva...það kostar ekkert að láta sig dreyma! Kíktum svo við á Panera í hádegismat, borðuðum hann auðvitað úti því blíðan var þvílík. Kristófer var nú ansi svekktur að það var ekki búið að opna fyrir gosbrunnana sem eru þar, en það er voða vinsælt hjá krökkum að hoppa og sulla í þeim þegar heitt er úti. Ætli það verðir ekki opnað fyrir þá, eins og svo margt annað, um næstu helgi eða Memorial Day Weekend.

Hún á afmæli í dag!

Sigga Lóa...ein af mínum elstu vinkonum á afmæli í dag.
Hún er 28 ára ára í dag, s.s. búin að ná mér... múhahaha!
Innilegar hamingjuóskir með daginn skvís og hafðu það sem allra best í dag.
Fullt af knúsum og kossum,
Andrea, Elmar og Kristófer Leó.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Svindl svindl

Þetta var nú án efa, eitthvað mesta hneyksli í sögu Eurovision frá upphafi. Þegar það var alveg augljóst að hún Selma okkar ætti ekki aðeins að komast í aðalkeppnina, heldur átti hún að komast í eitt af efstu sætunum í henni. Greinilegt að þessi keppni byggist ekki á hæfileikum keppanda, heldur landfræðilegum staðsetningum þeirra. Við erum algjörlega í sjokki hérna og er algjörlega búið að eyðileggja helgina fyrir okkur... og eflaust margra annara dyggra lesanda þessa bloggs.

Andrea telur sig vera komin með lausn á þessu vandamáli, hún vill senda Jagúar í keppnina á næsta ári og ætlar sér ekki að horfa á keppnina aftur fyrr en það gerist.

Ég aftur á móti, vill flytja Ísland til austu evrópu og breyta nafninu á Íslandi í F.I.R Íslandíu. OG HANA NÚ!!!

Vááááá!

Selma var ekkert smá flott! Þetta var alveg frábært hjá þeim öllum. Hlýtur að vera eitthvað mikið svindl í gangi ef þetta kemur okkur ekki uppí aðalkeppnina. Erum á horfa á þetta í gegnum netið ákkúrat núna. Gæðin eru alveg frábær, bæði hljóð og mynd...allt annað en á síðasta ári.

Allt annað líf !

Við fengum teppahreinsun í morgun...jeiiii! Það hefur ekkert smá mikið að segja með loftið hérna, en það er bara allt annað líf að vera innandyra núna. Ég hef reyndar aldrei skilið þessa teppaáráttu hérna, það er allt teppalagt hjá okkur nema klósettin og eldhúsið...meira að segja borðstofan! Svo í ofanálag eru þau mjög ljós og "fluffy" svo að það sér MJÖG fljótt á þeim. Frá því við fluttum hingað höfum við nú skoðað ansi margar leiguíbúðir og aðeins einusinni rekist á íbúð sem var parketlögð. En auðvitað var hún "tú gúd tú bí trú" því að það var skilyrði hjá leigjandanum að þekja 95% gólfana með teppum...einmitt, við vorum ekkert voða spennt fyrir því að kaupa milljón teppi til að uppfylla þetta asnalega skilyrði.

Annars fórum við í kveðjupartý í skólanum hans Kristófers í gær. Mrs. McDonals skólastjóri við Eldrigepark er að fara að setjast í helgann stein, hún er búin að vera við störf í skólann í yfir 40 ár. Svo kveðjupartýið var ansi tilfinningaþrungið fyrir marga, þarna var mikið af foreldum sem voru nemendur hjá henni og eiga núna börn í skólanum.

En talandi um partý, það verður nú heldur betur fjörugt afmælispartýið hans Kristófers sem verður 12 júní n.k. Við vorum að panta sal hjá dansstúdíói sem heitir Dance Spectrum. Þemað á partýinu verður "beach party" og það verður danskennsla, þrautir, leikir, litað, perlað, étið... svo fáeitt sé nefnt. Það verður séð um allt frá A-Ö fyrir okkur, við þurfum bara að mæta! Alveg æðislegt, sérstaklega því þetta er í fyrsta skipti sem við bjóðum öllum bekknum í partý og svo verða náttúrulega gestir hérna hjá okkur á þessum tíma.

Jæja best að fara að græja allt fyrir júró-ið...

Áfram Ísland!

miðvikudagur, maí 18, 2005

Eurovision

Við ætlum að tengja tölvuna fram í stofu og reyna að ná að fylgjast með undankeppninni á morgun. Við gerðum það sama á síðasta ári, engin súper gæði en við gátum amk séð keppendurna og stigagjöfina...sem við vonum nú að verði meira okkur í hag þetta árið :)
Við höfum bara einu sinni heyrt lagið og okkur fannst það bara alveg þrælfínt hjá henni Selmu, vonum að hún taki þetta bara eins og síðast þegar hún tók þátt. Ég er eitthvað að vændræðast með hvar á netinu við getum séð útsendinguna, svo að ég auglýsi hér með eftir slóðinni ef einhver lumar á henni. ÁFRAM ÍSLAND!!

Annars eru báðir gaurarnir mínir hálf slappir þessa dagana, það mætti nú reyndar halda að þeir væru fárveikir ef mið væri tekið af öllum lyfjunum sem var ávísað á þá hjá lækninum. Hvorki meira né minna en 3 tegundir á mann og $170 dollara reikningur. Heima hefði heimilslæknirinn okkar sent okkur heim með þau ráð að taka því rólega og drekka te næstu dagana. En þeir ættu nú vonandi að verða fílhraustir á mettíma með öll þessi lyf sem þeir fengu.

Annað í fréttum er það að núna eru BARA 9 dagar í Ellu, Magga og Baltasar! Litli maðurinn á heimilinu er alveg að missa sig úr spenningi, búin að plana ýmislegt skemmtileg sem á að gera með Baltasar þegar hann kemur. Svo er Rúnsa systir líka að koma og ætlar að vera hjá okkur í næstum 2 mánuði. Svo þetta verður alveg met sumar í gestagangi hjá okkur...veiiii! Svo veit maður aldrei hvort einhverjir eigi eftir að bætast við en það eru allir voða duglegir að hóta okkur með heimsóknum þetta sumarið....sem er auðvitað hið besta mál!

Júrókveðja!

mánudagur, maí 16, 2005

Síðustu dagar...

Mánudag og þriðjudag var Kristófer orðin lasinn kallinn svo að við héldum okkur innandyra og reyndum að taka sem minnst eftir veðrinu sem er búið að vera alveg stórkostlegt. Sól og blíða og hitinn um og yfir 25 C. Emmi heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi fengið súrefnis-eitrun á þessu ferska fjallalofti og hreina kranavatni sem var þarna í bústaðnum.

Á miðvikudaginn var það ekkert annað en harkan sex og skólinn tekinn með trompi, Kristófer tók ekki í mál að vera lengur heima lasinn og missa af aðalviðburði ársins, vortónleikum 1sta bekkjar. Tónleikarnir voru alveg frábærir og krakkarnir búnir að læra mikið af skemmtilegum lögum, meira að segja rokklög og eitt lag úr Sound of Music.

