miðvikudagur, desember 29, 2004

Íslensk jól í Bandaríkjunum...
Jólin eru búin að vera alveg yndisleg hjá okkur, eintóm róleg- og huggulegheit. Jólin voru svona líka Íslensk hjá okkur, hamborgarhryggur, maltið og appelsínið, meðlæti og að sjálfsögðu íslenskt sælgæti og konfekt. Get svo svarið það að maður er komin með snert af konfekt-eitrun því það var sko ekkert farið rólega í það. Svo tengdum við tölvuna við græjurnar svo að hér hljómaði íslensk jólatónlist yfir öll jólin.

Það var alveg ótrúlegt magn af pökkum og kortum sem streymdu hingað inn síðustu vikuna fyrir jól og okkur langar að koma á framfæri þökkum fyrir það allt, hvert kort og kveðja var okkur mikils virði...kossar og knús!

Á annan í jólum skelltum við okkur svo á alveg æðislega sýningu sem heitir "Disney on Ice: Finding Nemo". Þvílík flott sýning og greinilega ekkert til sparað við sviðsmyndir og búninga. Það eru nokkrar myndir frá sýningunni í desember albúminu svo þið getið gert ykkur hugmynd um hvað ég er að tala. Kristófer lét þau orð falla að þetta væri það skemmtilegasta sem hann hefði gert síðan hann kom til Bandaríkjanna! Við vorum ekkert að minnast á alla skemmtigarðana, söfnin og ferðalögin sem við höfum farið í síðan við komum hingað :)
Í gær fórum við Kristófer í mollið til að nýta gjafabréf sem hann fékk í jólagjöf. Það var í búð sem heitir "Build-A-Bear Workshop" Þar fékk hann að velja sér bangsa sem hann síðan fór með í sérstaka vél sem fyllti bangsann af fylli (?) og síðan var sett í hann hjarta með viðhöfn, hann baðaður (í lofti) og feldurinn kembdur og svo var tekinn langur tími í að velja á hann dress en það var ekkert minna en Timberland skór, gallabuxur með keðju og flauelisúlpa. Hélt nú að hann væri vaxin uppúr svona bangsa stússi en það var heldur betur vitleysa í mér, hann fílaði þetta í botn. Svo þegar búið var að dressa bansann upp var sest við tölvu, bangsinn skírður og prentað út "fæðingarskíteini" og Kristófer var alveg með það á hreinu að hann ætti að heita Nicholas.

mánudagur, desember 27, 2004

Nýjar myndir komnar inn í Desember almbúmið okkar í "Myndirnar Okkar". Endilega skoðið og skemmtið ykkur vel.

föstudagur, desember 24, 2004

Kæru vinir og ættingjar, nær og fjær.

Okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Innilegar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á síðuna og fallegar kveðjur sem þið hafið skilið eftir í gestabókinni.

Með kærri jólakveðju,
Elmar, Andrea og Kristófer Leó.


þriðjudagur, desember 21, 2004

3 dagar til jóla...getur það verið?!?!?

Hnotubrjóturinn var alveg frábær sýning. Kristófer sat alveg stjarfur allan tímann, greinilegt að við þurfum að fara oftar í leikhús því honum fannst svo gaman.
Annars var nú heldur betur sveifla niður á við í hitastigi í gær...fór leeeengst niður fyrir frostmark eða í -22 gráður þegar kaldast var. Get svo svarið það að ég hélt að nefbroddurinn myndi detta af, ég fann ekki fyrir honum! En það er nú að hlýna á næstu dögum, sól og 10-15 stiga hiti...hver segir svo að veðrið sé sveiflukennt á Íslandi?
Svo að ósk fjölskyldunnar um jólasnjó mun að öllum líkindur ekki rætast þetta árið :o(
Jólatréð er komið upp í stofunni í öllu sínu veldi, jiii hvað það gerir allt jóló! Ákváðum á Laugardag að skella því bara upp. Vorum nú reyndar alveg ákveðin í að fá okkur ekta-tré þetta árið en aftur ákváðum við að gefa gerfitrénu sjéns..."ef það er glatað förum við bara og kaupum ekta..ókei?"Svo er það bara alveg stórfínt og allir ánægðir með það.
Þetta er nú ekki beint það sem Kristófer finnst skemmtilegast að gera...eitthvað svona dúllerí...raða og hengja milljón kúlum svona í rólegheitunum, en hann gerði þetta "í einum grænum" með okkur og rak okkur áfram þvi við vorum svo alltof róleg og afkastalítil. "Hérna pabbi...taktu þennan enda...og svo heyp ég með hinn endann í hringi í kringum tréð!" Já og svo henti hann bara kúlunum inná milli, alltof mikið vesen að hengja hverja fyrir sig.
jólapælingar...
Nú er mikið í umræðunni hérna í Ameríkunni að jólin, sem slík, séu að hverfa. Já, hér er fólk af svo mörgum trúum og það má engann móðga. Afgreiðslufólki er ráðið frá því að segja "Merry Christmas" því það gæti sært fólk sem er ekki Kristið, þess í stað segja þau "Happy Holidays" og heyri sjaldan minnst á "Christmas Tree" en aftur á móti er talað um "Holiday Tree"...
Ég hef líka lesið um það í blöðunum að í mörgum almennings skólum sé búið að banna mikið af jólalögum eða þeim hefur verið breytt svo það komi ekki illa við neinn, eins og t.d. lagið "We Wish you a Merry Christmas" hefur verið sungið "We Wish you a Swinging Holiday" og lagið um hreindýrið Rúdolf hefur algjörlega verið bannað í mörgum almennings skólum, því í því er minnst á jóladag. Í einum skóla var meira að segja gengið það langt að banna "candy canes" (rauðu og hvítu sleikjó stafina) og rauðar og grænar servíettur! Og í grunnskóla í Washington var á síðustu stundu hætt við sýningu á "Christmas Carol" (þið vitið... um Scrooge) því að ein sögupersónan segir "God bless us, everyone".

Ég gæti haldið endalaust áfram að telja upp svipuð dæmi og þá sérstaklega sem eiga sér stað í almenninsskólum hér í landi.
Kristófer hefur til dæmis lært heilmikið um hina og þessa siði og hátíðir gyðinga í skólanum, t.d. Hanukkah og Kwanzaa og allt í góðu með það...en svo kemur að jólunum og þá eru allt vaðandi í boðum og bönnum, engin jólalög spiluð í skólastofum, má ekki senda bekkjarfélögum jólakort, ekkert jólaföndur, ekkert jólaball og jólafrí heitir ekki einusinni jólafrí heldur "Winter Break".

Finnst frekar leiðinlegt, hans vegna, að fá ekki að upplifa jólatímann eins og ég og Emmi ólumst upp við á Íslandi. Þar eru litlu-jólin, dans í kringum jólatré, sungið, föndrað og sprellað síðustu vikuna í skólanum fyrir jól, krakkar fá ný jólaföt og mæta í sínu fínasta pússi á jólaball.
Það eru þá aðalega við foreldrarnir sem veltum okkur uppúr þessu, því hann hefur aldrei upplifað þessar hefðir á Íslandi, amk. er orðið það langt síðan hann var á leikskóla þar að hann man ekkert eftir því. Svo að hann er auðvitað, jú,bara sáttur við sitt.
En það þýðir ekkert að vera að svekkja sig yfir þessu, við höfum nú náð að gera gott úr þessu hérna á heimilinu. Spilað jólamúsik, bakað, föndrað og skreytt allt hátt og lágt.
En læt þessa pælingu mína duga í bili og óska öllum "Merry what ever" :o)

sunnudagur, desember 19, 2004

Takk fyrir gott boð Ella mín, en við fundum Magnetix á E-Bay og það ætti vonandi að koma til okkar í tæka tíð. Reyndar er hægt að finna flest á E-Bay sem er uppselt í búðunum, kannski ekki skrítið að það sé uppselt í búðunum og svo selja þeir þetta á tvöföldu búðarverði þar. Veit einmitt að Fannsa lenti í þessu líka, fann síðan gjöfina á E-Bay á margföldu verði.
En við familían erum búin að ákveða hvað gert verður á annan í jólum, langaði að gera eitthvað "merkilegt" í tilefni hátíðanna. Við erum að fara á "Finding Nemo: Disney on Ice" en þetta er einhverskonar skautasýning/leikrit á svelli...nema hvað. En þessi sýning fær góða dóma og á að vera mjög glæsileg í alla staði.
Við erum orðin eitthvað voða menningarleg þessa dagana, það er bara leikhús og viðburðir á hverri helgi. Um að gera að gera þennan tíma ársins eftirminnilegan, svona eins og hægt er án allra ættingja.
Jæja, við erum að fara á Hnotubrjótinn kl. 14, það verður örugglega gaman og ekki vantar spennuna hjá honum Kristófer, enda man ég ekki til þess að hann hafi nokkru sinni farið í leikhús :o/ En það er aldrei of seint að byrja. Við látum ykkur vita hvernig var.

Kveðja jólasveinarnir í NJ.

föstudagur, desember 17, 2004

Vika til jóla!
Það vantar sko ekki jólafílinginn á þessu heimili!
Erum meira að segja að spá í að brjóta gömlu góðu Þorláksmssu hefðina og skella jólatrénu bara upp um helgina. Held að við séum eina familían hérna í hverfinu sem á eftir að setja það upp! En flestir settu jólatrén upp yfir þakkargjörðarhátíðina sem var í lok nóvember! En okkur þykir það nú einum of snemmt, ætli maður sé ekki komin með þokkalega leið á því þegar jólin loksins koma?
Það er alveg með ólíkindum hvað fólk hérna skreytir hjá sér...og maður hélt að þetta væri nú pínu ýkt í amerísku jólamyndunum en þetta er nákvæmlega svoleiðis. Það er engu líkara en að nágrannarnir hérna séu í einhverri samkeppni um að vera sem mest áberandi. Fyrir utan það að mörg hús séu nánast þakin í seríum (og oftar en ekki blikkandi) en fólk með lóðirnar sínar þaktar í upplýstum jólafígúrum af öllum stærðum og gerðum. Hreindýr, jólasveinar, sleðar, snjókarlar...ýmist uppblásið,blikkandi og/eða á hreyfingu.
Við tókum smá rúnt hérna um nágrennið í gærkvöldi, við vorum alveg dáleidd, held að ég hafi aldrei á ævinni séð svona mikið af jólaljósum og skreytingum.
Á sunnudaginn erum við svo að fara í leikhús að sjá Hnetubrjótinn, það verður áreiðanlega mjög gaman en þetta er í fyrsta skipti sem við förum í leikhús hérna. Þetta verður svona spes barnasýning, s.s. búið að ritskoða og útfæra fyrir börnin :)

miðvikudagur, desember 15, 2004

9 dagar til jóla!
Þá er allt loks komið á fullt í jólaundirbúningnum á þessu heimili, kannski ekki seinna vænna. Ég náði að klára að gera hvorki meira né minna en 3 sortir fyrir hádegi í dag, kókostoppa, lakkrístoppa og snickers smákökur. Eitthvað gengur mér nú illa að halda strákunum frá kökuboxunum, ætli þeir klári þetta ekki fyrir helgi! Í kvöld ætla ég svo að skella í brúnkökuna góðu (þessi m. hvíta kreminu), vonum bara að hún lukkist betur en síðustu jól en þá var eitthvað "funky" aukabragð en nú er ég komin með íslensku kryddin í þetta og það ætti að gera herslu muninn.
Jólapartíið í NYC á laugardaginn var alveg ágætt. Eftir að hafa villst og týnst og fundist aftur í New York, fundum við loks hótelið sem við áttum að vera á...það er ekkert grín að keyra þarna um, það er bara "survival of the fittest". En hótelið var í Queens og við þurftum að fara í gegnum göng þangað, en það var ekki fyrr en í þriðju ferðinni þar í gegn sem við náðum að taka réttu beygjuna að hótelinu...og hótelið er svo önnur saga sem ég læt ekkert fylgja hér.
Við vorum nú reyndar búin að búast við því að þetta yrði miklu "formlegra" en í raun var. Sem betur fer fór ég ekki í kjól eins og ég var mikið búin að velta fyrir mér, en þá hefði ég verið ein um það. Staðurinn sem við hittumst á var frekar "hip", salurinn var hvítur í hólf og gólf, og hvítir leðursófar í stíl.
Reyndar voru margir svekktir með "matinn" sem boðið var uppá. Við vorum víst ekki þau einu sem bjuggumst við dekkuðum borðum, hlöðnum kræsingum en það var ekkert slíkt. Það var reyndar ein skvísa sem valsaði þarna um á brjóstahaldaranum með bakka af pinnamat og bauð manni og öðrum, en ekkert til að seðja hungrið hjá okkur hjónunum sem gleymdu að borða í öllu stressinu yfir daginn.
Eftir þetta var svo farið í eftir partý hjá Larry eiganda BMI. Þar entist fólk mislengi því hungrið var farið að segja til sín hjá allmörgum. Við mælum amk. ekki með því að drekka á fastandi maga því við vorum algjörir haugar daginn eftir. En þetta var samt sem áður mjög skemmtilegt, frábært fólk sem við kynntumst og gaman að komast aðeins út á lífið hérna.
Á meðan var Kristófer í góðu yfirlæti hjá Gulla og Önnu, þau voru með hann í NYC á laugardeginum og brunuðu svo hingað um kvöldið og gistu um nóttina...enn og aftur takk fyrir pössunina!!!
Svo fengum við bréf í dag frá hjónum sem við kynntumst á laugardaginn og þau vilja endilega bjóða okkur í heimsókn til sín yfir áramótin. Þau búa í Conneticut fylki en ég býst nú ekki við þvi að við förum því bíllinn er enn krambúleraður og því ekki beinlínis ákjósanlegur í lengri ferðir.
Við erum búin að vera í þvílíkum vandræðum í sambandi við jólagjöf handa Kristófer, hann er búið að langa í eitthvað sem heitir Magnetix síðan einhverntíman í sumar og alltaf höfum við verið jafn snjöll að svara honum með því að segja "já, kannski færðu svona í jólagjöf" en þetta hefur verið til í bunkum í öllum leikfangaverslunum og stærri búðum. Svo förum við foreldrarnir í búð í dag alveg með á hreinu hvað á að kaupa en fáum svo bara frá afgreiðslufólkinu "Sorry, I think it´s sold out EVERYWHERE!!" Dísús, aldrei hefði ég trúað að eitthvað myndi seljast svona upp, sérstaklega þar sem að þetta var til í stöflum fyrir ekki meira en viku síðan! En þetta verður nú svosem í lagi því við vorum nú búin að versla ýmislegt annað handa honum, kannski að þetta sé fáanlegt á E-Bay?!