Fimmtudagurinn var nú ekki mikið síðri því þá var komið að vorferð fyrsta bekkjar í Philadelphia Zoo. Það var alveg frábær ferð og mikið af skemmtilegum dýrum sem við sáum, reyndar var Kristófer eitthvað utan við sig og fannst þetta ekkert svo merkilegt. Kannski að það hafi bara verið samblanda af því að hann hefur séð þetta allt saman áður, nýbúinn að fara í dýragarð í Vestur-Virginíu og ennþá pínu slappur.

Svo er húsfrúin (moi) loksins búin að hætta sér í klippingu, strípur og litun! Merkisviðburður að mínu mati enda veitti nú ekki af, komin með mjög úrvaxnar strípur...mjög hallærisleg gella. Ég skellti mér bara á nýju stofuna sem var að opna hérna við hliðiná okkur og þóttist bara nokkuð sátt með útkomuna og reikninginn sem ég fékk í hausinn. Þætti kannski í dýrara lagi heima en mjög vel sloppið hérna fyrir allan þennan pakka. Svo var mín bara komin í einhvern "make-over" fíling og skellti mér því líka í hand-og fótsnyrtingu...algjört möst svona eftir veturinn svo maður geti nú látið sjá sig í opnum skóm.

Já og fyrst ég er nú að reita af mér hvern stórviðburðinn af fætur öðrum finnst mér nú við hæfi að segja ykkur frá því að við erum búin að finna okkur barnapíu! Finally! Voða fín rússnesk stelpa sem hefur búið hérna í Bandaríkjunum í 4 ár og ekki er það nú verra að hún býr bara hérna í næsta húsi við okkur. Kristófer var nú fljótur að kynna sig sem Kristófer með "K" en ekki "Ch", stelpan svaraði honum því að hún héti Kristina með "K" líka, þetta fannst honum algjör snilld að einhver kannaðist við að allir stafa nafnið hans vitlaust.

En jæja er þetta ekki komin ágætis sárabót fyrir bloggleysi undafarna vikna?

Ekki gleyma að lesa sumarbústaðar færsluna hérna fyrir neðan, ég ákvað nefnilega að setja bloggið inn í tveimur færslum.

Sumarbústaðarferð til vestur-Virginíu

Sorrrííí! Bilið á milli bloggana okkar virðist alltaf vera að lengjast meira og meira. En það hefur líka verið óvenju mikið að gera hjá okkur undanfarið. Og auðvitað smá bloggleti spilað inní líka...*ROÐN*
En eins og kannski hefur ekki farið framhjá neinum fórum við til Vestur-Virginíu um þar síðustu helgi að hitta Fanney, Högna, Hildi og Kristínu litlu. Þetta endaði með að vera alveg æðislegur staður, falinn uppí fjalli. Húsið var miklu betra en við þorðum að gera okkur vonir um, alveg yfirdrifið af plássi og og nóg fyrir okkur til að hafa fyrir stafni í allra nánasta nágrenni...nema kannski moll fyrir okkur skvísurnar. Strákarnir skelltu sér í golf á mjög eftirminnilegan golfvöll sem endaði á toppi fjallsins. Þarna var líka mini-golf, sundlaug, leikvellir og alveg einstakt útsýni. Húsið var alveg hræbilligt, líka miðað við það að það var allt það helsta í húsinu eins og hrein rúmföt, búsáhöld, sjónvarp og hreinlætisvörur. Við vorum amk. öll mjög ánægð með þetta og gætum alveg hugsað okkur að hittast þarna aftur.

Við Fannsa skelltum okkur auðvitað í moll á laugardeginum. Mapquestið góða brást okkur nú heldur betur svo að við vinkonurnar enduðum í skuggalegu hverfi í Pittsburgh, en ekki hjálpaði það að þennan sama dag var eitthvað voða "homeland security drill" (sennilega sett á svið hryðjuverk) í miðborg Pittsburgh sem gerði það að verkum að flestar götur voru lokaðar og allstaðar löggur, slökkviliðsbílar, sjúkrabílar og svo frv. En á endanum náðum við svo að komast á rétta leið eftir að hafa tekið dágóðan rúnt um Pittsburgh...bara smá svona útsýnis túr :)

Mikið var nú æðislegt að hitta þau aftur og vonandi líður ekki svona langt þar til við hittum þau aftur næst. Takk fyrir æðislega helgi elskurnar og sjáumst vonandi fljótt aftur!

föstudagur, maí 13, 2005

Nýjar myndir, nýtt albúm

Hæ hæ, það eru komnar nýjar myndir í Maí 2005, reyndar voru svo margar myndir sem ÞURFTI að setja inn, að við stofnuðum nýtt albúm líka, Maí 2005 - 02... Frumlegir titlar á þessum albúmum hjá okkur :)

Lofa að fara að blogga eitthvað flótlega, þangað til verðið þið bara að láta myndirnar segja meira en þúsund orð.

þriðjudagur, maí 10, 2005

Nýjar myndir, nýtt albúm

Hæ hæ, við fórum í æðislega helgarferð um síðustu helgi og ætlum að segja ykkur frá því seinna í dag, en í bili verða myndirnar segja meira en þúsund orð. Það er komið nýtt albúm og nýjar myndir þar inn. Endilega kíkið á þær.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Enn eitt ferðalagið!

Já við erum að fara að skella okkur í sumarbústað yfir helgina til vestur Virginíu. Afhverju þangað? Júbb því það er ákkúrat mitt á milli okkar og gengisins í Indiana...a.k.a. Fanney, Högni og fj. Þetta verður bara stutt, eða svona eins og kaninn kallar það "weekend getaway". Við fjölskyldurnar vorum einmitt búin að gæla við þessa hugmynd í einhvern tíma, en svo kom það uppá teninginn að það var annað hvort að skella sér STRAX eða bíða með hitting fram í júlí. Ótrúlegt að heimavinnandi húsmæður skuli ekki getað fundið eina lausa helgi á sama tíma! Það fer nú fljótlega að slá í ár síðan við hittumst síðast svo að þetta er nú orðið löngu tímabært. Þetta leit nú ekkert alltof vel út í byrjun, við lágum öll sem eitt yfir netinu í leit að húsnæði en allt kom fyrir ekki, afdrep fyrir fólk sem hyggðist halla höfði á þessum slóðum var ekki auðfundið. En svo loks á endanum fundum við símanúmer á einhverri heimasíðu sem auglýsti "skúra"(cabins) til leigu. Okkur þótti það nú bara nokkuð gott að hafa yfir höfuð fundið eitthvert húsaskjól, svo við festum á leigu eitt stykki án þess að hugsa okkur tvisvar um. En okkur er gersamlega óljóst hvers okkar bíður, því engar voru myndirnar eða lýsingar á viðkomandi síðu. Svo það er nokkuð ljóst að þetta verður ágætis ævintýri hjá okkur um helgina.

Við værum týnd í Ameríku ef ekki væri fyrir: www.mapquest.com
Drykkur helgarinnar: laufari.
Yfirskrift ferðarinnar: "Hvar er ævintýraþráin?"
Uppgötvun dagsins: Tærnar á mér eru nú ekkert sem verstar.