Að endingu langar okkur að senda honum Helga bróður ofur knús og kossa, því á morgun verður hann hvorki meira né minna en 14 ára drengurinn! Elsku brósi hafðu það sem allra best og njóttu dagsins í botn...we love ya dude!

miðvikudagur, desember 08, 2004


Kristófer tannlaus og sæll með jólakúluna sína. Posted by Hello
Haldiði að það sé ekki bara hitabylgja hérna núna...já 15 stiga hiti í desember....habbara næstum Flórída fílingur í okkur hérna...ekki slæmt miðað við stað og stund. Við höldum nú samt enn í vonina um að fá einhvern jólasnjó...en veðurfréttamennirnir segjast nú ekki sjá neinn snjó í kortunum á næstunni en það getur nú allt breyst.
Annars vorum við að koma af jólatónleikum í skólanum hans Kristófer, það var mjög gaman og mikil jólastemming...enda voru börnin beðin um að syngja "Frosty the snowman" tvisvar til að svala jóla-hungruðum foreldrunum. Þetta verður svo sýnt í "Ríkissjónvarpinu" hérna í NJ og þá tökum við það að sjálfsögðu upp.
Það var voða drama hérna í gær...jájá...greyið Kristófer var á leiðinni inn þegar hann missir uppáhalds jóla snjókúluna sína í götuna og hún smallaðist í 1000 mola. Hann og þessi umrædda kúla eru búin að vera óaðskiljanleg síðan ég tók hana upp með jólaskrautinu, hún fór með í bað, að sofa, í skólann, í búðina og alltaf passaði hann voðalega vel uppá hana. En hann fékk þessa "snjókúlu" (veit ekki hvað þetta kallast, kúla sem maður hristir og þá fer snjórinn á hreifingu) frá ömmu-lang í Boló s.l. jól og þótti svona afskaplega vænt um hana. En hann var alveg eyðilagður yfir þessu og HÁ-grét vel og lengi á eftir. Það var alveg sama hvað við reyndum að tjónka við honum, loforð um nýja betri og stærri kúlu og allt hvað eina, en þessi elska gaf sig ekki. Með ekkasogum sagðist hann bara vilja fá nákvæmlega eins kúlu, bara ákkúrat þessa og vildi barasta fá að hringja í ömmu-lang og spyrja hana hvað hún hefði keypt hana. En við náðum nú að róa hann áður en útí það fór en ég lofaði því að finna mjög svipaða kúlu handa honum sem fyrst.
Við Kristófer bökuðum eina smáköku sort í gærdag og hlustuðum á íslenska jólatónlist á meðan. Ef það kemur ekki jólastemmaranum í gang, þá veit ég ekki hvað gerir það?! Kristófer fannst þetta voða stuð, enda góluðum við hástöfum með og gáfum Diddú ekkert eftir. Svo eru undanfarin kvöld búin að fara í það að skrifa blessuðu jólakortin, það er ótrúlegt hvað það fer mikill tími í að skrifa nokkur kort....ætlaði nú bara að rumpa þessu af ...en...neeeei ég er ennþá að :)



þriðjudagur, desember 07, 2004

Hæ hó...
Helgin var ósköp viðburðarlítil í þetta sinn, fórum af stað í jólafata-og jólagjafa innkaup. Það gekk bara alveg ágætlega. Það er alveg með ólíkindum hvað fólk hérna verslar mikið fyrir jólin. Fólk var með fangið fullt af fötum í biðröðum í búðum og flestir drekkhlaðnir innkaupapokum. Svo voru allir stólar og bekkir í mollinu þéttsetnir, allt karlmenn umkringdir innkaupapokum sem eiginkonurnar komu með með reglulegu millibili. Reyndar eru gaurarnir mínir alveg furðu þolimóðir í þessum mollaferðum og taka þátt í vali á jólagjöfum með miklum áhuga. Við vorum líka búin að kaupa nokkuð af jólagjöfum sem við Kristófer tókum með heim til Íslands, en eitthvað smotterí var eftir, svo að við erum frekar róleg yfir þessu.
Kristófer byrjaði aftur í karate fyrir helgina, það gekk bara ágætlega þó svo að hann væri nú farinn að ryðga aðeins eftir góða pásu í því. Reyndar var hann svolítið upptekin í fyrstu við það að spjalla við félaga sína, svo að Sensei þurfti að stoppa hann af með því að segja að hann þyrfti að hlusta meira og tala minna...hahaha.
Í fyrramálið verða svo jólatónleikar í skólanum hjá Kristófer, það verður gaman að sjá hann syngja sérstaklega þegar hann er búin að missa báðar framtennurnar :)
Get ekki annað en sönglað eftirfarandi texta, því hann á vel við:
..."All I want for Christmas is my two front teeth...so I can wish you merry Christmas...lalala"
Um helgina verður haldið "holiday party" í New York á vegum BMI. Það verður áreiðanlega mjög skemmtilegt, en við byrjum á að hittast á stað sem heitir 17Home, þar verður borðað, eftir matinn er förinni heitið í "eftir-partý" heim til Larry Schiff en hann er aðaleigandi BMI og síðan er boðið uppá hótelgistinu yfir nóttina.
Svo það er eins gott að fara að dusta rykið af glimmer gallanum og bóna lakkskóna ;)

Já og hérna er svo heimilisfangið fyrir þá sem vilja skutla á okkur jólakveðju...

Elmar Vidisson/Andrea Magnusdottir
11132 East Run Drive.
Lawrenceville, NJ. 08648
USA.

laugardagur, desember 04, 2004

Nýjar myndir...
Það eru komnar nýjar myndir inná vefsvæðið okkar. Endilega kíkið á þær. smellið á myndir og þar er nýtt albúm sem heitir Desember 2004. Ég ætla að fara að setja myndir inn í því formati.. allar myndir síðan Desember 2004 fara þangað og síðan kom ný albúm í hverjum mánuði... en það bætast líka við myndir í þau albúm sem eru til nú þegar, og mun ég láta vita þegar það koma nýjar myndir.

Kveðja í bili
Elmar

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Judgement day...
málið okkar var tekið fyrir dómi í dag og það var niðurfellt. Það þýðir þá að Emmi fær ekki punkta og við þurfum að borga sjálfábyrgðina hjá tryggingunum til að fá gert við bílinn. Frekar súrt en gæti verið verra! Hefði þetta farið á versta veg þyrftum við að borga viðgerðina á bílnum hjá manninum sem keyrði á okkur, Emmi fengið punkta OG tryggingarnar hefðu hækkað uppúr öllu valdi.
Að öllu meðtöldu mun þetta kosta okkar buddu $1500....og við í bullandi rétti!
Ég hef sagt það áður og segi það aftur...Only in America!

mánudagur, nóvember 29, 2004

Af gefnu tilefni viljum við benda ykkur á jólapakkatilboðið sem er í gangi hjá Flugleiðum um þessar mundir. Verð á fargjöldum hingað til Bandaríkjanna gerast ekki ódýrari en þetta... aðeins 29.900! Þessi tilboð bjóðast aðeins einusinni á ári og er hægt að nýta miðana á tímabilinu 10. janúar-7.maí 2005.
Sjáumst!

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Happy Thanksgiving

Vildi bara kasta kveðju á vini okkar hérna í USA. Þetta er ein stærsta frí helgin hérna hjá okkur af því við fáum frí bæði í dag og á morgun, þannig að þetta eru 4 dagar án þess að vinna, eða fara í skóla. Skemmtið ykkur nú vel öll, sem eru í USA. Og verði ykkur að góðu í kvöld.

Kveðja
Elmar,Andrea og Kristófer.

Og þið á klakanum, Góða nótt :)

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Kristófer er bara orðin hress, þeas. sjálfstraustið er að komast í samt horf eftir tannmissinn en sýnist nú að hin framtönnin sé eitthvað orðin tæp svo að það er vonandi að hann taki því betur en síðast.
Annars er Thanksgiving núna á fimmtudaginn og mikið um að vera hérna í henni Ameríku af þeim sökum. Veit ekki hvað við gerum, er svona að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fara að standa í því að elda kalkún fyrir okkur þrjú...svo kalkúnasamlokur á föstudaginn, kalkúnapasta á laugardaginn, kalkúnapottrétt á sunnudaginn....svo henda restinni á mánudaginn hahahaha. Stærsta verslunarhelgi Ameríku er svo um helgina, þá er stappað í öllum mollum og útsölur í hámarki. Emmi og Kristófer verða í fríi á fimmtudag og föstudag, það verður æðislegt, enda lítið um frí hérna, bæði í vinnu og skóla.
Svo eru kennarafundir í skólanum hans Kristófers þessa dagana og í dag erum við að fara í viðtal. Það verður gaman að sjá hvað Mrs. Annese hefur að segja um Kristófer og námsárangurinn hans.
Ég er annars á fullu að reyna að finna mér einhver námskeið eða eitthvað sniðugt að gera eftir áramót, ætla amk ekki að sitja heima aðgerðarlaus á nýja árinu...það verður s.s. mitt áramótaheit þessi áramótin :)

mánudagur, nóvember 22, 2004


Kristófer sætur og tannlaus Posted by Hello
Þar fór þriðja tönnin! Já Kristófer er búin að missa fyrstu tönnina í eftir góm, fyrir voru tvær farnar í neðri góm. Þessi tönn var búin að dingla í þónokkurn tíma svo að Kristófer átti orðið erfitt með að borða. Hann var nú ekkert sérlega ánægður með þetta í gærkvöldi greyjið! Hann lá á grúfu í korter áður en hann fékkst til að sýna okkur gatið. Honum fannst hann vera "ljótur" svona með risa gat í brosinu sínu. Talaði um að vera bara heima í dag því hann vildi ekki fara svona í skólann! En við náðum nú að sannfæra hann að hann væri alveg örugglega ekki sá eini í bekknum sem vantar framtennurnar í :)

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Jæja þá erum við komin heim!
Flugið gekk ágætlega, ég svaf ekkert frekar en fyrridaginn en Kristófer náði að leggja sig í 2-3 klst. Lentum í smá veseni hjá "Immigration", við áttum að vera með eitthvað bréf með okkur til að sýna fram á hversu lengi Emmi má vinna hérna. En það var eitthvað sem við höfðum ekki hugmynd um að þyrfti, að lokum kom maður sem sagðist ætla "sleppa okkur í gegn" í þetta skiptið en næst þyrftum við að hafa þetta bréf meðferðis. Því næst var tekin mynd af mér og fingraförin tekin, verð nú að segja að þeir láta manni nú líða eins og glæpamanni þegar maður kemur inn í landið. En til að bæta þetta vesen upp gekk mér bara vel að ná beljunum(töskunum) af færibændinu og yfir á trillu og valsaði bara í gegn hjá tollavörðunum eins og ekkert væri. Einn varðanna spurði mig "dú jú hav ení grænmeti, brennivin or kjot?". Fann litlu svitaperlurnar spretta fram á enninu vitandi af risa hamborgarhrygg, hangikjöti og pylsum í töskunni, fattaði það bara eftir á að hann var þvílíkt að monta sig af því að kunna nokkur orð á íslensku. Ég svaraði honum neitandi þá sagði vörðurinn mér til léttis... "vell mem, hav a næs dei !"
Í gær horfðum við á fyrsta þáttinn af Amazing Race sem var tveir tímar að lengd, en þessi fyrsti þáttur var tekin upp á Ísland. Þetta var svakaleg landkynning og eflaust eiga margir kanar eftir að leggja leið sína til Íslands eftir að hafa séð þennan þátt. Fyrst lá leiðin að Seljalandsfoss "seldjalendsfúss", svo uppá Vatnajökul þar sem þátttakendur gistu í tjöldum yfir nóttina og svo endað í Bláa Lóninu. Ég hafði augum opin því þegar Rúna systir fór frá okkur í sumar lenti hún í Keflavík á sama tíma og keppendurnir, hún og Ella systir lentu í miðju havarínu þegar þær hittust á vellinum í Keflavík. Myndavélar útum allt og leikstjórar að skipa keppendum fyrir verkum. En því miður stelpur, þið eruð ekki orðnar frægar því það sást ekkert í ykkur...eigum samt eftir að skoða þetta í sló mósjon..svo að það er enn von :) Ég fékk síðan póst frá Icelandair í morgun þar sem þeir eru farnir að bjóða uppá ferðir sem heita "Trace the Race" en þá er farið á alla staðina sem liðin fóru á. Sniðugir hjá Icelandair!


mánudagur, nóvember 15, 2004

Jæja þá er tími kominn á smá blogg frá mér :)
Af okkur Kristófer er allt gott að frétta. Við erum búin að hafa það ofur gott hérna afmæli, veislur, partý, út að borða, heimsóknir og bara eintóm huggulegheit. Aðhald hvað?! Mmmm hvað íslenska nammið er nú gott, sit hérna með möndlur og malt (mont-mont). Finnst alveg ótrúlegt að þetta sé næst síðasta nóttin hérna, tíminn er gjörsamlega búinn að fljúga frá okkur hérna...hef nú samt grun um að hann Emmi okkar geti ekki sagt það sama...hang in there honey! Kristófer hefur tekið alveg svakalegum framförum í íslenskunni hérna enda ekki vantað félagsskapinn sökum kennaraverkfallsins. Hann er loks farin að tala í heilum íslenskum setningum en í fyrstu var annað hvert orð á ensku eða ísl-ensku :) Systursonur minn, Baltasar, og Kristófer hafa verið eins og samlokur frá fyrsta degi svo að það verður sjokk fyrir Kristófer að vakna á fimmtudagsmorgun og enginn Baltasar til að leika við. En við erum staðráðin í því að láta ekki svona langan tíma líða á milli heimsókna aftur.
Hvað er málið með þetta sér íslenska fyrirbæri sem kallast rok...og það úr öllum áttum. Var alveg búin að gleyma þessu og er ekkert að venjast því aftur :o/ Annars er allt á "kafi" í snjó hérna núna og fljúgandi hálka, fyrstu 10 dagana rigndi stanslaust hérna en snjórinn er nú skemmtilegri. Kristófer og Baltasar hafa verið mikið úti að leika sér síðan snjórinn kom, búa til "mini" snjókalla og renna sér á snjóþotum. En við megum nú búast við miklum snjó, kulda og hálku hjá okkur í New Jersey á komandi mánuðum...brrr!
Jæja ég ætla að láta þetta duga í bili því að ég ætla að reyna að koma einhverju niður í töskur því að morgundagurinn á eftir að vera ansi erilsamur hjá okkur.
Kveðja from ðe Kleik...
Adda nammigrís og Kristófer "æslander".