Góða helgi!

laugardagur, apríl 30, 2005

Nýjar myndir

Nýjar myndir komnar í Apríl almbúmið okkar. Endilega skoðið þær.

föstudagur, apríl 29, 2005

Hillú alle sammen...

Hér eru allir við hestaheilsu og allt gott að frétta. Það er búið að vera svoooo gott veður undanfarna daga að við höfum lítið haft tíma til að hanga yfir blogginu okkar. Ísland hefur mikið komið við sögu hérna hjá okkur í jú-ess-ei-inu...jú þetta virðist koma í bylgjum alltaf hreint. Oprah var með ansi góða kynningu á landi og þjóð í vikunni og mesti tíminn fór í Íslandskynninguna af öllum þjóðunum sem voru í þættinum. Hún reyndi m.a. að hringja í Halldór Ásgrímsson en hann var víst farinn heim kallinn. Svo tók hún skot af brennivíni en þvertók fyrir það að smakka á súrsuðum hrútspungum og úldnum hákarli...ég skil hana vel. Ég hefði nú heldur mætt með eitthvað sem fær ekki hálfan sal af áhorfendum til að kúgast...má ég þá nefna íslenskt skyr og vatn sem dæmi...eitthvað sem vekur áhuga ekki óhug. Svanhildur Valsdottir var hjá henni í sófanum og svaraði spurningum eins og t.d. finnst íslenskum konum amerískar konur feitar? Uhhh...ég held að hún þyrfti að leita ansi vel og lengi til að finna þjóð sem myndi svara því neitandi. Æjj ég ætla ekki að blaðra meira frá kannski að þessi þáttur verði sýndur heima...var samt að heyra það að einn gestanna hafi ekki samþykkt að þátturinn yrði sýndur utan Bandaríkjanna.
Við höfum líka verið obbosslega heppin og fundið íslenska ýsu með reglulegu millibili en síðast ákváðum við að kaupa fram í tímann og frystum nokkur flök...ekki slæmt að eiga íslenska ýsu í frystinum. Svo er búð sem við vorum að uppgötva hérna rétt hjá sem selur íslenskt vatn, það rennur víst út eins og heitar lummur hjá þeim.
Það var nú eitthvað fleira sem kom um Ísland hérna í fjölmiðlunum en ég barasta er búin að gleyma hvað það var...það liggur við að maður sé hætt að kippa sér upp við að heyra Ísland nefnt á nafn hérna.

Meira síðar.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Hann er 7 ára í dag!

Í dag er svo afmæli hjá annari rúsínurjómabollu...

Elsku Baltasar Leví okkar,
hjartanlegar hamingjuóskir með sjö ára afmælið! Vildum óska þess að við gætum verið á klakanum og fagnað með þér...en við höldum bara síðbúið partý hérna í sumar þegar þið komið ;)
Hlökkum rosalega mikið til að fá ykkur í heimsókn og þá verður þú sko knúsaður í bak og fyrir í tilefni dagsins elsku frændi.
Afmæliskveðja...milljón kossar og knús,
Kristófer Leó, Andrea og Elmar.

föstudagur, apríl 22, 2005

Hún á afmæli í dag!

Elsku rúsínurjómabollan okkar hún Fanney er tuttugu og tíu ára í dag!
Innilegar hamingjuóskir með daginn skvís, og mundu (og þá hef ég það eftir þér :) að þetta er kaloríu frír dagur...það allt leyfilegt! Ég hugsa að ég hafi minn dag svoleiðis líka, þér til samlætis ;)

Þúsund kossar og knús,
Andrea, Elmar og Kristófer.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Nýjar myndir, nýtt albúm

Endilega kíkið á myndirnar frá Niagara Falls

Seint skrifa sumir... en skrifa þó :)

Síðasta föstudagskvöld héldum við hjónin uppá afmælið mitt. Við fórum á svona líka æðislegan ítalskan veitingastað í Princeton, La Mezzaluna. Þar dönsuðu þjónarnir hreinlega í kringum okkur og maturinn var með þeim betri sem ég hef smakkað held ég bara. Eftir að hafa setið þar í rúmlega tvo tíma ákváðum við að skella okkur í bíó á mynd sem heitir Fever Pitch...mæli reyndar ekki með bíói eftir hálfa hvítvínsflösku :/

Við vorum svo heppin að verða okkur úti um pössun hjá framhaldsskólanum hérna í Lawrenceville, en þar var íþróttafélag skólans með kvöld sem þeir kalla "parents night out". Auðvitað nýttum við okkur það en það er orðið ansi sjaldgjæft sem við fáum tækifæri til þess að fara tvö út. En það fer nú að öllum líkindum að taka breytingum þar sem við erum nú loksins komin með númer hjá tveimur barnapíum sem vilja passa fyrir okkur...SCORE!

Á laugardaginn var svo vaknað fyrir allar aldir og lagt í hann til Kanada. Ferðin gekk vonum framar og tók "ekki nema" 7 tíma að rúnta þangað. Við vorum nú öll ansi þreytt eftir ferðina svo að við tókum þvi bara rólega... tókum labbitúr um bæinn, kíktum örstutt á Niagara fossana, fengum okkur að borða og fórum svo snemma að sofa.
Við vorum alveg fantalega heppin með hótel, ákváðum að vera á Radison og það var alveg ofaní fossunum svo að við vöknuðum daginn eftir við fossanið...alveg æðislegt!
Sunnudagurinn var svo tekinn snemma og auðvitað byrjað á því að kanna þessa stórfenglegu fossa. Við fórum lyftu niður að botni fossins og svo í ferð á bakvið þá. Kristófer fannst þetta alveg stórmerkilegt og er strax farinn að spyrja hvenær við förum aftur að skoða "Nígra"
fossana. Svo þegar við vorum búin að mynda fossana bókstaflega í bak og fyrir ákváðum við að rúnta yfir í nálægan bæ sem heitir St. Catharines sem er mjög fallegur staður, og þar "tjilluðum" fram á miðjan dag, enda þvílíka bongóblíðan.

Veðrið hjá okkur er búið að vera alveg meiriháttar s.l. viku...í gær fór hitinn í 28 stig!! Þetta þykir nú ekki eðlilegt m.v. árstíma en meðalhiti á þessum árstíma er í kringum 20 stigin. Ég held að ég geti nú með fullri vissu sagt það að það er komið sumar...loksins!

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Nýji nágranninn okkar :)

Kæru vinir og ættingjar, nær og fjær!