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Loksins Loksins nýtt blogg

Jæja gott fólk, maður er farinn að fá skammir í hattinn fyrir að vera latur við að blogga uppá síðkastið. En nú skal ráðinn bót á því.

Andrea og Kristófer hafa verið á Íslandi síðastliðnar vikur í góðu yfirlæti á Víðimel. Kristófer fór líka í heimsókn til Bolungarvíkur ásamt Yðunni Erlu og skemmti sér konunglega, enda voru þau spillt þar, alveg botn. Það er ekki hægt að segja annað en Amma og Afi á Boló taka starfi sínu alvarlega, en starfið er að spilla barnabörnunum. :)

Við erum síðan búin að ákveða því að sleppa því að flytja okkur um set og ætlum við að vera hérna í sömu íbúðinni í a.m.k. næstu 9 mánuði. Ástæðan er aðalega sú að fyrirtækið sem við ætluðum að leigja hjá, var búinn að rokka með verðin sín upp og niður og leist okkur ekki á að fara að flytja og síðan yrði leigan jafn há, eða hærri en hér. Þannig að flutningum er frestað í bili.

Ég hitti Stefán og Eyrúnu í gær í New York. Þau höfðu komið hingað í hópferð til þess að Eyrún gæti hlaupið í New York maraþonninu og skilst mér hún, og allir sem hlupu, hafi orðið Íslandi til sóma, bæði í hlaupinu sjálfu og í morgunsjónvarpsþætti daginn eftir þar sem þau voru kynnt fyrir bandarísku þjóðinni. Vel gert Eyrún. Það var mjög gaman að geta hitt ykkur aftur, þó ekki væri nema bara í stuttan tíma. Vonandi getum við hist aftur fljótlega.

Þetta verður að duga í bili þar sem að mikil vinna bíður mín, ég ýtreka aftur... Ef einhver Navision Forritari eða ráðgjafi hefur áhuga á að flytja hingað, þá er nóg vinna hérna og er alvarlegur skortur á fólki hérna. Endilega sendið mér línu ef þið vitið um einhvern.

Meira síðar, og fljótlega.

Elmar, einbúi.

mánudagur, október 18, 2004

Isss... hvað við erum farin að vanrækja þessa blessuðu heimasíðu okkar :/
En það er nú svosem ekki mikið að frétta hvort eð er. Við Kristófer erum búin að húka inni síðan á fimmtudag, að undanskilinni einni læknaheimsókn, því að Kristófer nældi sér í leiðinda flensu. Læknirinn sagði að hann væri allur "congested" þeas. stíflaður, bólginn og eyru full að vökva...svo að það var ekkert annað sem kom til greina en láta hann hafa þrusu sýklalyf við því. Í dag er hann mikið betri en ekki nógu góður þó, til að mæta í skóla en hann ætti að geta mætt á morgun. Það er ekki alveg nógu gott að hann skyldi verða veikur núna því að framundan er tæplega 3ja vikna frí í skólanum en þessar flensur gera víst ekkert boð á undan sér. Þetta er samt alveg furðulegt...frá því að við byrjuðum að flakka á milli US og Íslands, hefur hann undantekningalaust orðið lasinn vikuna áður en við leggjum í hann!
En svo við snúum okkur nú að öðrum heldur skemmtilegri fréttum...þá eru 9 dagar þar til við komum á klakann!!!.... ágætt að hafa þetta á hreinu svo hægt sé að panta rauða dregilinn, limmuna og lúðrasveitina ;)
Þar til næst...
Gengið í NJ.


laugardagur, október 09, 2004

Fréttir

Jæja, þá er komið að mér að skrifa blogg. Ég hef ekki verið mjög duglegur við það undanfarið, en ég er búinn að vera á kafi í vinnu uppá síðkastið. Það er orðið mjög mikið að gera hjá mér og er meira framundan, en hvað um það, hérna eru smá fréttir.

Andrea og Kristófer eru á leiðinni heim til íslands, og er búið að panta farið. Þau fara 27. þessa mánaðar og verða í 3 vikur, þau koma aftur "heim" 17. nóvember, rétt áður en við eigum að flytja. En planið er að reyna að flytja helgina eftir að þau koma. Mamma og pabbi eru líka að velta fyrir sér hvort þau eiga að koma í heimsókn á sama tíma, og hjálpa okkur að flytja. Það er alveg frábær afsökun og yrði hjálpin mjög vel þegin.

Um síðustu helgi komu Orri, Erna og Úlfur í heimsókn og fengum við okkur íslenkst lambalæri að borða. Ekki slæmt að geta fengið sér slíkt annað slagið hérna í "Good old US of A". Lambalærið er til sölu hjá Whole Foods Market og eru þeir staðsettir meðal annars hérna í 5 mín fjarlægð. Kvöldið var mjög gott, við borðuðum góðan mat, drukkum ódýrt vín, og spiluðum þar til að ég sofnaði við spilaborðið. Við Orri eigum ennþá eftir að fara í golf samt, en heilsan hjá okkur á sunnudaginn var ekki uppá marga fiska og ákváðum við að fresta ferð okkar á "driving range" þar til seinna.

Helst í umræðunni núna hérna í bandaríkjunum eru forseta-kappræðurnar á milli Bush og Kerry. en ég er einlægur stuðningsmaður Kerry og vona innilega að hann taki þetta. Miðað við þá kana sem ég hef talað við um kosningarnar þá ætti hann að taka þetta. Viðhorfið er ekki endilega að Kerry er frábær kostur, heldur hitt, að Bush er það lélegur að hver sem er væri betri. En það myndi nú samt ekki koma mér á óvart að Bush myndi vinna aftur eftir miklar endurtalningar í Florida. Þetta verður a.m.k. mjög spennandi 2. Nóvember næstkomandi.

Kristófer er allaf að verða betri og betri í fótbolta, hann var að keppa núna áðan og er liðið hans, og hann líka, að komast yfir þessa þörf að hlaupa allir eftir boltanum út um allan völl. Þjálfararnir eru að æfa mikið með þeim að spila sínar stöður og vera duglegir að senda boltann, og virkaði það vel núna því að liðið hans vann 4-1 þó svo að þeir væru bara 4 í liðinu á móti 5. Hann er líka hættur að brjóta af sér, a.m.k. í bili. En um daginn togaði hann einn leikmann niður sem var kominn innfyrir og ætlaði að skora, þegar Kristófer togaði í hendina á honum og dró hann niður. Kaninn ætlaði að verða brjálaður þá, Pabbi stráksins bölvaði Kristófer og ég veit ekki hvað og hvað. Ég þurfti síðan að hemja mig sjálfur þegar annar strákur braut á honum og hann kom grátandi út af... Soccer Dad aldarinnar.

Ég hef ekki verið duglegur í golfinu síðan Högni fór aftur heim til sín, en ég hef ekkert farið síðan. Ég þarf að vera duglegari við þetta, en það er bara ekki eins gaman þegar maður er einn. Hluti af skemmtuninni, eiginlega mjög stór hluti, er að fara út með "strákunum" og eyða 4-5 tímum á golfvelli, það skiptir eiginlega ekki málið skorðið hjá manni, þó svo að það sé skemmtilegra að fara ekki yfir 100 þá er það ekki aðal atriðið, a.m.k. ekki hjá mér.

Við fengum síðan bréf heim um daginn þar sem árshátíð BMI var tilkynd en hún verður haldinn á veitingastað í Manhattan og síðan verður farið á annan stað í eftir-partý. BMI býður þeim starfsmönnum sem eru a.m.k. 50 mílur frá Mahattan uppá 1 nótt á hóteli og þeir bjóða líka mökum starfsmanna með. Þetta er mjög grand og hlakkar okkur mikið til. En okkur vantar pössun, og þar sem að mamma og pabbi treysta sér ekki til að vera svona lengi hjá okkur, þá erum við að leita að sjálfboðaliðum til að koma og passa fyrir okkur :) Frí gisting í boði.

jæja, læt þetta duga í bili, heyrumst síðar....
Elmar Soccer Dad.

laugardagur, október 02, 2004

Komið þið sæl og bless...
Það er voða lítið að frétta af okkur núna, búið að vera rigning mest alla vikuna svo að við höfum verið hálfgerðir "innipúkar". Kristófer fór á fótboltaæfingu í morgun, það eru æfingar bæði laugardaga og sunnudaga næstu vikurnar. Hver æfing er 1 1/2 klst. svo að það er ágætis hreyfing fyrir hann, svo er náttúrulega karate tvisvar í viku líka.
Við fengum tilkynningu í póstinum í gær, það er búið að fresta því að málið okkar verði tekið fyrir, til 30 nóvember. Lögfræðingurinn sá um það, svo að við sitjum bara og bíðum...rosa spennt eða þannig. Við fengum loksins einhver svör frá tryggingafélaginu okkar, og þeir geta ekkert hjólað í kallinn sem keyrði á okkur fyrr en við erum búin að fá niðurstöðu í dómsmálið og EF, bara ef, við fáum dómnum snúið. OG þá getur það tekið uppundir ár að fá endurgreitt fyrir viðgerðina á bílnum. Þetta er nú alveg ótrúlegt!
Annars erum við að fá gesti í dag. Erna, Orri og Úlfur ætla að vera hérna í nótt hjá okkur. Það verður áreiðanlega fjör og auðvitað verður gripið í einhver spil... og eins og einn til tvo öllara :) Þau ætla að koma með íslenskt lambalæri með sér og við ætlum að elda það hérna. Mmmm...fæ nú bara vatn í munnin við tilhugsunina, höfum ekki smakkað íslenskt lamb í bráðum 1 1/2 ár! Það er víst hægt að fá íslenskt lamb í Whole Foods núna og lærið er að fara á um $30 skilst mér...sem er nú bara ódýrara en ég bjóst við.

En ætla að láta þetta nægja í bili...bara svona rétt að láta vita af okkur hérna.

Góða helgi.

fimmtudagur, september 23, 2004

Ha ha ha ha...kallgreyjið! Fann þessa frétt á netinu...
Jæja við erum búin að segja upp leigusamningnum hérna. Svo að við flytjum héðan 22. nóvember sama hvað tautar 0g raular. Við erum nú ennþá hálf slöpp í íbúðarleitinni, erum alveg komin með grænar á því að flytja. Reyndar er eitt hverfi sem við erum ferlega spennt fyrir, það er bara hérna hinumegin við US-1 ("hraðbrautin" sem liggur hérna í gegn). Við skoðuðum þessi hús fyrr í haust þegar við vorum að byrja að skoða í kringum okkur en okkur fannst það fulldýrt fyrir okkar smekk svo að við spáðum ekkert í það frekar. Svo var ég að skoða íbúðir á netinu í fyrradag, eins og svo oft áður, og sá að þeir voru búnir að lækka leiguna töluvert. Svo við hringjum í þá og þá sagði sú sem svaraði okkur það að þeir hefðu hækkað leiguverðið svona í sumar svo þeir gætu boðið viðskiptavinum 2 fría mánuði! ...og hún var ekkert feimin við að viðurkenna það! Svo þessi hús eru aftur komin inní myndina...kíkið á þau hérna. Málið er líka það að Lawrenceville er afskaplega lítill bær og framboðið á svona "rental-communities" er svo lítið að ég gæti talið þau á annari hendi.
Elementary skólarnir hérna í Lawrenceville eru 4 talsins svo að þó maður flytji bara yfir götuna eru miklar líkur á að það sé annað skólahverfi. Við ræddum við skólastjórann hans Kristófers og hún sagði að það væri hægt að fara fram á undaþágu fyrir flutning ef nemandinn býr enn í Lawrenceville og foreldrar tilbúnir að keyra hann til og frá skóla. Svo að hann verður að öllum líkindum áfram í Eldridge Park
Ég er sko engan veginn að fatta minn gír. Ég er í þvílíku jólaskapi! Langar að draga jólaskreytingarnar fram í dagsljósið, búa til meira, senda jólakort og punkta niður jólagjafalistann! Mig langar að setja íslenskann jóla geisladisk í spilarann og hækka í botn, skrifa jólakortin, baka smákökur og góla hástöfum með! Er þetta ekki alveg ekta ég...svo þegar jólin koma er ég búin að taka minn skammt af jólafílingnum út, allar smákökurnar sem ég bakaði í október búnar og komin með leið á öllu jólaskrautinu. En ég verð að halda í mér, þetta má ekki gerast! Það er kannski ágætt að við séum að flytja í lok nóvember, þá neyðist ég til að geyma það að taka upp jólaskrautið þar til við erum komin í nýtt húsnæði.
Já og eitt enn...við erum búin að ráða lögfræðing í málið hjá okkur og það verður tekið fyrir mánudaginn 27. september. Við erum með fingur og tær krossaðar!