Kærar þakkir fyrir allar kveðjurnar, e-kortin,e-mailin, símtölin og gjafirnar sem gjörsamlega ringdu yfir mig á afmælisdaginn. Það er yndislegt til þess að hugsa að ég á ykkur öll að.
Takk fyrir mig :)
Kossar og knús,
Andrea.

mánudagur, apríl 11, 2005

Þetta er helst í fréttum

Við áttum mjög skemmtilega helgi síðast. Fóurm á UNO sem er veitingastaður hérna í nágrenninu og er við hliðina á bíóinu okkar. Okkur til mikillar gleði sáum við Íslenskan fisk á matseðlinum, Ýsu af öllum fiskum. Ég og Kristófer, báðir miklir aðdáendur íslensku ýsunar, fengum okkur báðir sælgætið. Andrea fékk sér eitthvað annað sem ég man ekki lengur hvað er. En a.m.k. þá var ýsan svolítil vonbrigði, þarna var á ferðinni greinilega frosin ýsa, ekki fersk eins og maður er vanur, og Kristófer neitaði að trúa því að þetta væri Ýsa, en eftir að Andrea var búinn að stappa fiskinn með tómatsósu, kannaðast minn aftur við réttinn. Andrea býr alltaf til Ísland úr stöppunni og kenni honum landafræði um Ísland í hvert sinn sem hann borðar ýsuna og þetta var ekki ýsa fyrr en mamma var búin að gera það á UNO líka.

Ella, Baltasar og Maggi eru á leiðinni til okkar, koma 27. Maí og verða til 18. Júní. Verða s.s. yfir afmælin okkar beggja, mitt og Kristófer. Okkur hlakkar öllum til þegar þau koma. Við ætlum að bjóða Baltasar að fara með Kristóferi í Karate, fara í sund á hverjum degi, versla, heimsækja NY og Philadelphia og fl. og fl.

Andrea er búinn að missa ökuskýrteinið sitt, hennar rann út 09/04/05 og fórum við daginn áður að endurnýja. Við vorum búinn að redda pössun fyrir Kristófer, en mamma hans Andrew ætlaði að ná í hann eftir skólann og leyfa honum að fara í heimsókn á meðan við værum þarna, en svona heimsókn til DMV (staðurinn þar sem maður sinni ökuskýrteinisþörfum sínum). Þegar við komum þangað harðneituðu þeir að gefa Andreu nýtt skýrteini þar sem hana vantaði einhvern blaðasnefil í vegabréfið sitt, og þar við sat. Núna, eftir að hafa haft samband við Lögfræðinga BMI, og Íslenska sendiráðið, þá lítur út fyrir að við þurfum að fara til Kanada og til baka til að fá þennan bréfsnefil. Planið er að fara núna um helgina.

Meira seinna.

Nýjar myndir, nýtt albúm

Það eru komnar nýjar myndir í nýja albúmið okkar.

Elsku Andrea okkar á afmæli í dag. Við Kristófer viljum óska henni innilega til hamingju með daginn. Mér skilst að hún sé 23 ára í dag... mér sýnist hún nú frekar vera 20, alltaf jafn falleg og hress. Posted by Hello

mánudagur, apríl 04, 2005

Halló halló....
þið eruð nú alveg ótrúleg...að láta okkur gabba ykkur svona! Þorir svo enginn að viðurkenna að hafa fallið fyrir gabbinu okkar í kommentakerfinu eða gestarullunni? Við vitum nú um nokkuð marga sem gleyptu alveg við þessu...við nefnum engin nöfn en við vitum hver þið eruð ;) Og svo gleymdu sumir að taka með í reikninginn að hér er ekki sama klukka og á Íslandi, héldu því fram að við værum að gjamma við þau í símann á tilteknum tíma :)
En svona fyrst ég er að minnast á tímamismuninn, þá var "daylight savings" um helgina sem gerir það að verkum að nú er "bara" fjögurra klst. mismunur á okkur í stað fimm.

En svo að ég gefi ykkur nú smá útskýringu á þessum fjallatrukk sem situr í bílastæðinu okkar hérna fyrir utan, þá er þetta bílaleigubíll sem við fengum á meðan kagginn okkar er í "Extreme makeover". Já, Emmi var nú heldur betur lukkulegur að fá svona "kalla trukk" á sama verði og lummulegan fjölskyldubíl. Ég á nú ennþá eftir að fá að takí´ann en ég er nú ekkert voða spennt fyrir að keyra þetta flykki...tekur 1 og 1/2 bílastæði og er alveg ótrúleg bensín bytta. Við erum búin að vera á honum í viku núna...en kallinn á verkstæðinu er búin að lofa okkur bílnum á morgun...á morgun...á morgun í 4 daga núna.

Annars er bara allt ágætt að frétta...skruppum til NYC í gær að hitta Svenna(bróðir pabba) og Stellu, en þau eru búin að vera á flakki um Bandaríkin s.l. 2 vikur eða svo og enduðu ferðina í New York. Við vorum ekki komin heim fyrr en rúmlega 22 í gærkvöldi...en við þurftum heldur betur að spretta úr spori til að sleppa inní "níu-núll-þrjú" lestina. Svo að sumir voru ansi þreyttir á því í morgun þegar átti að vakna snemma í skólann.

sunnudagur, apríl 03, 2005

Elsku besti bróðir minn, Helgi Ársæll, var að fermast í dag!
Að því tilefni langar okkur að senda honum innilegar hamingjuóskir með daginn og bjóðum hann velkomin í fullorðinna manna tölu! Vonum að allt hafi gengið að óskum uppáhalds bróðir ;) Sjáumst svo vonandi í sumar.
Kossar og knús frá okkur öllum :o*

föstudagur, apríl 01, 2005


Elmar og vinningurinn. Posted by Hello
Fyrr má nú rota en dauðrota!
Við fengum nú heldur betur óvænta heimsókn í gær... um kl 20 í gærkvöldi var bankað uppá hjá okkur og þar stóð formaður Ford umboðssins í Princeton ásamt fjölda manns frá 101.5 útvarpsstöðinni hérna í NJ. Þá hafði Emmi fyrir lifandi löngu skráð sig í einhvern pott á heimasíðunni þeirra og hafði svo verið dreginn út í beinni útsendingu í gær...sem við reyndar misstum af...hefði verið gaman að heyra hvernig þeir báru nafnið hans fram :/ Svo að Elmar er nú stoltur eigandi af glænýjum Ford F-150 pallbíl. Eins og sjá má á myndunum er þetta svaðalegur monster truck...s.s. bíll sem ég þori ekki fyrir mitt litla líf að keyra! Við erum í svo miklu sjokki hérna...við sem höfum aldrei unnið neitt...ALDREI!! Fleiri myndir af skrímslinu er í nýrri möppu í albúminu okkar.

sunnudagur, mars 27, 2005


Easter Egg Hunt í Pennsylvaniu

Ath. Það eru komnar nýjar "Páskamyndir" í albúmið okkar. Endilega kíkið á þær
Kæru vinir og ættingjar,
gleðilega páska og hafið það sem allra best yfir hátíðarnar!
Páskakveðja,
Elmar, Andrea og Kristófer Leó.

fimmtudagur, mars 24, 2005

Loks þori ég að lýsa því yfir að langþráð vor sé komið :)

"jæja nú er sumarið að koma!"...."jæja það er búið að vera svo hlýtt að það fer ekkert að snjóa héðan af!". Ó mæ, hvað ég hef fengið að kenna á því þegar ég hef gloprað svona yfirlýsingum útúr mér. Daginn eftir er eitt og oftast meira en eitt af eftirfarandi komið...snjór, slydda, kuldi eða geðveikt rok. Svo að ég ákvað það að þegja bara og hætta þessari yfirlýsinga gleði minni og segja ekkert fyrr en ég er orðin nokkuð örugg, og ég er það núna. Það yrði nú undarlegt ef ég fengi snjóstorm í hausinn á morgun fyrir þessa yfirlýsingu :o/ Þá hætti alveg að tala um veðrið...punktur og basta!