þriðjudagur, september 21, 2004

Hellúú...
fórum á flóamarkað í gær...í sól, rigningu, og roki...minnti óneitanlega á Ísland :) Það fór mesti tíminn í það að finna stæði því það var þvílík mannmergð þarna. Fengum meira að segja tilboð á viðgerð á bílnum á þessum bílastæðarúnti okkar. Sagðist gera við greyjið fyrir $1800 og hann yrði eins og nýr...döh...fyrir þessa upphæð fyndist mér það nú ekki þess vert að taka það fram og vera með handapat og fingurkossa til að leggja á það áherslu. En annars veit ég nú minnst um svona bíla-viðgerða-kosnaðar-mats-dæmi, hú nós, kannski var þetta bara kostaboð. Annars var nú lítið verslað í þetta skiptið á markaðnum, eitthvað af ávöxtum jú og grænmeti. Á leiðinni heim var svo komið við í Sams Club og verslað inn, mér leið nú eins og ég væri komin útí veitingahúsabransann þarna...3 kíló af kjúklingabringum...3 kíló af hakki...jú nó ðe drill. En sú tilfinning var nú fljót að gufa upp þegar við stóðum í röðinni á eftir fólki með heilu brettin af mat, alltíeinu vorum við bara orðin lummó með innkaupakerruna okkar...hehehe
Díí...hvað varð um þennan mánuð, ég bara spyr? Það er komin 21 sept...jólin eru bara á næsta leiti. Var að telja (n.b. manually :) og það eru 94 dagar til jóla! Fékk þennan líka svaka "jóla fiðring" í gær og á eitthvað erfitt með að hrista hann af mér. Ætli jólaskrautið í öllum búðunum hafi ekki þessi áhrif á mig...jú alveg satt, það er komið jólaskraut í flestar búðir hérna og reyndar sá ég það fyrst fyrir u.m.þ.b. mánuði síðan. En annars er tíminn svo fljótur að líða að ég verð farin að baka og pakka inn áður en ég veit af...!
Bestu kveðjur í bili,
Adda jóla-grís.

laugardagur, september 18, 2004

...og góða helgi! :)
Hérna er grenjandi rigning núna, skylst að þetta séu leifarnar af honum Ívani grimma (fellibylnum). Svo að fótboltanum var aflýst í morgun og líklegt að ekkert verði spilað á morgun heldur. Við erum því bara að hangsa heima núna að reyna að finna uppá einhverju skemmtilegu til að gera í þessu leiðindaveðri.
Annars ræddum við við einn lögfræðing í vikunni sem við ætlum sennilega að ráða. Hann var alveg steinhissa að við hefðum verið dæmd í óretti af löggunni hérna um daginn. Sagði að þetta væri mjög einfalt í hans augum, hinn hefði verið í bullandi órétti því hann fór yfir stöðvunarskyldu. En ég vona að hann sé ekki bara að segja þetta svo við ráðum hann, en við ætlum amk. að ræða við einn lögfræðing til, bara svona til að fá annað álit. Svo var hann ansi heitur og vildi bara að við færum í mál við manninn prívat og persónulega...hahaha...only in America! En þetta kerfi hérna er alger frumskógur eins og t.d. fór ég til læknis í vikunni, er búin að vera eitthvað skrítin í bakinu eftir áreksturinn. En allavega ég vildi bara að þetta yrði skráð, svona eins og heima á klakanum ef maður lendir í árekstri. Læknirinn vildi nú varla kíkja á mig, sá hræðslusvipinn færast yfir andlitið á henni þegar ég sagði að ég hefði lent í árekstri. Hún sagði að ég hefði þurft að tala við tryggingarfélagið mitt fyrst til að fá eitthvað númer?! Því að hún mætti "lagalega" ekki skoða mig nema að ég hefði þetta tiltekna númer! En svo spurði hún mig hvaðan ég væri og virtist róast við það að heyra að ég væri frá Evrópu. Díísess, ég fæ á tilfinninguna að flestir séu skíthræddir við tryggingarfélögin og/eða málsóknir hérna.
Annars er er bara allt gott í fréttum héðan nema kannski það að við erum ekkert farin að finna aðra íbúð, erum barasta ekki að koma okkur í það. Fáum alveg hroll við tilhugsunina eina að þurfa að fara að dröslast með okkar hafurtask, eina ferðina enn, eitthvað annað... brrr.

sunnudagur, september 12, 2004

Vúúúhúú!
Þetta voru viðbrögðin hjá Kristófer þegar við áttuðum okkur á því að fótbolta "seasonið" væri að byrja. Við vorum nefnilega búin að skrá hann í fótboltann fyrir löööngu síðan. Okkur var bara sagt að bíða bara róleg því við myndum vera látin vita þegar það myndi byrja. En við biðum og biðum...og aldrei hringdi síminn. Svo við ákváðum að slá á þráðinn og kanna þetta mál. "Já heyrðu... það var nú eins gott að þú hringdir...við erum vitlaust símanúmer hjá þér og boltinn byrjar á morgun"! Svo að fyrsti tíminn var á laugardagsmorgun og svo er líka æft á sunnudögum. Þannig að það er óhætt að segja að drengurinn hafi nóg fyrir stafni í haust...fótbolti 2x í viku, karate 2x í viku og svo æfir hann golfið með pabba sínum 1x í viku. Svo langar okkur líka að senda hann á sundnámskeið...énnn ég held að það verði að fá að bíða betri tíma :) Kannski þegar fótboltánámskeiðið er búið. Það er alveg nauðsynlegt að við látum hann læra sund, það er nefnilega ekki skylda hérna eins og heima.
En í dag er einhver fjölskyldu skemmtum í næsta kántíi (sýslu) og þar á víst að vera svaka fjör fram á kvöld. Galdramenn, leiktæki, hestaferðir og trúðar, svo fáeitt sé nefnt, ná alltaf athygli okkar svo að ætli við tökum ekki sunnudagsbíltúr þangað í þetta sinn.
Later...
Andrea og co.

fimmtudagur, september 09, 2004

Fyrsti skóladagurinn hjá Kristófer!
Fyrsti dagurinn var nú reyndar í gær, en okkur þótti drengurinn ekki vera nógu heilsuhraustur til að mæta. Einhver ægileg kvef flensa að hrjá drenginn svo að röddin hans er nær óþekkjanleg og í kjölfarið fylgdu nokkar kommur. En spennan og eftirvæntingin er svo mikil að drengurinn tók ekki annað í mál en að mæta í skólann í dag með sína hátíðni rödd og nasasog, reyndar var hann orðinn hitalaus svo það var ekkert að vanbúnaði. Ætli nýja Spiderman taskan og nestisboxið hafi átt einhvern þátt í þessum drifkrafti? Sennilega :) Á þriðjudaginn s.l. var opið hús hjá skólanum og þó svo að Kristófer hefði verið hálf slappur ákváðum við að reka nefið inn og heilsa uppá nýja kennarann hans. Mrs. Annese tók á móti okkur, brosmild og vinaleg, spjallaði við Kristófer og lét okkur svo hafa nafnalista yfir bekkjarfélagana. Þau verða 13 saman í bekk í vetur, sem okkur þykir mjög gott, því að við bjuggumst við því að bekkirnir myndu vera töluvert fjölmennari. Á listanum var eitt nafn sem við könnuðumst við en það var bekkjarfélagi hans frá því síðasta vetur, Jared.
Mér sýnist ritara síðasta pistils hafi láðst að minnast síður en svo gleðilegra frétta frá síðustu viku, en ætli gleðivíma helgarinnar hafi ekki sljóvgað þá slæmu minningu. En við fjölskyldan lentum í áreksti á föstudagskvöldið, ég vil taka það fram að enginn slasaðist amk. ekki líkamlega. Við vorum að keyra yfir gatnamót hérna við hverfið okkar þegar bíll kemur aðvífandi, og keyrir á okkur með slíkum krafti að við snúumst í næstum hring áður en Emmi nær að stöðva bílinn. Fyrstu viðbrögð...er allt í lagi með Kristófer? Ég lít í aftursætið og sé skelfinga-og hræðslusvip skína úr andliti Kristófers en fyrir utan smá sjokk var allt í lagi með hann. Við vorum öll heil á húfi...guði sé lof segi ég nú bara. Augnabliki síðar kemur ökumaður hinnar bifreiðarinnar aðvífandi og augsjóslega sleginn, eins og við öll. Hann spyr okkur hvort við séum ekki öll heil á húfi og byrjar síðan grátklökkur að segja að þetta hafi allt verið hans sök. Síðan spyr hann okkur hvort við viljum ekki láta lagfæra skemmdirnar án þess að fara í gegnum tryggingarnar og borga fyrir viðgerðirnar úr eigin vasa, og með því, spara okkur öllum tryggingahækkanir. Hann hafði nú rétt fyrir sér með það að þetta var honum að kenna því að það var stöðvunarskylda hjá honum. En við vorum ekki alveg á þeim buxunum að fara að treysta einhverjum dúdda úti bæ fyrir því að borga tjónið. Svo við köllum lögregluna til, til að taka skýrslu. Í stuttu máli komst löggan að þeirri niðurstöðu að VIÐ hefðum valdið árekstrinum og værum í algerum óretti. Þetta var vægast sagt köld tuska í andlitið! Þessi litli löggumaður sagði að hinn ökumaðurinn hefði verið á undan okkur inná gatnamótin og væri því í rétti!!! Auðvitað var ökumaður hinnar bifreiðarinnar alltíeinu alveg innilega sammála löggunni, okkur fannst hann gefa það í skyn við löggumanninn að við hefðum komið inn götuna á svo miklum hraða að hann hefði barasta ekki séð okkur! "ég stoppaði, leit til hægri, svo til vinstri, hélt áfram út á gatnamótin og búmm þarna voru þau alltí einu....!" Sanneikurinn er sá að:
1) við "lúsuðumst" inn götuna því að það er risa hraðahindrun nokkrum metrum frá þessum gatnamótum sem gerir manni ómögulegt að vera á miklum hraða, nema maður vilji taka dágóða flugferð og brjóta allt undan bílnum.
2) þarna er hámarkshraði 10 mph. og eftir að hafa búið í götunni í 8 mánuði ætti það nú alveg að vera á hreinu hjá okkur.
3) Þegar við sjáum bílinn stíma beinustu leið á okkur tökum við bæði eftir því að maðurinn er ekkert að horfa fram fyrir sig. Svo að það útskýrir stutt bremsuför hjá honum, hann var ekkert að horfa fram fyrir sig.
En þetta getur orðið til þess að tryggingarnar okkar eigi eftir að fara "through the roof" og nógu dýrar eru þær nú fyrir. Við eigum kost að því að þræta fyrir þetta í rétti en það þýðir það að við þyrfum að fá lögfræðing í málið. Svo sagði símadaman, hjá tryggingarfélaginu okkar, okkur það að hún hefði aldrei heyrt til þess að niðurstaða lögreglu hefði nokkurntíma verið snúið í dómi. Okkur finnst þetta ansi súr biti til að kyngja, hvort sem við fáum lögfræðing í málið eða ekki, "win or loose", á þetta samt sem áður eftir að kosta okkur dágóðan skildinginn...og Emmi greyjið missir tvo punkta af öksuskírteininu og er nú stimplaður sem "reckless driver" í gagnagrunni lögreglunnar. Grrrr...ég verð svo reið þegar ég tala um þetta!





þriðjudagur, september 07, 2004

How are you doing ?

Jæja best að fara að skrifa aðeins í bloggið sitt. Við erum búin að hafa mikið að gera síðastliðnar vikur. Kristófer útskrifaðist úr Karate síðastliðinn miðvikudag. Hann fékk gula beltið og erum við mjög stolt af hans árangri. Hann náði líka þeim persónulega sigri að vinna "Sensei Says" sem er karate útgáfan af "Símon Segir" eða "Simon says", ég er alveg búinn að gleyma hvað þessi leikur heitir heima á íslandi, en ég held þið vitið um hvað ég er að tala.

Högni og fjölskylda komu síðan til okkar á síðastliðinn föstudag og gistu hjá okkur alla helgina. Við fórum í Golf í Mercer Oaks og Scandinavian Festival, meðal annars. Og var alveg hörkustuð hjá okkur. Við hlustuðum á Jón Ólafsson Tenór syngja íslensk og norðulensk lög með mikilli innlifun. Ættjarðarstoltið skein af svipunum okkar og var stutt í gæsahúðina. Mér fannst fyndið að Kristófer þurfti að spyrja mig, "Hvort er hann að syngja á Íslensku eða Ensku?". Hann var s.s. ekki viss, þar sem hann skilur bæði.

Skólinn byrjar í dag hjá Kristófer, með 1 klst. kynningu á kennara og skólastofunni hans, hitta hina krakkana sem verða með honum í bekk og síðan á þetta að byrja á fullu á morgun, frá 08:00 til 13:00 en venjulegur skóladagur er 08:00 til 14:40 og verður það á fimmtudaginn og föstudaginn. Málið er bara þetta, hann vaknaði veikur í morgun. Þannig að hann þarf líklega að sleppa fyrstu dögunum í skólanum, nema við náum að lækka hitann með stílum og koma honum í þessa mikilvægu fyrstu daga.

Við erum ennþá að spá í að flytja og verður líklega af því í Nóvember. Við æltum um næstu helgi að skoða íbúðir í nágrenni við góða skóla og verslunarkjarna sem við vitum um í Pennsilvaníu. En meira um það seinna. Hafði það nú gott á landinu kalda, sem er víst ekki svo kalt lengur.

Einar Örn, takk fyrir kveðjuna í gestabókinni, svona kveðjur koma bæði skemtilega á óvart og hvertja mann til að halda áfram að halda síðunni við.

mánudagur, ágúst 30, 2004

Hej alle sammen...
það er allt bara ljómandi héðan...hvað annað ;) Reyndar erum við þvílíkt í pælingum hvað við eigum að gera eða hvert við eigum að fara þegar leigusamningurinn hérna rennur út. Við erum ekki alls kosta sátt hérna í þessu hverfi og erum alveg komin á það að flytja. Verst hvað Lawrenceville er agalega lítið svæði því að það er eiginlega sama hversu stutt við flytjum, hann Kristófer þyrfti að skipta um skóla. Það er það versta við þetta allt saman...
Við erum með augastað á hverfi sem er stutt héðan, 2 mín eða svo, en nógu langt samt svo að Kristófer þarf að skipta um skóla. Við nýtum allar helgar núna í að rúnta um og skoða, ætlum að vera ánægð með næsta áfangastað. Svo þarf maður líka að kanna skólana sem fylgja hverfunum, því að þeir geta verið jafn misjafnir og þeir eru margir. Við erum líka að skoða Pennsylvaniu, en við erum hvort sem er alveg við fylkismörkin núþegar...afhverju ekki bara mjaka sér rétt inn fyrir mörkin? Okkur er sagt að þar sé 15 % ódýrara að lifa en í þessu "okur" fylki. Já það er mikið að hugsa um áður en við dembum okkur í þetta eina ferðina enn. Þess vegna er ekki seinna vænna en að fara að líta í kringum sig, þó svo að leigusamningurinn renni ekki út fyrr en 22. nóvember.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Karate Prófið hans Kristófers

Kristófer fór í karate prófið á Miðvikudaginn og gékk alveg framúrskarandi vel. Hann fær síðan að vita hvaða belti hann fær, næsta miðvikudag, en þá verður útskrift hjá honum. Hann mun a.m.k. fá aðra rönd í hvíta beltið sitt, og ef kennarinn var mjög ánægður með hann, fær hann Gult belti. Við vonum öll að hann fái Gula beltið.
Eftir prófið var spilað smá "Sensei Says" en það er bara leikurinn "Símon segir" (Minnir a.m.k. að hann heitir það á íslandi) og hefur Kristófer ekki gengið vel í þeim leik síðan hann byrjaði, en ég hélt að ástæðan væri bara túngumálaöðruleikar. Þannig að ég æfði mig með honum hérna heima, bæði í Karate hreyfingum og í "Sensei Says". Skemmst er frá því að segja að hann stóð sig með mikilli prýði í leiknum, og var með þeim síðustu til að detta úr, en það var bara af því að hann var að þurka svitann á höndunum þegar kennaranum sýndist hann hafa kýlt eitthvað. Ég átti erfit með mig að standa ekki upp og öskra hástöfum, "SVINDL!!!", en ég sat á mér til að verða honum ekki til skammar.
Munið svo að skilja eftir pöntun fyrir þessari blaðaúrklippu, með mynd af Kristóferi, í gestabókinni. Hún kemur í blaðið hérna 7. Sept og munum við kaupa jafn mörg eintök og pantað er þar.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Fréttir og fl...
Jæja, það er orðið langt síðan ég skrifaði hérna síðast, samt er ekki mikið að frétta af okkur. Kristófer var í myndatöku um daginn ásamt fullt af fólki fyrir Local blaðið hérna, Trenton Times, sem var að skrifa grein um karate þjálfarann hans, Sensei Ed. Hann var fremstur í hópnum og verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út. Greinin mun víst koma í blaðinu 7. Sept og ætlum við okkur að kaupa nokkur eintök, þeir sem hafa áhuga á að fá greinina senda til sín skulu bara leggja inn pöntun í gestabókina okkar :)

Síðan í dag, kl 18:00 fer Kristófer í próf í Karate. Ef hann stendur sig vel fær hann appelsínugult belti. Planið er að taka eins mikið og hægt er upp á cameruna og setja síðan inná síðuna okkar.

Það er búið að vera rosalega mikið að gera hjá mér uppá síðkastið og hef ég verið 2-3 daga vikurnar á fundum úti í bæ, oftast einhversstaðara sem tekur mig um 2 tíma að keyra. Málið er að það eru nokkuð margir búnir að hætta hjá okkur síðastliðnar vikur og hefur álagið því aukist á þeim sem eftir eru, og eru þeir ekki of margir þessa dagana. BMI er núna á fullu að leita að nýju Navision fólki, þannig að ef einhverjum langar að koma til New York að vinna hjá Navision fyrirtæki, látið mig vita.

Við erum að spá í að flytja þegar samningur okkar hérna rennur út, en það er 22. Nóv. og erum við að skoða í kringum okkur. Annaðhvort að finna eitthvað svipað á lægra verði eða flytja til Pennislvaníu, sem er næsta fylki við hliðina á okkur, við erum alveg á landamærunum og skv. local fólkinu hérna og þar, þá er ódýrara að búa þar. Ódýrari tryggingar, leiga, matur og bara kostnaðurinn við að lifa er lægri þar.

Meira seinna.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Helgardagbókin
Helgin var bara nokkuð góð hjá okkur, Við fórum tvisvar á markað sem kallast, Columbus Farmers Market og fórum einnig til Lambertville í fyrst sinn, eða eins og við Andrea ætlum að kalla það héðan í frá... Key West okkar New Jersey búa. Markaðurinn var vel heppnaður og fórum við fyrst á laugardegi og síðan á sunnudegi aftur, þar sem við fengum ekki nóg á laugardegi. Fyrsta skiptið var flott, við keyptum alls konar "drasl", ég keypti 6 kiljur á $5 og headphones fyrir ræktina á $5. Andrea keypti sér 2 sólgleraugu og derhúfu, allt flott merki eins og Von Dutch, Ralph Lauren og fl. slík nöfn sem ég kann ekki að skrifa... (All Fake). Síðan fékk Kristófer DVD disk um LarryBoy... Grænmeti sem getur all, þó svo það hafi engar hendur, hreint kraftaverk. Rúna keypti sér fullt af dót sem ég kann engin skil á, enda var ég fljótur, eftir að hafa keypt mér mitt og Krissa dót, að draga drenginn okkar í spilasalinn. Við erum svo heppnir feðganir að hafa það sameiginlegt að við þolum ekki lengi að vera í verslunum. Nema Krissi hefur forskot, þegar við förum í Shop Rite eða Wegmans, fær hann að hanga í barnapössun og daðra við fóstrurnar þar, og spila tölvuleiki, mér finnst sárlega vanta "Eiginmanna-pössun" í nokkrar verslanir. En við undum okkur vel þarna, þar var spilasalir, já í fleirtölu, af því þeir voru 2. En báðir á stærð við strætóstoppistöð, sem gerði þá að vísu svolítið minna spennandi. Síðan fórum við í Lambertville og stoppuðum þar í svona klst. og þar er sko fallegt og ég og konan eigum eftir að draga drenginn þangar fljótlega aftur. Þetta var einfaldlega Key West aftur. skemmtilegur ferðamannabær þar sem heilmikið fólk var á ferli, mikið að skoða og versla og mikið af fólki að skoða. Síðan á Sunnudaginn var gerð önnur ferð á markaðinn sem var með svipuðu sniði og á laugardaginn, nema við Krissi eyddum nákvæmlega 10 mín. í að skoða með stelpunum og eftir það... beintí spila-salina, og þegar við urðum svangir, pylsur, hvað annað. Gaman að eiga strák sem er svo líkur mér að maður upplifir æskudraumana í gegnum hann... leikjasalir og pylsu-át með pabba. Talandi um hann... Hann pabbi minn var í fréttunum síðastliðinn föstudag að berjast fyrir mjög áríðandi málefni, málefni sem í raun er það eina sem er þess virði að berjast fyrir þessa dagana... Enski Boltinn. En hann er driffjöðurinn í söfnun sem Bolvíkingar eru að standa í til að safna 900Þ kr. til að skjár einn setji nú upp sendi þar og alvöru fótboltaáhugamenn geti nú lifað af laugardagana í Bolungarvík. Ég óska honum og allri Bolungarvík góðs gengis með söfnunina.
Annað af honum... Hann hefur farið í golf uppá hvern einasta dag síðan hann kom heim. Ég bjóst við að hafa keypt einhvern smá áhuga... en þetta er umfram allar vonir. Einnig hefur hann tekið inn í búðina sína mikið af golfdóti, s.s. Kerrur, skó, teljara... Og rúsínan í pylsuendanum. MAMMA er farin að læra þetta líka, og pabbi ætlar að kaupa sett fyri hana. Þið ykkar sem þekkði þau vitið að þau elska að fara í gönguferðir... núna geta þau farið í gönguferðir, OG slegið bolta á undan sér á jafnréttisgrundvelli. Er hægt að hafa það betra en á Bolungarvík, ég bara spyr?

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Bill Clinton, FBI og Mafíósar... allt á 2 dögum.
Þetta eru búnir að vera nokkuð viðburðaríkir dagar, þessir síðustu 2. Ég gær fékk ég hringingu frá konu sem var mikið niður fyrir, hún tilkynnti mér það að hún væri að vinna hjá einhverri opinberri stofnun sem leitaði að bankareikningum á netinu og ef hún finndi einhverja þá væri henni skylt að hringja í aðilann og staðfesta uppýsingarnar og síðan fjarlæga reikningsupplýsingarnar mínar. Ég hljóp til og náði í tékkheftið og ætlaði að fara lesa upp reikningsnúmerin þar, en þá datt mér í hug að spyrja hvernig ég gæti verið viss um að ég væri ekki að gefa einhverjum bófum upp númerið mitt? Um leið og ég spurði að því, skellti hún á. Ég fylltis grunsemdum og fór á www.fbi.com og sendi þeim ábendingu um þetta, og spurði hvort svona stofnun væri nokkuð til. Síðan núna rétt áðan fékk ég símtal... "Yes, Mr. Vidisson, This is the FBI". Ég svaraði um hæl "Oohkey" og bað um nafnið á manninum, Sean McDearmont. Hann tilkynnti mér það ég hefði brugðist rétt við og þetta væri ný tegund af bragði hjá þessum mafíósum eins og hann kallaði það. Hann sagði mér að ég ætti aldrei að þurfa að gefa upp númerið á reikningnum mínum yfir símann, eða með e-maili. Eins og maður vissi það nú ekki fyrir. Þannig að þarna lenti ég næstum í klóm Tony Soprano og Co.

Síðan í gær, vorum við að fara að versla fyrir heimilið, stór-innkaupardagur, en það þýðir heimsókn til Sam´s Club. Þegar þangað kom, sáum við svolítið óvenjulegt. Biðröð dauðans.. alveg frá inngangi á verslunni og fram að næstu gatnamótum. Við vissum ekkert hvað var í gangi, en þegar við keyrðum framhjá versluninni sjálfri sáum við aulýsingu : "Bill Clinton fyrrverandi forseti áritar bókina sína, "My Life" hérna í dag frá 14:00". Við nátturulega drifum okkur beint inn... en maður mátti fara beint inn ef við vildum ekki áritun. Þegar við komum inn sáum við að aðdáendur hans þurftu að fara í gegnum check þar sem var leitað í öllu og á öllum. Síðan tók við lengri biðröð inni í búðinni sem leiddi að því þar sem forsetinn sat og skrifaði áritanir. Þarna var líka að finna fullt af Secret Service körlum sem voru allir klæddir í svört jakkaföt og með heyrnatæki í eyrunum, og töluðu í ermina sína. Síðan fórum við að versla og þóttumst vera ekkert spennt yfir því að vera í sömu verslun og Bill Clinton, en þegar við ætluðum að versla gosið okkar, var okkur meinaðar aðgangur þar inn, þar sem hann sat fyrir innan af þeim gangi, Þar sem var búið að reisa stórt tjald, en við sáum í hnakkan á honum og heyrðum hann tala við fólkið. Þetta var eins sú óraunverulegasta reynlsa sem við höfum lent í.

Meira síðar, Elmar fórnarlamb Tony´s

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Slæmar fréttir, góðar fréttir, bestu fréttirnar
Jæja, ekki tókst mér að komast á leikinn með Liverpool, hérna í NewJersey í gær, vinnan (Helv. Vinnan) tók forgang. Það var einfaldlega of mikið að gera hjá mér til að komast. Þetta voru slæmu fréttirnar. (Hey, mér finnst þær slæmar). En til að hressa mig við, ákvað Comcast að bæta við bestu sjónvarpsstöðinni sem finnst hérna í USA. Fox Sport World, en sú stöð sérhæfir sig í að bæta upp Sýnar-, nei sorry, skjás-1 leysið hérna, þ.e.a.s. hún sýnir enska boltann. Þetta voru s.s. góðu fréttirnar. Og síðan þetta gótt fólk. Fanney og Högni eru búin að bæta við nýjum meðlim í fjölskylduna sína. Hún Kristín Bergrós kom í heiminn kl 12:20 í dag, 13Merkur og víst alveg eins og Hildur litla. Innilegar hamingju-óskir til þeirra !! Þetta eru Bestu Fréttirnar.