Annars er bara massíf spenna í loftinu hérna á heimilinu þessa dagana. Kristófer er orðinn svo spenntur fyrir páskunum að það hálfa væri helmingi meira en nóg. Það er búið að bjóða okkur í veislu á laugardaginn með tilheyrandi eggjatýnslu og páskakanínu. Ég get nú ekki sagt að spennan sé síðri hjá okkur hjónunum, okkur hlakkar voða mikið til að upplifa "ameríska" páska stemmingu.
Veislan verður hjá fjölskyldu vinafólks okkar og verður hún haldin uppí Pensylvaniu. Þetta verður heilsdagsprógramm og endað með hlaðborði...jömmí! Ég bauð mig auðvitað fram til að koma með eitthvað og leggja af mörkum, en ég er ekki enn búin að ákveða hvað það ætti að vera. Ég á bara að koma með það sem ég vil, hefði nú viljað fá aðeins skýrari línur... en ég hlýt að geta hrist eitthvað sniðugt fram úr erminni.

Á sunnudaginn verður svo íslenska lambalærið dregið úr frystinum og græjað uppá íslenskan hátt og auðvitað með tilheyrandi meðlæti. Við eigum meira að segja Malt og Apelsín! Og auðvitað verður íslenskt Nóa egg í eftirrétt. En einhver spurði mig hvort ég ætlaði ekki að taka bara páskaeggið með í páskaboðið og bjóða uppá það...ég held nú síður...My precious :)

laugardagur, mars 19, 2005

Jæjajú og hananú...
það er víst kominn tími á smá pistil frá okkur...ahhh geisp! Ég var nú reyndar búin að segja ritara starfinu lausu hér um daginn...en svo ákvað ég nú að reyna að fá yfir mig "blogg-andann" og komast í gírinn á ný...eitthvað er hann nú af skornum skammti sá andi svo að þetta verður ákaflega andlaust blogg. En nóg af baulinu í henni búkollunni...

Um síðustu helgi fórum við í smá "ród tripp" yfir til Pennsylvaniu með John, Lisu og Andrew. Stefnan var tekin á lítinn skemmtilegan bæ sem ég man ekki hvað heitir. Þessi bær er nú bara með þeim fallegustu sem ég hef séð hérna í Bandaríkjunum. Þar var voru engar risa-ameríku-keðju-verslanir, bara litlar huggulegar handverksbúðir og fataverslanir með evrópsk föt...leið bara eins og ég væri komin í lítinn smábæ á Ítalíu. Svo var bara tekið á móti manni í fyrstu búðinni (lítil ítölsk matvöruverslun) með hvítvínsglasi og pasta og skálað við okkur.

Eftir að hafa labbað um bæinn dáleidd í nokkra tíma settumst við að snæðingi inná stað sem hét 'The Spotted Hog'. Eftir það var svo teknin buna í einni flottustu og stærstu hringekju sem ég hef séð...finnst reyndar spiladósa-hringekju-tónlist alveg hrikalega "creepy". En var nú ekkert á því að auglýsa það hvað ég er skrítin svo að ég skellti mér með í þá ferð.

En þetta var alveg frábær dagur og ekki hægt að segja annað en að allir hafi verið sáttir og þreyttir eftir langan og skemmtilegan dag í "ég man ekki hvað hann heitir" bænum.

Jidúddamía hvað við fengur alveg æðislega sendingu í vikunni...fullur kassi af "íslenskum" gersemum...páskaegg, bland í poka, séð og heyrt, augnbrúnalit, almennilegan ostaskera, eggjaskera...og ýmislegt fleira sem við söknum að heiman.
Innilegar þakkir fyrir okkur elsku Víðir og Bíbí þið eruð yndisleg!

Dagurinn í dag er að mestu búinn að fara í búðaráp...það þurfti að græja heimilisföðurinn fyrir fyrstu fótboltaæfinguna á morgun. Já, Elmar er að fara að spila fótbolta á ný eftir nokkurra ára(tuga?) frí, hann var nú ekki lengi að slá til þegar honum var boðið að koma og spila með "ðe óld bojs". Auðvitað komum við heim með miklu meira en bara fótbolta útbúnað fyrir manninn, en það vill nú oftast fylgja svona búðarápi.

Alltaf tekst mér nú að koma með einhverjar ægilegar langlokur fyrir ykkur að lesa...andi eða ekki andi... greinilegt að það skiptir engu máli þegar kemur að lengd blogganna :)

laugardagur, mars 12, 2005

Síðasta vika...

var eitthvað á þessa leið, síðastliðinn laugardag veikist Kristófer svo mikið og fær svo háan hita að við þurftum að fara með hann á neyðarmóttökuna til að láta skoða hann, eftir að hafa beðið þar í hátt í 5 tíma, kemur í ljós að hann er með streptakokka sýkingu og fylgdi því svona hár hiti, yfir 40 gráður. Hann fékk lyfseðil fyrir pensílini og verkjalyfjum sem átti að lækka hitann. Verkjalyfinn virkuðu svona rosalega vel að hann varð hitalaus ef hann tók þau. Mjög góð lyf hérna í USA.

Kristófer þurfti að vera heima alla vikuna, nema föstudaginn, en þá fór hann frá 8 til 10, en hann átti tíma hjá lækninum kl 10:45. Við erum samt búin að skipta um lækni þar sem að hinn læknirinn okkar talaði varla ensku og ekki var hægt að borga með korti þegar maður fór í heimsókn. Þessi læknastofa samt, sem við fórum á á fóstudaginn var allt annað líf. Mjög snyrtileg og flott stofa, og læknir sem talar virkilega ensku, Dr. Jeffrey Rednor er nýji læknirinn hans. Hinn læknirinn minnti mig allt of mikið á Abu í Simpsons, "Thank you, come again" með miklum indverskum hreim.

Ég fór tvisvar til NY í síðustu viku sem er óvenjulegt þar sem ég hef venjulega bara farið 2 í mánuði hingað til. Síðan er för minni heitið til Conneticut í næstu viku og gæti ég þurft að gista eina nótt þar. Ætla samt að reyna að sleppa við það. Það er a.m.k. mikið að gera í vinnunni hjá mér þessa dagana og gengur mjög vel á þeim endanum.

Við erum loksins að fara með John og Lizu og strákunum þeirra, þeim Andrew (besti vinur Kristófers úr skólanum) og Gregory, út að borða í kvöld. Við æltum að hittast heima hjá þeim kl 3 í dag, eða eftir 2 tíma núna þegar þetta er skrifað. Förinni er heitið... hm.... ég er ekki viss. Þau sögðu okkur bara að mæta til þeirra og síðan myndum við keyra í 45 mín til að fara á einhvern veitingarstað, fá okkur að borða og skoða okkur síðan um eitthvað. Þetta verður spennandi og hlakkar okkur mikið til.