ég er orðinn duglegari að bæta við vídeómyndum á síðuna okkar, bæði skemmtilegum og leiðinlegum. Leiðbeiningar um hvernig er best að horfa á þær er að finna á Vídeómyndir hlutanum á síðunni okkar.

Hafið það gott í bili, Elmar Poolari.

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Tónleikar í Central Park
Þetta byrjaði nú ekki alltof vel. Við misstum af lest, eiginlega um leið og við komum á lestarstöðina og vorum að kaupa miðana til New York, þá kom lest... og fór. Þannig að við vorum orðin of sein til að hitta íslensku pörin á tilætluðum tíma, 14:30, en við komumst til Penn Station um 15:00, um leið og tónleikarnir áttu að byrja. Við hoppuðum í leigubíl og brunuðum í Central Park, komum þangað um 20 mín yfir og þetta leit vel út. Heyrðum í Vínil spila og þeir hljómuðu bara vel. Ég var pakkaður, það er að segja, ég var með Vídeóvélina og myndavélina. En þegar ég ætlaði inn á svæðið þá var okkur meinaður aðgangur, af því að engar vídeóvélar máttu koma inn, og heldur engar Flash myndavélar. Nú voru góð ráð dýr. Við stóðum fyrir framan innganginn og vissu ekki hvað við ættum að gera. Þannig að við hringdum í Ernu og hún senda Orra til okkar. Við ákváðum að fara með leigubíl, að bílnum þeirra og kasta myndavélinni inn þar. Andrea, Rúna og Kristófer fóru inná svæðið og hlustuðu á hljómleikana. Við Orri komum síðan aftur eftir svona 45 mín. og náðum nokkrum lögum með Maus, sem var kölluð "Mouse" á ensku. Síðan kom að Jagúar og voru þeir áberandi bestir, þeir fengu allt fólkið með sér í stuð og þeir voru alveg frábærir. Held að kanin sé alveg að fíla Jagúar. Þetta var mjög skrítið samt að vera þarna, í Central Park í New York, og söngvarinn kallaði að íslenskum sið, "Eru ekki allir í stuði!!!" Síðan var þarna happdrætti þar sem möguleiki var á að vinna ferð fyrir 2 til íslands, við náðum okkur í eins marga miða og hægt var og fylltum út, en viti menn... þetta happdrætti var bara fyrir ríkisborgara bandaríkjana, en við ákváðum að taka bara samt þátt og láta þá bara rífast ef við skyldum vinna. Það kom ekki til þess, þar sem við unnum ekki... skrítið.
Á leiðinni heim gengum við með öllu liðinu, Ernu, Orra, Hildi og Einari í átt að bílnum þeirra Ernu og Orra. Þá rákumst við á svona hóp af svertingjum sem voru að dansa og hoppa eins og ég veit ekki hvað. Handahlaup, flip-flopp og hvað þetta allt heitir, það varð bara hápúnkturinn hjá Kristóferi, hann tróð sér fremst hjá fólkinu sem var að horfa og það heyrðist í honum annað slagið, "", "Vááááá".
Síðan kom að lestarferðinni heim, við komum á stöðina um 19:30 og lestinn fór ekki fyrr en um 20:01 þannig að við tók hálftíma bið. Það var nú samt fljótt að líða og þegar við komum í lestina fundumvið strax sæti þar sem við gátum verið öll saman, en lestinn fylltis langt umfram getu á 10 mín. og hef ég aldrei verið í lest sem var svona full. Ekki einu sinni á Rush Hour í New York. Fólk stóð allstaðar á göngunum og var lestinn bara troðinn. Við komum síðan heim um 21:00 og fórum beint á SubWay að fá okkur að borða, síðan fóru bara allir að sofa.
Niðurstaða dagsins er sú... Brilliant að vera þarna og hlusta á íslenskar hljómsveitir í Central Park, en fúllt að hafa engar myndir til minningar um daginn. Þannig að þið verðið bara að ímynda ykkur hvernig þetta var.

Hafði það gott, Elmar og Co.

laugardagur, júlí 31, 2004

New York, here we come...
Við erum að fara til New York á eftir, eftir svona klst. og ætlum þar að fara í Central Park að horfa á þrjár íslenskar hljómsveitir spila þar. Jagúar, Maus og Vínil. Þetta verður sannarlega menningardagur. Morguninn lofaði nú samt ekki góðu þar sem það rigndi rosalega hérna í svona 30 mín. en sem betur fer var það bara "Hitaskúr", rignin sem kemur þegar hitinn verður of mikill. Planið er að taka upp nóg af efni á tónleikunum og setja svo inná netið strax í kvöld, þannig að þið ættuð að geta horft á það, ásamt nokkrum ljósmyndum, strax í kvöld... eða í fyrramálið. Meira um hvernig fór þegar við komum aftur.

Bless í bili, Elmar og Co.

mánudagur, júlí 26, 2004

Philadelphia
 
Við heimsóttum Philadelphia í gær, það var mjög gaman að skoða þá borg.  Við fórum um 2 leitið af stað og vörum kominn um 2:30.  Engin umferð og flott að vera svona fljótur á leiðinni.  Stelpurnar voru mjög hrifnar, þarna er nefnilega verslunarhverfi eins og laugarvegurinn og víst mikið ódýrara þarna en í New York eða New Jersey.  Söluskatturinn er eitthvað lægri líka þannig að það vann saman.  Rúna keypti sér flotta skó á um $15 og var mjög ánægð með þá.  Við sáum líka "City Hall" og einhvera kirkjur þarna, mjög flottar byggingar og miðbærinn almennt mjög hreinn og flottur.  Einn munur sem ég tók mikið eftir miðað við New York, það er meira um útigangsfólk og betlara þarna.  Í New York sér maður þetta fólk ekkert, þeim er líklegast skutlað í fangelsi ef þau eru eitthvað mikið að betla en þarna fá þau alveg að vera í friði.  Við ætlum okkur svo sannarlega að skoða þessa borg betur, stutt að fara og ódýrt að versla... er hægt að biðja um meira ?

laugardagur, júlí 24, 2004

Blogg...blogg...blogg...blogg!
Jæja...þá er bloggið fyrir daginn í dag komið :)

fimmtudagur, júlí 22, 2004


Kristófer Posted by Hello
Hæ Kristófer hér...
Langaði bara að láta ykkur vita að ég er sko komin með mína eigin heimasíðu á Barnalandinu...hvar annarstaðar, maður er ekki maður með mönnum nema eiga síðu þar er mér sagt :)
Mamma er reyndar ennþá eitthvað að stússast í henni svo að hún er kannski ekki alveg fullkláruð...en ég gat ekki haldið í mér lengur.
Endilega kíkið hérna.
Bestu kveðjur,
Kristófer Leó.
 
 
Allt í gúddí héðan...
Essý og strákarnir ætla að koma hérna við hjá okkur á leið sinni til Flórída. Emmi sækir þau annað kvöld á flugvöllinn í Baltimore og þau gista hérna hjá okkur eina nótt. Það er alltaf gaman að fá gesti...mættu samt alltaf vera fleiri  ;) Við erum byrjuð að taka á móti pöntunum fyrir jólin, fyrstir koma, fyrstir fá!
Annars er bara rólegheit hérna á okkur þessa vikuna...engin ferðalög a.m.k. Við erum búin að vera dugleg að ferðast um allar trissur þetta sumarið.
Við höfum líka öll verið mjög dugleg í gymminu, við Rúna erum nú loksins farnar að sjá smá árangur erfiðisins...amk. eru tölurnar á vigtinni farnar að síga niður á við, í stað uppá við, fyrstu vikurnar. Emmi fer líka á hverjum morgni áður en hann byrjar að vinna, komin með æfingaplan og alles, Högni gym-gúrú setti það saman fyrir hann um helgina.
Svo bíð ég bara spennt við símann því tvær vinkonur mínar eiga von á sér á næstu vikum, báðar settar á sama tíma. Arna vinkona á Íslandi og auðvitað hún Fanney í Virgininu. Gaman-Gaman!
Nú svo eru auðvitað tónleikar í  NYC um þarnæstu helgi með Jagúar, Vínil og einu öðru bandi sem ég man ekki hvað heitir?! En við ætlum að reyna að komast á þá. Skylst að Íslendingar þar í borg fjölmenni á svona viðburðum.
Við erum öll orðin húkkt á mini-golfi hérna, förum amk. einusinni í viku.  Ætlum einmitt að skella okkur í dag á nýjann völl hérna í nágrenninu, og hann á að vera í röð flottustu mini-golf valla í Ameríku. 
En bið að heilsa í bili...
Andrea framtíðar fyrrverandi bolla ;)   

 

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Hæ-delí-hó-delí....
helgin var alveg brill hjá okkur. Við ákváðum með engum fyrirvara að skella okkur bara til Virginiu og heimsækja gengið þar og vorum yfir helgina hjá þeim í góðu yfirlæti...eins og ávallt. Við ætluðum að drífa okkur snemma á föstudagsmorgun, þá meina ég ELD-SNEMMA. Vekjaraklukkan okkar öskraði á okkur í einn og hálfan tíma, án árangurs, áður en við rumskuðum og þá var hún orðin hálf sjö. Við erum greinilega ekkert fyrir það að vakna á svona óguðlegum tíma.  En það var orðið of seint að leggja í hann (vinnan hans Emma kallaði) svo að við frestuðum ferðinni fram á laugardag. Það gekk nú svosem alveg ágætlega, en tók bara alltof langan tíma sökum umferðar...7 tíma... AÐEINS! Svo að það verður ekki farið til þeirra aftur...ALLAVEGA ekki á laugardegi ;) En heimferðin gekk nú heldur betur fyrir sig því við fórum þetta á leiftur hraða, engar umferðateppur eða vegaframkvæmdir sem töfðu fyrir okkur og allt í allt var þetta 4 1/2 tími. Annars var þetta bara sama gamla góða rútínan hjá þeim, golf hjá köllunum og búðir hjá okkur stelpunum, og svo auðvitað spilað og étið eins og maður ætti lífið að leysa. Við reyndar skruppum líka í bíó, fórum á Notebook, sem er svona 5 klúta mynd eins og Fanney lýsti henni.
Jæja við ætlum að skella okkur í mini-golf eða keilu núna.
Eitthvað af myndum var tekið og við skutlum þeim væntanlega inn í dag eða á morgun.
Until next time....
Andrea-Out! (Æl!)
 

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Golfæði
Um hefur gripið sig golfæði hjá fjölskyldunni.  Þegar pabbi var hérna tók hann sig til og  fór ekki aðeins í golf, heldur keypti hann flottasta golfsettið sem hann fann.   Hann síðan dró mig á golfvöllinn (Þurfti nú ekki að grátbiðja) og hreinlega malaði mig.  Hann vann mig fyrst með einu höggi og síðan með 3-4 höggum.  En mér til málsbóta, þá vann ég hann í Poconos Fjöllunum með 5-6 höggum, þannig að hann verður að koma hingað aftur að ári til að halda sér við í golfinu.  Hann að vísu hótaði að fara að taka þátt í mótum heima á Bolungarvík, og vona ég að hann standi við það, því hann stendur sig alveg hreint mjög vel.
Síðan eru það Rúna og Kristófer, en þau eru mjög dugleg að koma með mér á Driving Range-ið og slá kúlur þar út í bláinn.  Bæði standa þau sig mjög vel og er gaman að sjá hvað þetta er fljótt að koma hjá þeim.  Síðan förum við bara í míni-golf á eftir og er það í uppáhaldi hjá Kristóferi.  En núna í dag fór hann fjórar holur á tveimur höggum og er það persónulegt met hjá honum.  Rúna átti sem skot dagsins, en hún fór eina holuna glæsilega á holu í höggi.
Andrea er nýjasta fórnarlambið, hún er farinn að tala um að hún vilji prófa, en það er erfiðara en hjá öðrum þar sem hún er örvhent, og kvennmaður, en engin golfvöllur sem ég hef farið á hingað til bíður uppá leigusett fyrir örvhentan kvennmann.
 