Það leit nú samt út fyrir að við þyrftum að hætta við í annað skiptið þar sem að þegar Andrea var að ná í Kristófer í skólanum á föstudaginn, þá var Liza, mamma Andrews, að ná í hann líka, þar sem hann hafði ælt eitthvað mikið. Eða eins og hann orðaði það "I barfed".

Læt þetta duga í bili og hafið það sem allra best.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Nýjar myndir í Mars safninu.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Jæja þá er komið að mér að "Blogga", ég er búinn að sleppa of vel uppá síðkastið og hefur Andrea algjörlega séð um þetta. Takk fyrir það elskan.

Það er allt á kafi núna hérna í New Jersey og nágrenni, bæði er mikill snjór og mjög kalt. Á sama tíma á síðasta ári var um 25-30 stiga hiti 2. mars, núna... -1. Þetta er alveg hræðilegt fyrir manninn sem flutti til bandaríkjana til að sleppa undan frostinu og að skafa bílinn og keyra um í köldum bíl, og allt annað skemmtilegt sem fylgir vetrinum. En mér líður stundum eins og ég sé kominn aftur til Bolungarvíkur, smábær með vinalegu fólki og hjálpsömum nágrönnum, kalt á veturnar og heitt á sumrin, nema það er hægt að komast til Reykjavíkur (New York) á klukkustund, og Akureyrar (Philadelphia) á 45 mín. Þessu veðri er spáð eitthvað fram á miðjan mars, en maður verður bara að vona að veðurguðirnir brosi til manns á næstu dögum og fari að koma með vorið sem við erum meira en lítið tilbúin fyrir. En við nýtum okkur nú að snjórinn sé hérna, ég og Kristófer bjuggum til, þó ég segi sjálfur frá, flottasta snjókarl í New Jersey í gær og var ekki hægt að draga Kristófer aftur inn eftir að við vorum komnir út. Hann er ánægðastur í snjókasti eða að byggja snjókalla.

Þeir sem þekkja Sopranos vita að þar er fjallaðu um mafíuan í New Jersey, or er Tony Soprano aðalmaðurinn á ferðinni þar. Ég minnist á Sopranos til að setja upp það sem kemur á eftir.... fyrir viku síðan gerði FBI innrás og handtók 11 manns fyrir stórvægilegt spillingarmál, fjárkúgun og mútur. Var rannsókn málsins ekki lokið en 1 saksóknari "missti" of mikið út úr sér við "vini" sína og varð að handtaka skarann of fljótt. Mér skilst að hver aðili í málinu eigi yfir höfði sér miklar fjársektir og einhvern tíma í fangelsi, lítil refsing fyrir svona glæpi finnst mér, en það er aðalatriðið... innárásin sem var gerð, var ekki á nektarstað hérna í New Jersey til að handtaka einhverja mafíósa... nei nei, heldur var ráðist inná heimili hvers aðila fyrir sig og handteknir um miðja nótt eftirfarnir aðilar, 3 bæjarstjórar og 8 meðlimir í bæjar- og sýslustjórnum. Allt pólitíkusar!!! Hm.... kannski að þessi Bolungarvíkur samlíking er ekki svo góð ???

Mér skilst það á fréttaflutningi hérna í útvarpi New Jerey-inga að á síðustu 2 árum hafa 77, takið eftir, 77!!! pólitíkusar hafa verið handteknir á síðustu 2 árum fyrir ýmsar syndir, þar á meðal fjárkúgun, mútuþægni og aðrar álíka skemmtileg áhugamál.

Aðrar fréttir að léttari toga, við erum að fara út að borða næsta laugardag með nýjum vinum okkar, þeim John, Lisu, Andrew og litla bróður hanns. Andrew er besti vinur Kristófers úr skólanum og höfum við farið í heimsókn til þeirra einu sinni áður og okkur kom öllum vel saman og ákváðum að fara að borða saman núna á laugardaginn. Það verður örugglega mjög gaman, veit bara ekkert hvert við erum að fara, en John og Lisa hafa búið á þessu svæði alla sína ævi og þekkja staði sem eru víst alveg mjög góðir. þetta verður spennandi og verður myndavélin með í för til að dyggir lesendur geti séð nýju vini okkar.

já... ég var síðan að búa til nýtt safn, myndasafn það er að segja, fyrir Mars og eru komnar nokkrar myndir þar inn, endilega kíkið þangað inn.

Ps. Til að reyna að lífga gestabókina okkar og Commenta kerfið við, höfum við ákveðið að efna til smá keppnis, sá aðili sem skilur eftir flottustu skilaboð í öðru hvoru kerfinu fær glæsileg verðlaun. ÓKEYPIS GISTING HJÁ OKKUR !!!! (nema í Ágúst, en þá verður allt fullt hérna) Dómarar eru ég, Andrea og Kristófer.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Flashback...
nú er komið rúmt ár síðan Janet Jackson beraði pepperóníið á svo minnisverðan hátt í hálfleik Superbowl. Þetta atvik hefur haft ýmsar afleiðingar í för með sér...eins og t.d. í síðasta Superbowl var Paul McCartney látinn sjá um að hrista uppí lýðnum í hléi...hann stóð sig nú alveg ágætlega þó hann sé vel veðraður kallinn. S.s. engir ungir og fallegir ofurhugar fengnir til að skemmta, og gætu hugsanlega tekið uppá því að bera sig fyrir alþjóð.

Við familían misstum af Superbowlinu í fyrra, minnir að við höfum bara verið í miðjum flutningum á þessum tíma. En ég man vel að þetta var í ÖLLUM blöðum og fréttum í margar vikur á eftir og alltaf var þetta sýnt alveg þræl "edit-að" svo að við vissum aldrei nákvæmlega útaf hverju allur þessi æsingur var. Sjáið hvað Janet gerði!!...Svo sá maður ekki neitt! Fór á endanum inná MBL-ið góða og sá myndina ó-skyggða...that´s it?? Hugsaði ég.

Það er ekki langt síðan ákveðið var að sekta FOX sjónvarpsstöðina um einhverja fáránlega summu með möööörgum núllum fyrir að hafa sent þetta út. Svo að núna er flest sem er í beinni....í raun ekki í beinni, því þeir vilja tryggja það að svona lagað gerist ekki aftur og því er nokkurra sekúntna "delay" á flestu sem þeir senda út....hvað kallast það þá? Almost live? Óskarsverðlaunaafhendingin um næstu helgi verður t.d. með 5 sekúntna "delay" svo eru klippikallar reddí með skærin til að klippa út ef eitthvað ósæmandi er sagt eða gert...hvað ef einhver segir eða gerir eitthvað í meira en 5 sek? Kannski þeir bjóði fyrirtækjum svona áhættu auglýsingarpakka...kostar skítt...og birtist bara ef einhver ákveður að skandalisera? Hei, jú never nó :)

Kveðja,
Andrea sem ætlar að glápa á Óskarinn um helgina... í næstum beinni ;)

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Ég hefði nú átt að sleppa því að tjá mig eitthvað um veðrið hérna í vikunni, haldiði að það sé ekki búið að spá komu "Blizzards" hins síðari í kvöld. Ekki á ég nú von á miklum hasar, amk. ekki í veðrinu, sé hinsvegar fyrir mér örtröðina í búðinni, allir að byrgja sig upp af vistum....því það er náttúrulega að koma heimsendir!

laugardagur, febrúar 19, 2005

Nýjar myndir í febrúar albúminu

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Það er búin að vera svona líka bongó blíða hérna í dag...14 stig! Sól og meira að segja það heitt að yfirhöfnum var gefið frí...jasso! Vona bara að þetta sé smjörþefur af því sem koma skal á næstu vikum, nenni ekki að fá meiri snjó.