Síðan er komið nokkursskonar heilsuæði á heimilið, stelpunar eyða að meðaltali 2-3 tímum á dag í ræktina og aðrar æfingar þegar heim er komið, þær eru líka að breyta mataræði sínum og hefur sjaldan jafn lítið nammi verið innbyrt á þessu heimili, ég er hræddur um að þær eiga eftir að hverfa fljótlega með þessu áframhaldi.
Ég fer á morgnana í ræktina, hleyp eitthvað í svona 20-25 mínutur, pumpa svo einhver járn upp og niður, fram og tilbaka.  Þetta gerir manni bara gott og bætir þolið hjá mér, þannig að það verður auðveldara að ganga hringina í stað þess að keyra á golfkerrum alltaf hreint.
 

sunnudagur, júlí 11, 2004

Jæja þá eru Bíbí og Víðir farin...tíminn hefur hreinlega flogið á meðan þau voru hérna. Kannski ekki skrítið, því við höfum verið ansi dugleg að ferðast og skoða ýmsa áhugaverða staði. Þau fóru t.d. 3svar til NYC, Washington, Poconos í Pensylvaniu í viku, Princeton og að sjálfsögðu í ótal moll sem eru hérna á víð og dreif í N.J.
Það var heldur skrítið að vakna í morgun og enginn úti á svölum til að halda manni félagsskap yfir morgun sígarettunni. Dagurinn í dag hefur verið heldur daufur hjá okkur og lítið gert af viti, farið í laugina og svo rúntað eftir ís og svo smá rölt í parkinum, en hitinn en hitinn endaði með að flæma okkur burt (fyrsta alvöru hitabylgjan er að ganga yfir...úff). Kristófer er alveg með það á hreinu að þau komi aftur eftir tvær vikur, ekki næsta mánudag heldur þarnæsta. En við erum enn með gest hérna hjá okkur og eins gott að leggjast ekki í neitt volæði yfir þessu. Rúna verður hjá okkur til 13 ágúst ef ég man rétt, og það er ýmislegt sem við verðum að sýna henni áður en hún fer frá okkur. Eins og t.d. um næstu helgi er planið að fara til NYC og m.a. skoða Empire State Building og rölta um nærliggjandi hverfi. Svo er Six Flags skemmtigarðurinn ofarlega á óskalistanum hjá okkur, eins gott að skella sér þangað fyrst maður hefur einhvern sem kannski þorir í tækin með manni. Andrea er svo hrædd við svona rússíbana, finnst þetta bara rugl og vitleysa að hætta sér í svona apparöt.

miðvikudagur, júní 30, 2004

Langaði bara svona rétt að láta vita af okkur hérna...
Það er heilmikið búið að gera síðan síðan var uppfærð síðast. Áður en við skelltum okkur í fjallaferðina komu Essý, Gylfi og co hingað til okkar og gistu hérna hjá okkur í tvær nætur. Það var nú ekki um annað að ræða en að skreppa í "The big apple" með litlu gestahjörðina okkar og skoða það helsta þar. Á sunnudeginum var svo haldið af stað uppí Poconos fjöllin, í Pennsylvaniu, ásamt fríðu föruneiti. Ferðin gekk mjög vel og allir ánægðir með staðinn og nágrennið. Mamma og pabbi voru einstaklega dugleg í daglegum gönguferðum og eignuðust vini þarna í Poconos. Ég og pabbi afrekuðum að fara tvisvar í golf og stóð karlinn sig miklum sóma, og hafði hann orð á því að hann sæi alveg fyrir sér að stunda golf í ellinni. Ég tók síðan Kristófer, Rúnu og Daníel á "Driving Range" þar sem við slóum gólfkúlum af mikilli innlifun, en Kristófer fékk, ásamt Spiderman veiðistöng, alvöru gólfsett fyrir 5-8 ára í afmælisgjöf og á þeim 3 skiptum sem við höfum farið á "Rangið" hefur hann tekið miklum framförum. Þetta er nátturlega gert í mikilli eigingirni hjá mér þar sem mig vantar gólffélaga hérna í New Jersey, og þar sem konan harðneitar ennþá að taka upp golfkylfu þá snéri ég mér að saklausa barninu og ætla mér að þröngva því á þessa stórhættulega braut sem golfi er. Við skemmtum okkur mjög vel í golfinu a.m.k. Þarna var líka farið í hjólabátaferðir, tennis, körfubolta, mikið veitt (a.m.k. reynt, því einginn beit) og mikið étið, drukkið og hlegið, þetta var allt í allt mjög skemmtileg ferð. Þegar heim kom tók síðan "alvaran" við, ég enn í fríi og byrjaði því vikan á því að við pabbi skelltum okkur í ræktina, tókum hana nátturulega með troppi. Síðan daginn eftir, og hvern dag þar á eftir hafa Andrea og Rúna, ásamt mér og pabba af sjálfsögðu farið í rækina samviskusamlega. Við erum öll að koma í hörku form :) Þetta er svona frekar þurrt hjá mér núna en það er bara of gaman til að eyða tíma hérna við tölvuskjáinn og skrifa um allt sem á daga okkar drífur þegar það er svona gaman að upplifa þá, einnig í fríunu mínu vil ég eyða sem minnstum tíma hérna, vona að þið skilið. Ég ætla samt að reyna að seta nokkrar "Home-movies" sem hafa verið tekar upp á þessu tímabili hérna hjá okkur einhverstaða á netið þannig að hægt verði að horfa á. Ég læt ykkur vita um leið og þær eru komnar á góðan stað. Ég s.s. notaði allan þann pening sem ég fékk í afmælisgjöf til að kaupa mér digital vídeókameru og hef verið óstöðvandi síðan, ef ykkur fannst ég vera slæmur og hættulegur með myndavélin... "you ain´t seen nothing yet" :)

fimmtudagur, júní 17, 2004

Takk fyrir okkur
Ég og Kristófer vildu koma á framfæri þakklæti fyrir þær kveðjur, símtöl, gjafir og heillaóskir sem okkur bárust á afmælum okkar, þann 15. og 17. júní. Kæru vinir og fjölskylda, takk kærlega fyrir okkur.
Hæ hó jibbí jeei jibbí jei það er kominn 17. júní!
Elsku Kristófer Leó okkar, innilegar hamingjuóskir með 6 ára afmælið. Við elskum þig. Kossar og knús, pabbi og mamma.
Dagurinn í dag verður spennandi því við ætlum að koma Kristófer á óvart og fara með hann í skemmtigarð sem heitir Six Flags og auðvitað verða gestirnir okkar Víðir, Bíbí og Rúna dregin með í för.
Annars er búið að vera voða mikið að gera hjá okkur undanfarna daga svo við höfum ekkert náð að drita hérna inn. Von er á Gylfa, Essý og strákunum þeirra hingað á morgun og ætla þau að gista hér í tvær nætur. Á laugardaginn er stefnan sett á NYC í smá túristaferð með alla gestaflóruna sem verður hjá okkur. Á sunnudagsmorgun er svo komið að sumarhúsaferðinni okkar uppí Poconos fjöll Pennsylvaniu, það verðum við öll í viku og Högni, Fannsa og Hildur verða í 3 nætur. Svo að ekki verður bætt úr bloggleysinu næstu vikuna.
Hafið það sem allra best og gleðilegan 17. júní.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Elskan okkar, hann Elmar, á stór afmæli í dag. Hann er orðinn þrítugur kallinn! Við fjölskyldan viljum senda honum innilegar hamingjuóskir. Knús og kossar, Andrea og Kristófer Leó.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Skólaferðalag...
Ég undirrituð fór í mína fyrstu vettvangsferð í dag með skólanum hans Kristófers í dag. Við vorum vel græjuð með nesti og nýja skó, og að sjálfsögðu var góða skapið með í för. Essý veðurfræðingur tilkynnti mér það á sunnudaginn að það ætti eftir að verða gríðarlega heitt í dag og það stóðst eins og steinn yfir steini. Hitinn fór uppí 34 gráður þegar heitast var. En svo ég snúi mér nú aftur að vetvangferðinni...Já, ferðinni var heitið á Howell Living History Farm . Það er bóndabær í 19. aldar búningi og allt fólkið sem býr þar(starfsfólkið býr á svæðinu), klæðist og starfar eins og bændur gerðu hér áður fyrr. Mér fannst nú sumir þarna taka hlutverki sínu full alvarlega, því ábúendur voru ýmist tannlausir, angandi af ýmsum ónefndum líkams-fílum, ógreiddir, grút skítugir og þar fram eftir götunum. En hvað um það :) Vinnukona tók á móti börnunum og haldið var af stað í tveggja tíma ferð um svæðið. Þar fengu þau að klappa dýrum og fræðast um þau, vinna ull, mala þurrkaðan maíis,týna egg og ýmislegt fleira. Börnin höfðu rosalega gaman af þessu en þetta mátti ekki vera mikið lengra, því sólin var komin hátt á loft og flestir orðnir svangir og þyrstir. Eftir að allir voru búnir að borða, var farið í leiki, og stuttu seinna kom rútan að sækja okkur. Ég tók eitthvað af myndum og þær eru komnar inn.
Á morgun verður svo útskriftarhátíð hjá Karate félaginu hans Kristófers og á að fá rönd, að mér skilst, á beltið sitt og viðurkenningu. Auðvitað flaug hann í gegnum lokaprófið, honum finnst þetta líka svo rosalega gaman. Var ég búin að segja ykkur frá því að hann er orðinn Karate Kid aðdáandi númer eitt!?
Og svo á föstudag verður haldið afmælispartý í skólanum. Við Kristófer fórum í búðir í dag að versla dót og nammi fyrir "partý kveðju pokana",eins og ég kýs að kalla þá...veit einhver hvað þessir "goodie-bags" kallast á íslensku? Ákveðið var að hafa þemað í anda Shrek II. Það verður áreiðanlega svakalegt fjör, við verðum dugleg að taka myndir og setjum þær svo hingað inn.

mánudagur, júní 07, 2004

Hellú!...Did ya miss us?

Sorrý hvað ég er búin að vera löt að skrifa undanfarið, en hef þjáðst af ritstíflu af háu stigi en ég ætla að reyna að hrista eitthvað fram úr erminni, hér og nú. Eins og þið kannski vitið flest, var Memorial Day weekend hjá okkur um þar síðustu helgi og við ákváðum að skella okkur til Virginiu í heimsókn. Heimsóknin byrjaði nú ekki vel, því að stuttu eftir að við komum datt Kristófer aftur fyrir sig á hillusamstæðu og fékk þetta líka rosalega gat á höfuðið. Við brunum á næstu læknavakt til að láta sauma sárið, því þetta var frekar stórt. Læknirinn þurfti að sauma heil 6 spor. Reyndar var hún (læknirinn) eitthvað efins um að hún gæti saumað hann, því hann væri svo ungur og líklegur til að geta ekki verið kyrr, og vildi senda okkur á næsta spítala. En auðvitað stóð þessi elska sig alveg eins og hetja, var alveg kyrr allan tímann á meðan hún saumaði og var meira að segja hálf sofandi. Þegar læknirinn var búinn að græja sárið sagði hún að hún hefði aldrei saumað barn sem væri svona rólegt og þaðan af síður næstum sofandi. Svo fer hann á morgun til læknis til að láta fjarlægja saumana.
Emmi og Högni voru duglegir í golfinu og fóru 3svar hvorki meira né minna. Við stöllurnar vorum nú frekar rólegar á því og fórum "BARA" einusinni í mollið ;) Ég kom eins og svo oft áður, nánast tóment heim úr þeim leiðangrinum.
Fannsa og Högni settu upp, í garðinum hjá sér, þennan stór fína leikvöll. Svo að Hildur og Kristófer eyddu tímunum saman í það að dunda sér þar.
Sl. helgi fór nú bara að mestu í búðaráp. Við skruppum í Ikea á laugardaginn, þar fjárfestum við í patio-setti, sjónvarpsskáp fyrir Kristófer ásamt ýmsu smálegu. Svo á sunnudaginn var ákveðið að kíkja í stærsta Outlet-mall í New Jersey, Jersey Gardens, við hefðum alveg eins getað sleppt því. Við ráfuðum þarna um í 4 tíma og komum tómhent út...og geri aðrir betur. Við verðum að fara með gestina góðu í þetta moll, þvílíkt ferlíki, 220 verslanir ef ég man rétt.
Næstu dagar eru orðnir ansi þéttir, og nóg fyrir okkur að gera til að flýta tímanum. Emmi þarf að fara eitthvað til NY að vinna, ég er að fara með bekknum hans Kristófer í ferð á miðvikudaginn og á föstudaginn verður haldið uppá afmælið hans Kristófers í skólanum. Það eru 4 börn í bekknum hans Kristófers sem eiga afmæli núna í júní og við ætlum að halda stórt sameiginlegt afmæli fyrir þau. Það er búið að panta galdramann og svo verða að sjálfsögðu "cup-cakes", drykkir og snakk, og svo hinir alræmdu og eftirsóttu, Amerísku "goodie-bags", sem eru pokar fullir af dóti og sælgæti sem gestirnir fá með sér heim. Svo seinnipartinn verður brunað útá JFK að sækja gestina okkar. Þess á milli verður maður á "fjórum" með tannburstann að skúra, skrúbba, og bóna, gera allt spikk og span áður en gestirnir koma.

sunnudagur, júní 06, 2004

Beauty
You are Barbabelle! You know how to look good--of
course. You love fashion and you know how to
strut it!


Which Barbapapa Personality Are You?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, júní 01, 2004

Myndir komnar

Það eru komnar myndir úr Virginíu ferð okkar númer 2. Nánar um ferðina kemur örugglega frá Andreu síðar. Smellið á linkinn hérna til hliðar til að sjá nýju myndirnar.

föstudagur, maí 28, 2004

Okkur langar að senda Daníel vini okkar hamingjuóskir með útskriftina úr Orchard View. Og auðvitað fékk drengurinn topp einkunnir og fjöldann allan af viðurkenningum. Og ekki nóg með það, svo fékk hann líka ferð í Universal Studios í viðurkenningarskyni fyrir góðan árangur! Til hamingju!
Ein mesta ferðahelgi helgin í Ameríku er að renna í garð...
Já, Memorial Day Weekend er framundan með einn af þessum alltof sjaldséðu rauðu dögum í farteskinu. Fyrsti frídagur ársins er á mánudag. Ótrúlegt að það skulu bara vera 6 frídagar á ári hérna. Hvað eru þeir annars margir heima...16 eða svo? Við vorum að ákveða rétt í þessu að húka ekki hérna í "volæði" yfir helgina, heldur bregða undir okkur betri fætinum (hann nebblega safnar bara ryki inní skáp ;) og skreppa til Virginiu!!! Já, kíkja á Fey, Hogní og Hildi. ÚÚÚlalala hlakka so til. Við ætlum að reyna að rusla okkur af stað fyrir sólarupprás, svo við vonandi náum að vera á undan umferðinni í Washington. Umferðin þar er svo svakaleg á annartímum að það getur munað 1-2 tímum ef við verðum á undan henni. Annars veit maður ekkert hvernig umferðin er yfir þessa helgi, gæti verið stappað uppúr og niðrúr því allir eru að fara eitthvað...en við vonum það besta.
Annars langar mig að stressa við ykkur að nýta ykkur nýjungina, kjafta-boxið, hérna á síðunni okkar (uppi til hægri). Ferlega sniðugt ef þið viljið koma skoðunum eða bara hverju sem er (nema kannski smá auglýsingum...hahaha)á framfæri eða taka þátt í umræðunni sem er í gangi hverju sinni(sem reyndar hef ekki verið fjörleg hingað til, en vonandi stendur það til bóta með ykkar hjálp ;) Þið getið líka, ef þið eruð spéhrædd, skrifað undir dulnefni.
Góða Hvítasunnuhelgi!
Andrea Out!

miðvikudagur, maí 26, 2004

...í dag eru 16 dagar þar til Víðir, Bíbí og Rúna systir koma...júbbbídú! Og svo þegar þau eru komin, eru bara 4 dagar í the big 3-0 hjá Emmsa, 6 dagar í 6 ára afmæli Kristófers og 9 dagar í Pennsyvaniu-fjalla-sumarhúsa-ferðina. Það vantar ekki aksjónið hjá okkur á næstunni.
Túrílú :)
Hæ hó,
það er mest lítið í fréttum svosem :S Í dag er frekar kalt hérna og rigning í aðsigi, maður heyrir í þrumunum í fjarska. Já...og þið þarna sem voruð svo lánsöm að fara á Pixies í gær...ég öfunda ykkur ekki neitt ;) Ég sem er Pixies fan numero uno að missa af þessum viðburði...sorglegt. Eeeen, það er ekki öll von úti enn. Þeir eru búnir að plana eitthvað af tónleikum hérna í US í sumar og haust. Reyndar eru engir hérna í nánasta nágrenni en vonandi eiga þeir nú eftir að bæta því við. Ég amk. krossa fingur og tær!

mánudagur, maí 24, 2004

Sól sól skín á mig...!
Takið eftir hitamælinum á heimasíðunni okkar!
...BARA PÆLING!
189 sjónvarpsstöðvar og ekkert í sjónvarpinu! Já, þetta er oft meinið og þá sérstaklega um helgar, ótrúlegt en satt. Ég heyri marga tala um þetta. Sjónvarpsstöðvarnar tíma víst ekki að splæsa á gott sjónvarpsefni um helgar því þá eru þeir komnir í samkeppni við bíóin. Oft flikkar maður á milli allra þessara stöðva og á öllum eru auglýsingar, annaðhvort lyfja-eða bíla auglýsingar. Þetta virðast vera stærstu kúnnarnir í auglýsingabransanum, að undantöldum einstaka bjór- (þá einkum carb free bjórar, því það er "carb-craze" að tröllríða öllu hérna)eða sjampó auglýsingar, þar sem konur eru með heilu handlóðin í fléttu, til að sýna fram á hversu sterkt hárið verður við að nota viðk. sjampó.
Maður fer oft að hugsa hvort það sé e.t.v. eitthvað alvarlegt að hrjá mann, þegar lyfja auglýsingarnar telja upp hin og þessi einkenni, og oft einkenni sem ég hefði talið vera ósköp eðlileg, amk. upp að vissu marki. "Þjáist þú af verk í stóru tá, blikkar þú augunum oftar en góðu hófi gegnir eða færðu stundum náladofa í litla putta? Ef svo er, gætir þú þjáðst af adult TDF og lyfseðisskylt Strattera gæti frelsað þig undan þessum hvimleiðu-og oft félagslega einangrandi kvillum". Svo í endann á auglýsingunni sér maður "læknaðan" einstakling valhoppa berfættan á fallegu engi, og á meðan er rulla um skaðleg áhrif viðkomandi lyfs lesin upp á ógnvæglegum hraða svo það líkist Andrési önd, og oftar en ekki, eru þau mun verri og fleiri en einkennin sem við komandi lyf á að lækna. Nú eða bílauglýsingarnar sem "undir rós" segja karlmenn ekki vera sanna karlmenn, nema þeir eigi pallbíl með Hemi vél(hvað sem það nú er? Áreiðanlega eitthvað sem karlmenn einir skilja)?!
Reyndar meiga þeir nú eiga það að auglýsingarnar hérna er oft á tíðum mjög fyndnar. Og sumar jafvel lagðar þannig upp að þær eru eins og "framhalds" auglýsingar eða mini-sápuópera. Jú, og svo dúkka stundum upp einstaka "heimatilbúnar" auglýsingar sem að mínu mati eru þær allra fyndnustu, því þær stinga svo í stúf við auglýsingarnar frá RISUNUM sem virðast eiga botnlaust fjármagn til að dæla í auglýsingagerð. Og þá flýgur ein sérstaklega í höfuðbeinið sem er frá húsgagnaverslun hérna í nágrenninu og heitir The Jarons. Tveir fýrar sem óneitanlega minna mann á Steina og Olla, einn lítill og breiður, og annar hár og grannur. Svo standa þeir þarna með sína káboj-hatta, klipptir inná mynd með dansandi húsgögnum og syngja ofur falskt og dilla sér í takt við trommuheila frá '85. Svo enda þeir félagarnir á að segja..."Were the Jaron brothers And we mean serious buisness!".

sunnudagur, maí 23, 2004

Ó MÆ GÚDNESS!
Þvílíkur og annar eins hiti...það er nánast óbærilegt hérna! Hitinn fór uppí hvorki meira né minna en 33 stig í dag, þegar best lét. Núna er klukkan rúmlega 18 og hitinn enn yfir 30 stigum. Skruppum í parkinn í dag með pikknik töskuna okkar, fulla af góðgæti og láum þar eins og skötur. Við gáfumst fljótt uppá því að spila fótbolta og vera í eltingarleik, hitinn var svo mikill. Það endaði með því að við hrökkluðumst með nestið okkar í skuggann, því svitinn rann í stríðum straumum af okkur...mmmm, kannski einum of grafískar lýsingar hjá mér en svona er þetta bara. En þetta er þó skömminna skárra en -17 stiga frostið sem var hérna, ekki alls fyrir löngu.

Kristófer á mæðradaginn í skólanum sínum. Posted by Hello

föstudagur, maí 21, 2004

Langaði bara að segja ykkur frá sumarhúsinu sem við erum að fara að taka á leigu. Ákváðum eftir mikla og ítarlega leit að húsi á ströndum New Jersey, að hætta við það því við fundum ekkert sem var laust eða hentaði okkur. Okkur skilst að kaninn geri þetta með árs fyrirvara. Við Fannsa erum búnar að liggja á netinu, dag og nótt. En við dóum ekki ráðalausar og fundum þetta líka huggulega hús í fjöllum Philadelphia. Það er ekki búið að festa þetta enn, en það gerist vonandi á næstu dögum. Þarna er að finna heitan pott á veröndinni, leikherbergi með pool borði, strönd við vatn í göngufæri, það er líka hægt að renna fyrir fisk þarna og kíkja í fjallgöngur svona svo fáeitt sé nefnt. Endilega kíkið á þetta hérna.
Emmi er búinn að staðfesta sitt sumarfrí og verður hann í frí, í hvorki meira né minna, en tvær heilar vikur! Já, minn verður bara í frí frá 21 júní til 4 júlí. Ég man eftir einu skipti sem hann hefur áður tekið sér 2ja vikna samfellt frí...það var árið 2000 ef ég man rétt. Svo að þetta verður langþráð frí hjá honum.
Okkur langar að senda vinkonu okkar, hennar Agöthu í Georgiu, alveg spes kveðju. Hún var nefnilega að útskrifast úr Kinndregarten í gær og henni gekk rosalega vel, fékk alveg hrúgu af viðurkenningum fyrir frábæran árangur.Til hamingju!
Doctor doctor can you help me...durududu :)
Jæja, við höfum núna fengið smjörþefinn af paranojunni í Ameríkananum. Já ó já, á mánudagsmorgun vaknaði Kristófer með þessa fínu frunsu. Sem væri kannski ekki í frásögum færandi nema fyrir það að Kristófer hefur verið fastagestur á biðstofu hjúkrunarkonunnar í skólanum...alla vikuna! Ég bara spyr...hellúú, þetta er ein lítil frunsa?! Já umsjónarkennaranum hefur þótt þetta ástæða til að senda greyjið Kristófer ítrekað til hjúkkunnar. Á miðvikudaginn vorum við hreinlega tekin í kennslustund hjá hjúkkunni, FRUNSA-911, þar sem hún lét okkur hafa heilan innkaupalista yfir undralyf og plástra sem eiga að halda litlu frunsunni hreinni og fínni. Í morgun dulbúum við svo frunsuna með einu af þessum undrakremum (og sendum túbuna með í töskunni)....þegar við sóttum hann síðan í skólann, var minn bara kominn með þennan heljarinnar plástur, sem náði upp að nefi og langt út á kinn. Ég hef nú barasta aldrei lent í öðru eins! Man ekki til þess að frunsur hafi nokkurn tíma verið ástæða til læknisheimsóknar...og þaðan af síður, nokkrum sinnum á dag! En við vonum bara að þetta "ógurlega skrímsli" hjaðni yfir helgina svo Kristófer fái nú frið í skólanum fyrir paranojuðum kennurum og hjúkkum, sem mætti halda að aldrei hefðu séð frunsu!

miðvikudagur, maí 19, 2004

HA-HA-HA-HA-HA
Shrek II var alver frábær! Við grenjuðum á tímabili úr hlátri...held ég hafi aldrei séð Kristófer hlægja svona hátt og mikið! Mæli með þessari fyrir unga sem aldna...og allt þar á milli. Er hún ekkert á leiðinni í bíó heima á Íslandi?
...jæja, við ætlum að skella okkur í bíó. Það er verið að frumsýna Shrek II í dag. Og það eru sumir hérna á heimilinu búnir að telja niður síðan einhvertíman í mars, því spennan er svo mikil fyrir þessari mynd...og þá er ég ekki að tala um yngsta fjölskyldumeðliminn ;)
Old McDonald had a farm...íæíæó...!
Við vorum að koma heim af vor tónleikum í Eldridge Park (skólinn hans Kristófers). Það voru börn úr Kindergarten og fyrsta bekk sem sungu fyrir okkur. Og auðvitað var glókollurinn okkar þar á meðal en hann er í Kindergarten. Þetta var voða skemmtilegt hjá þeim og gaman að sjá hvað hann söng hátt og skýrt með hverju einasta lagi, eins og hann hafi kunnað þessi lög alla sína ævi. Kennarinn hans bað mig að koma, með henni og krökkunum, í vettvangsferð þann 7 júní. Stefnan er tekin á Howell Living History Farm og það er sveitabær er í Titusville. Þar á að skoða dýr og horfa á leikrit. Það verður svaka stuð!
Þessa dagana stöndum við í viðamikilli leit að góðu sumarhúsi. Planið er að taka stórt og gott hús á leigu í júní í tilefni þrítugs afmælis aðlila sem kýs að láta nafns síns ekki getið hér :) Við látum ykkur vita hvernig það fer.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Nýjar myndir
Við settum myndirnar okkar á www.ofoto.com en þar er hægt að skoða, prenta, vista og panta framkallaðar myndir ef ykkur langar að framkalla eitthvað af þessu hjá okkur. Ég hef ekki prófað það sjálfur en hef heyrt af fólki sem hefur gert það og verið mjög ánægð með árangurinn. Hérna til hægri er hægt að sjá "Myndirnar Okkar" og þar fyrir neðan "Júróvísion Partý" en þar eru myndirnar... bara að smella á og skemmta sér.

mánudagur, maí 17, 2004

Langaði bara að láta ykkur vita að heimasíðan okkar er "uppi". En við eigum ennþá eitthvað erfitt með að uppfæra hana.

sunnudagur, maí 16, 2004

19. sæti!
Stórglæsilegt ha? Annars vorum við öll sammála um það hérna, að Jónsi hefði verið alveg hrikalega falskur. Hvað segið þið sem horfðuð á júróið í sjónvarpinu? Var hann kannski svona því að hljóðið kom í gegn um internetið hjá okkur? En annars var svaka stuð hérna, Erna, Eyja, Orri og Úlfur voru hérna hjá okkur. Það var voða gaman að halda í gamlar hefðir og horfa á júróið í góðra manna hópi. Þau komu með rosa flott Spider man sundsett handa Kristófer og hann var ekkert smá lukkulegur með það. Strax og hann vaknaði í morgun mátaði hann græjurnar og við vorum dregin út í sundlaug...hann í rauðum sund stuttbuxum með svaka spiderman sundgleraugu, sundfit og grifflur! Okkur til mikillar furðu, var sundlaugin lokuð. Sem kom okkur á óvart því hún var opin í gær. Svo kíktum við oft við þar í dag, en aldrei opnaði hún. Kristófer var náttúrulega mjög svekktur með það.
Um kaffileytið í dag, sitjum við hjónin úti á svölum í okkar mestu makindum og heyrum allt í einu barnalegar melódíur óma hérna um allt hverfið. Við stukkum öll út til að kanna hvað hér væri nú á ferð, og viti menn, það var ísbíll hérna fyrir utan! Hann kom nú bara eins og kallaður þar sem við vorum á leiðinni út að fá okkur ís, til að kæla okkur niður. Hitinn hérna er orðinn all svakalegur.
Svo kíktum við fjölsan í keilu seinnipartinn, það var svaðalegt fjör. Kristófer náði meira að segja 3 feykjum!