Jæja, þá erum við hjónin loks búin að koma okkur af stað í ræktina aftur...mikið var! Ég var nú ekkert á leiðinni að fara í morgun, hélt að ef ég hunsaði það myndi ég komast upp með enn eitt skrópið... en sá draumur entist nú ekki lengi...Fannsa hringdi í mig og messaði yfir mér með fögur fyrirheit um glæstan bíkíní kropp og mini-pilsa glatt sumar...hahaha! Ég lofaði henni því að ég myndi drífa mig um leið og ég leggði á... Auðvitað gat Emmi ekkert gefið mér eftir, svo að hann skelli sér með. Gúddness hvað fyrstu 10 mínúturnar voru lengi að líða á brettinu...en svo fór þetta að lagast og á endanum langaði mig bara ekkert að hætta. Auðvitað velti maður sér uppúr því eftir á afhverju maður var ekki fyrir löngu búin að koma sér af stað aftur. Svo að nú, eins og svo oft áður, heitir maður sjálfum sér því að taka sér ekki svona hlé aftur...það verður fróðlegt að sjá hvað það loforð endist lengi í þetta skiptið? Svo að nú er ískápurinn alveg strípaður af öllu sem inniheldur sykur, fitu eða einhverju fitubolluvænu....nú er hann troðinn af hlutum sem innihalda eitthvað af eftirfarandi orðum í heiti þess, light...diet...0 carbs... fit...-free...!
S.s. engar freistingar að finna á þessu heimili.

"Deitið" okkur um helgina gekk bara vel og þeim vinunum kom mjög vel saman. Lisa og John (foreldrar Andrew) eru mjög fín og við vorum hjá þeim að spjalla um heima og geima í tæpa 3 tíma. Þau vilja endilega hittast aftur, fara út að borða saman eða eitthvað skemmtilegt. Ætli við bjóðum þeim ekki öllum í kaffi fljótlega svona til að sýna þeim "aðstæður", þá gætu þeir jafnvel farið að hittast meira eftir skóla.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Gleðilegan Valentínusardag!

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Nýjar Myndir komnar inn í Febrúar Albúmið...

laugardagur, febrúar 12, 2005

Ef þið viljið læra nokkur ný spor fyrir ballið í kvöld...kíkið þá á þetta !!!

föstudagur, febrúar 11, 2005

Vúhúú...Kristófer er komin með appelsínugula beltið í karate! Hann stóð sig mjög vel í kata prófinu og náði því að fá nýtt belti, sem hann svo fékk á miðvikudag. Talandi um það...við bættum inn linknum á karate skólann hans Kristófers en þar er hægt að sjá honum bregða fyrir á einhverjum myndum.

Síðasta laugardag kom Brynjar við hérna og var hjá okkur fram á miðvikudag, en hann kom við hérna á leiðinni heim frá Seattle. En Brynjar er, eins og Gummi, æskufélagi Elmars frá því í Bolungarvík. Það er alltaf gaman að fá gesti svo að við vonum að fleiri vinir og ættingjar fari nú að reka inn nefið hérna hjá okkur.

Á mánudag er svo Valentínusardagurinn. Kristófer verður sennilega á kafi í korta-skrifum alla helgina en það þarf að skrifa kort til allra bekkjarfélaganna og kennaranna, svo verðum við að finna eitthvað sætt handa kennurunum líka...konfekt eða bangsa eða eitthvað á þá leið.

Um helgina er svo búið að panta "play-date" með Andrew bekkjarfélaga Kristófers en þeir eru eins og samlokur alltaf hreint, bestu vinir. Við ætlum að hitta hann og foreldrana á einhverjum leikvelli hérna og leyfa þeim að leika sér saman. Maður er nú algjör gúrka í þessu, veit ekkert hvernig þetta virkar hérna og hvenær þeir fá svo að koma í heimsókn til hvors annars. En þetta er náttúrulega alls ekki eins og gengur og gerist á Íslandi þar sem krakkar hlaupa bara á milli húsa og spyrja eftir vinum sínum. Hérna hringjast foreldrarnir á og panta "play-date".

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Nýjar myndir komnar inn í Febrúar albúmið.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Bolla, bolla, bolla....!

laugardagur, febrúar 05, 2005

Helgarsportið...

Kristófer fór á sínu fyrstu og jafnframt síðustu æfingu með sundfélaginu 'Stingrays' í gær...hmm. Já, fyrir utan að þetta voru allt mikið eldri krakkar, stóð okkur ekki alveg á sama að sjá hann svamla þarna innan um 50 krakka og einn þjálfari að reyna að hafa hemil á hersingunni.
En við erum búin að komast að því að það sé mun betri sundnámskeið hjá YMCA (du-ruddu-du...fer ósjálfrátt að humma lagið í hvert skipti sem þetta félag er nefnt) en þar eru mun minni hópar og þeir eru aldursskiptir.

Annars er allt að verða vitlaust hérna, Philadelphia Eagles (lið í Ameríska fótboltanum,NFL) mætir New England Patriots í Superbowl á morgun, en það er, að ég best veit, stærsti íþróttaviðburður ársins hérna og það lið sem vinnur verður "heimsmeistari" Bandaríkjanna. Þó svo að liðið sé frá Philadelphia, halda allir hérna í Jersey með því, því að það er ekkert lið í NFL héðan...
mjög hentugt því þá eru líkurnar meiri, því við getur líka haldið með NY Giants...ég tek það fram að núna er ég bara að tala fyrir mig :)
Patriots unnu superbowl í fyrra, en mér skilst að Eagles hafi aldrei unnið þessa keppni en einu sinni áður komist í Superbowl og þá tapað.

Ella systir var svo indæl að minna mig á að á mánudaginn er bolludagur og að ég gæti nálgast bollu-uppskriftir í Fréttablaðinu á netinu (föstud. 4 feb, bls. 18, fyrir þá sem vantar uppskrift). Eins gott að hún gerði það því að ég var ekkert að spá í því frekar en fyrri daginn. Ég mundi eftir honum tveim dögum of seint á síðasta ári og var ansi skúffuð yfir því, það er ekkert gaman að borða bollur á venjulegum miðvikudegi !


Góða helgi og GO EAGLES!!!



fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Hillú...
Um síðustu helgi fórum við á "kvöld-vökuna" í skólanum hans Kristófers og skemmtum okkur vel. Þar var dansað, sungið, föndrað og étið. Kristófer bjó til Íslenska fánann og gekk stoltur með á hann milli borðanna og tilkynnti manni og öðrum að þetta væri Íslenski fáninn og að hann væri frá Íslandi. Þá kom það í ljós að nokkrir áttu vin eða ættingja í hernum, og þeir hefðu einhverntíman verið staðsettir á vellinum í Keflavík. Og auðvitað fengum við að heyra allt um það, hvað Ísland væri frábært, lopapeysurnar hlýjar og þar fram eftir götunum.

Á laugardeginum skruppum við í þotu/sleðaleit, eftir mikla leit fundum við þessa fínu þotu og ákváðum að reynslukeyra hana í næstu brekku....hmmm...hljómar einfalt...en ekki hér, ó nei. Við keyrðum Lawrenceville þvert og endilangt og komumst að því að hér eru engar brekkur...ekki svo mikið sem aflíðandi halli :o(

Svekkt ákváðum við að gefast bara upp og koma okkur heim. En viti menn, á leiðinni inní hverfið tökum við eftir þessari fínu brekku hérna rétt hjá okkur. Ok...ok...þetta er enginn Arnahóll eða laut, en nokkuð góð buna svona til að prófa nýju fínu þotuna. Þetta var alveg til að toppa daginn fyrir Kristófer, hann skemmti sér konunglega:

"...eina ferð enn...bara eina í viðbót...kommon síðasta ferðin núna..."

Í gær var svo karate próf hjá Kristófer, í Kata æfingum. Sensei sagði að hann hefði staðið sig mjög vel og að í næstu viku ætti hann að fá appelsínugult belti.
Næsta föstudag byrjar hann svo á sundæfingum með sundfélagi sem heitir 'Stingrays' og eru æfingarnar tvisvar í viku, og í apríl byrjar hann líka á sundnámskeiði sem við skráðum hann í fyrir nokkru. Það er eins gott að halda sundkunnáttunni við því hér er ekkert skólasund.

Í gær fengum við svo miða heim um að það væri verið að endurskipuleggja skiptingu hverfa á hvern skóla hérna í Lawrenceville og kom það í ljós að Kristófer lendir því miður í því að þurfa skipta um skóla næsta vetur. Hann á því að færast yfir í skóla sem heitir Benjamin Franklin Elementary School sem er í næstu götu við Eldridge Park. Ég veit nú ekki mikið um þann skóla en við fáum að skoða hann í næstu viku á kynningarkvöldi sem haldið verður þar.

Að endingu langar mig að minna á gestabókina góðu og comment eru líka vel þegin...Essý takk fyrir að vera dugleg að commenta hjá okkur ;o)

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Jæja þá er röðin komin að "my little dumpling"!
Hún Rúna Björk, yngsta systir mín, á afmæli í dag...
innilegar hamingjuóskir með 15 ára afmælið skvís!
Við söknum þín og vonum að þú komir fljótlega til okkar í heimsókn.

Milljón kossar og kæfi-knús,
Adda, Emmi og Kristófer.


laugardagur, janúar 29, 2005

Ella systir á afmæli í dag!
Okkur langar að senda henni innilegar hamingjuóskir með daginn og vonum að hún hafi það sem allra best í dag ... ekki borða yfir þig af Betty ;o)
Milljón kossar og knús,
Adda, Emmi og Kristófer Leó.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Brrrrrrrr!

Það er svoddan skítakuldi hérna núna, -11C en sökum rakans hér reikast það sem -19C. Svo að kuldaskræfan á heimilinu (ég) heldur sig mest innandyra þessa dagana. Strákarnir hafa verið að fara út í snjóinn að leika sér og ekki enst mikið meira en hálftíma í senn. Annars á nú að fara að hlýna á komandi dögum svo að húsfrúin ætti að geta farið aðeins út til að fá roða í kinnarnar. Ef að snjórinn verður enn um helgina stefnum við á að splæsa á eins og eitt stykki þotu fyrir drenginn og fara í brekku leit. Það eru amk seldar þotur í búðunum hérna, svo það hlýtur að vera einhver smá halli hérna einhverstaðar.

Framrúðan í bílnum okkar sprakk í nótt útaf frosthörkunum, svo að eðalkerran okkar hefur á skömmum tíma breyst í mjög svo vanræktan skrjóð. En það þýðir víst ekkert að rúnta um með rúðu á tæpasta vaði svo að það kemur hingað handlaginn gúndi í fyrramálið og skiptir um rúðu.

Annars var okkur berst fregnir þess efnis að Fjóla og Gunnar kæmu líklega í heimsókn í sumar...vúbbí! Já, þau eru að spá í að skella sér með Vidda og Bibbu seinnipart sumars. Hey...það er ekki hægt að hætta við héðan af fyrst ég er búin að lýsa þessu yfir hérna á netinu...nanananah ;o)

Annað kvöld verður kvöldverður í skólanum á vegum foreldrafélagsins. Það verður áreiðanlega mjög gaman, það verður matur frá 5 þjóðum í boði, USA, Ítalíu, Úkraínu, Kína og Finnlandi. Iss, ég hefði nú verið til í að mæta með svið, hrútspunga og hákarl ef ég hefði vitað af þessu fyrr. Það hefði verið "Kodak móment" að sjá kanann éta þann íslenska eðalmat :oþ

Ég vill benda ykkur á viðtalið við Keifer Sutherland hjá David Letterman sem er hérna fyrir neðan ef þið eruð ekki búin að kíkja á það enn...mjög fyndið!

Skjáumst síðar!

sunnudagur, janúar 23, 2005

Hæ hó...
Gleðilegt nýtt ár...betra er seint en aldrei!
Bloggið er búið að vera í dágóðu fríi undanfarið sökum leti ritara hennar. En nú erum við komin af stað aftur og vonum að fólk hafi ekki gefið síðuna uppá bátinn.
Við höfum haft gesti hérna hjá okkur síðastliðna 10 daga, Gummi Björns og Íris kærasta hans voru hérna. Það var auðvitað mikið verslað því dollarinn er svo hagstæður. Þau skoðuðu líka New York og Philadelphia, þau náðu að gera heilann helling á þessum stutta tíma.
Svo stefnir annar gamall æskuvinur Emma, Brynjar, á að koma hingað um mánaðarmótin í stutt stopp.
Hvernig er þetta með mínar vinkonur...á ekkert að fara að láta sjá sig?!

Kristófer var lasinn í síðustu viku, eða í 4 daga. Einhver leiðinda flensa sennilega, hiti, hósti og allur sá pakki. En hann er svodann orkubolti að það þarf mikið til, svo á honum sjáist og hann var fljótur að hrista þetta af sér.

Nú er loksins kominn vetur hjá okkur, eða eins og æsifréttamennirnir kalla það...BLIZZARD 2005! Það snjóaði í allan gærdag, svona ca 20-25 cm. Það er ekkert rok og snjórinn fellur eins og dúnn frá himnum. Fólk er að rífa út vistir í búðum svo mætti halda að heimurinn væri að farast. Aðeins stóru matvöruverslanirnar eru opnar, en mollin og litlu búðirnar hérna í kring eru lokaðar sökum veðurs! Finnst þetta nú dáldið skondið, því þetta er nú ekkert miðað við það sem maður hefur upplifað á Íslandi í gegnum tíðina.

Kveðja úr "snjóstorminum",
NJ-Gengið.